Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 18:35:08 (5344)

1998-03-31 18:35:08# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[18:35]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Auðvitað verða þau að vera í eins konar skeytastíl. Ég tek undir það að mikilvægt er að þingmenn fái tækifæri til að sækja þingið ásamt fulltrúum utanrrn. Þetta eru mjög mikilvæg mál og ég hvet utanrrh. til að beita sér í þeim.

Varðandi flóttamannasamninginn þá hefur því verið svarað til í nokkur missiri að verið sé að vinna að breytingum á lögum um útlendingaeftirlit. Í vetur hefur verið hrúgað inn í þingið alls kyns málum sem sett hafa verið í forgang. Ég held að það séu um 80 eða 100 mál sem menn vonast til að ná út úr nefndum og gera að lögum núna á þessu vori. Auðvitað er dapurlegt að hugsa til þess að mál sem snúa að mannréttindum séu bara látin sitja á hakanum. Ég hvet utanrrh. til að beita sér fyrir því í ríkisstjórninni að þessi frumvörp komi hingað inn.

Ástæðan til að setja lög um Rúandadómstólinn er jafnmikil og að setja lög um Júgóslavíudómstólinn. Slík staðfesting ríkjanna þýðir að ef leita þyrfti að slíkum einstaklingum hér á landi þá væri lagagrundvöllur fyrir því. Þannig gildir hið sama um Rúandadómstólinn og Júgóslavíudómstólinn. Þar fyrir utan gefum við ákveðin skilaboðin með því.

Ég hafði á tilfinningunni að fulltrúi félmrn. hefði sótt kvennafundinn. Mikilvægast er hins vegar að vita hvort utanrrh. styður það að fulltrúar Íslands taki til máls á þessum fundum og styðji að kæruleiðin verði virkari heldur en sú veika tillaga sem lögð var fram. Ég óska þess að utanrrh. skrái þetta hjá sér og gefi það veganesti þegar farið verður aftur á næsta fund, að við styðjum að þetta verði virkt.

Aðeins í lokin, virðulegi forseti. Ég veit um þýðingu hinnar norrænu víddar en hún beinist eiginlega öll í norður og norðaustur. Hún beinist sáralítið að Vestur-Norðurlöndum, öðrum en þeim eru innan heimskautasvæðisins.