Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 19:11:28 (5353)

1998-03-31 19:11:28# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[19:11]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. utanrrh. greinargóða ræðu og skýrslu um utanríkismál og vil leyfa mér að taka undir nokkur af þeim sjónarmiðum sem hann hefur látið fram koma. Í fyrsta lagi tek ég undir það sem kemur einnig fram í skýrslu nefndar hans um framtíð utanríkisþjónustunnar að nauðsynlegt er fyrir okkur að hún sé ávallt öflug og endurskoðuð reglulega í ljósi breytilegra þarfa, hagsmuna og aðstæðna, ekki síst hversu við erum öðrum þjóðum fremur háð samskiptum við aðrar þjóðir um öll aðföng og afurðasetningu. Sérstaklega fagna ég þeirri tillögu nefndarinnar að koma á fót sendiráði í Kanada sem mér hefur löngum þótt bið eftir. Einnig fagna ég því sem annars staðar kemur fram í máli ráðherrans að á vegum EFTA eru hafnar eða er í undirbúningi að hefja viðræður við Kanada um fríverslunarviðskipti eða fríverslunarsamning, og vil nú leyfa mér að gera sem fyrr að inna eftir slíkum viðræðum eða möguleikum við Bandaríkin.

Það er rétt sem fram kemur í skýrslu nefndarinnar að víxlverkun málaflokka er veruleg og þess vegna nauðsynlegt að við höfum okkur í frammi í mörgum málaflokkum. Í því samhengi er rétt að nefna að á síðustu áratugum, ekki síst þeim sem nú er að ljúka, hefur alþjóðastofnunum fjölgað og þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að velja og hafna jafnan hvar Ísland á aðild og vega það og meta í því ljósi að við erum hvorki stór né áhrifamikil. En hins vegar fer áhrifamáttur okkar í hverri stofnun fyrir sig eftir því hve vel okkur tekst að velja og hafna.

Þá er þess að geta að við erum sjálf háð tiltrú annarra á raunhæfni og gott starf alþjóðastofnana. Þess vegna er nauðsynlegt að við leggjum þeim sjálf bæði gott orð og það framlag sem við getum. Í þessu samhengi vil ég nefna það sem fram kemur annars staðar í máli ráðherra að í skoðun er hvort við getum gerst aðilar að stofnun sem nefnd er skammstöfuninni CITES. Ég hef í hópi annarra þingmanna lagt til að við gerumst aðilar að þeirri stofnun eða a.m.k. rannsökuðum það til hlítar í því ljósi að á vegum hennar og á vettvangi hennar er fjallað um mikilvægustu hagsmuni okkar, þ.e. hvernig við nýtum sjávarauðlindir. Stofnunin hefur á síðari árum látið sig mjög varða hvernig þær afurðir eru markaðssettar og talið margar þær tegundir sem um ræðir vera í útrýmingarhættu, en þar eru einmitt ýmis sjónarmið önnur eða ólík sjónarmiðum okkar sem við teljum vel ígrunduð og góðar forsendur fyrir.

Gildi þátttöku í starfi alþjóðastofnana er mikið, einkum fyrir okkur, og þess vegna tel ég mikilvægt að þátttaka Íslands í hverri stofnun sé reglubundin og vel skipuð á vettvangi ráðherra, þingmanna, embættismanna sem og annarra starfsmanna. Ég tek því undir þau sjónarmið að gera ætti Íslendingum kleift að vera um sinn starfsmenn alþjóðastofnana og færa þannig fram sjónarmið Íslands og flytja hingað heim þau sjónarmið sem þeir heyra frá öðrum.

[19:15]

Ráðherrann gerir öryggismálum og varnarsamstarfi okkar við Bandaríkin og aðrar Atlantshafsbandalagsþjóðir ágæt skil. Ég hef velt því talsvert fyrir mér að undanförnu eftir fyrri umræðu um samninga um stækkun Atlantshafsbandalagsins með aðild nýrra ríkja að því hvers vegna skoðanir alþýðubandalagsmanna í þeirri umræðu eru svo ólíkar skoðunum okkar hinna og vel að merkja verð ég að viðurkenna að þeir eru þar í hópi afskaplega fárra a.m.k. meðal þeirra sem við hittum fyrir í grannlöndum okkar á þeim vettvangi sem öryggis- og varnarmál Evrópuríkja eru rædd. En kannski kann það að ráða einhverju í þessu að þeir þingmenn Alþb. og óháðra taka ógjarnan þátt í umræðum Evrópumanna um varnarmál og öryggismál og sérstaklega ekki innan hóps Atlantshafsbandalagsríkjanna. Ég verð að viðurkenna að ég hygg að þeirra sjónarmið hefðu hugsanlega orðið fyrir áhrifum af viðræðum við aðrar þjóðir eða þingmenn annarra aðildarríkja þess bandalags.

Það er rétt að við höfum gjarnan horft mjög á hlut Eystrasaltsríkjanna og þá verðum við að viðurkenna að í skrifum alþjóðlegra fjölmiðla á síðustu vikum um stækkun Atlantshafsbandalagsins og þeirra hlut hefur komið fram sú skoðun að hugsanlega muni hann ekki eins tryggur og menn hafi haldið á síðustu mánuðum og missirum. En það er líka rétt að við Íslendingar látum þau sjónarmið heyrast að næstu grannar þeirra í hópi Norðurlandabúa, þ.e. Finnar og Svíar, hafa ekki enn séð ástæðu til þess að yfirvega eða láta þá skoðun eða stefnu heyrast að þeir verði hugsanlega meðal aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins á næstunni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ef þessar tvær þjóðir hefðu verið aðilar að Atlantshafsbandalaginu þá hefði betur mátt tryggja tilveru og öryggi Eystrasaltsríkjanna, þ.e. þá hefðu bandalagsþjóðirnar verið þeim nær landfræðilega og átt auðveldara með að sýna öryggi í verki eða með aðgerðum. Hitt er mjög áberandi hve fulltrúar Eystrasaltsríkjanna reyna að nálgast Vesturlönd eins og þeir geta eins og nýlega kom fram þegar Evrópuþjóðirnar flýttu klukku sinni sem við ekki gerum lengur.

Auðvitað er það rétt að nauðsynlegt er að meta afstöðu og nágrenni Rússa. En við megum ekki falla í neina gryfju sem verður til þess að Rússar hafi neitunarvald um örlög nágranna sinna eða vilja þeirra til að tryggja tilveru sína og sjálfsákvörðunarrétt.

Í umræðunni í dag hefur eins og stundum áður verið talað um hugsanlegt nýtt kerfi alþjóðastofnana á sviði öryggismála. Ég verð að viðurkenna að ég tel að fram undan sé nýtt kerfi alþjóðastofnana á þessu sviði en það sé að fæðast á grunni þeirra sem starfað hafa til þessa. Ég tel rétt að geta þess að innan Atlantshafsbandalagsins, Vestur-Evrópusambandsins og ÖSE hefur verið talsverð þróun í verkefnum, í stefnumótun og afstöðu til einstakra mála og ég hygg að sú þróun muni færa okkur í framtíðinni nýtt kerfi alþjóðastofnana sem allar, hver á sínu sviði, fjalla um öryggismál í Evrópu og nágrenni hennar.

Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort hinn mikli fjöldi stofnana sem starfa á þessu sviði leiði til tvíverknaðar en ég er ekki viss um að við gerum rétt í að halda því mikið á lofti því að víðast hvar virðast þær bæta hver aðra upp.

Um varnarsamstarf okkar og Bandaríkjanna og raunar einnig við aðrar bandalagsþjóðir verður að geta þess að okkur er eins og öðrum mjög mikilvægt að stöðugleiki ríki því hann er grundvöllur að trausti og öryggi í samskiptum þjóða. Því höfum við kynnst á undanförnum áratugum og verið þess megnug í þessu samstarfi einu að leggja fram okkar litla framlag til öryggis og stöðugleika. Á annan hátt hefðum við sennilega ekki verið þess megnug. Hið nána samstarf okkar við Bandaríkin á þessu sviði er aðeins angi af mjög fjölbreyttu og góðu samstarfi Íslendinga og Bandaríkjamanna í mjög mörgum málaflokkum en þess vil ég þó geta í þessu samhengi að nú eru þeir tímar að hugsanlega kann að leiða til vandamála eða vandleikinna verkefna í samskiptum okkar á Íslandi. Mér sýnist sem sé að samningar og samskipti varnarliðsins við næstu nágranna sína um viðskipti við þjónustustofnanir sveitarfélaga á Suðurnesjum séu fremur erfiðir og menn þurfi að taka sig á, bæði við sjálf og samstarfsaðilar okkar, til þess að ná efnislegum tökum á þeim málum.

Ég vil að lokum sérstaklega fagna því hve ráðherrann veitir Ári hafsins mikla athygli og þeirri umræðu sem staðið hefur um mánaðabil eða raunar í mörg ár um loftslagsbreytingar og hvernig við þeim verður brugðist. Ég vil taka undir þær skoðanir að þar er sennilega okkar mikilvægasta viðfangsefni í samstarfi við aðrar þjóðir. Um leið og hæstv. ráðherra nefnir auðlindir hafsins verðum við að geta þess að í hafinu eru ekki aðeins okkar mikilvægustu auðlindir heldur er það sjálft grundvöllur allra lifandi náttúruauðlinda. Lifandi náttúruauðlindir eru okkar einu auðlindir og á þeim byggjum við atvinnulíf, efnahag og raunar það mannlíf allt sem hér er í dag. Þess vegna tel ég skipta máli að við höldum frammi þeim skoðunum okkar sem við höfum byggt upp eftir athuganir á auðlindum hafsins. Við þykjumst þekkja allvel til. Við þykjumst hafa nokkuð góða reynslu og við vitum sem er að til annars lífsviðurværis hverfum við ekki ef þær brestur. Mér finnst þess vegna skipta máli að við reynum að taka höndum saman með grannþjóðum okkar um vistvæna starfshætti í fiskveiðistjórn, þ.e. að við náum saman við granna okkar, Norðmenn og Rússa um veiðar í Barentshafi, náum saman við þá granna okkar og fleiri um viðbrögð við mengun sem virðist stafa frá starfsemi í Bretlandi og nánast að við náum yfirleitt góðu samstarfi og samskiptum við grannþjóðir okkar ekki aðeins á norðurhjara heldur á norðurhveli um öll viðfangsefni á þessu mikilvæga sviði, umhverfismál, náttúrulegar og lifandi auðlindir, mengunarvarnir og viðbrögð við spillingu náttúrunnar og þeirra stofna sem í henni lifa.