Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 19:22:58 (5354)

1998-03-31 19:22:58# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[19:22]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Margt athyglisvert og jákvætt kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh. enda hefur vel tekist til um margt í starfi hans og í starfi utanríkisþjónustunnar almennt en hún hefur á að skipa mjög góðu starfsliði sem er Íslendingum til sóma. Það er hins vegar ekki ætlun mín að halda lofrullu um starf utanríkisþjónustunnar eða hæstv. utanrrh. Öllu fremur vil ég rækja það hlutverk mitt að veita honum lýðræðislegt aðhald enda veitir ekki af í heimi sem er að verða nær samhljóma í lofsöng til markaðshyggju.

Af hálfu þingmanna Alþfl. var því sérstaklega og mjög ákaft fagnað hve hlýjum og lofsamlegum orðum hæstv. utanrrh. hefði farið um Evrópusamstarfið og hið Evrópska efnahagssvæði. Svo uppnuminn var hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþfl., að hann sagði að nú væri svo komið í sögu Íslendinga að öll upphefð kæmi að utan og átti hann þar við Brussel. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hvatti til rannsóknar á sögunni. Hann vildi láta rannsaka hvernig menn hefðu greitt atkvæði um hið Evrópska efnahagssvæði og vísaði þar sérstaklega til Framsfl. (Gripið fram í.) Ég vildi að Sighvatur Björgvinsson hefði haft örlítið víðari sjóndeildarhring og horft til þjóðarinnar allrar vegna þess að þjóðin gerði þá kröfu á sínum tíma að fá að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um hið Evrópska efnahagssvæði en var meinað um það af þessum sama þingmanni, Sighvati Björgvinssyni, og hans flokki og þeim aðilum sem þá fóru fyrir stjórn landsins. Í skoðanakönnunum sem voru birtar ítrekað kom fram að yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga vildi þjóðaratkvæði um hið Evrópska efnahagssvæði en var meinað um það þannig að á þessu getur ekki farið nein rannsókn þótt hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vilji gjarnan að menn rannsaki fortíð framsóknarmanna í þessu efni.

Hitt er alveg rétt að ýmislegt jákvætt hefur komið út úr samstarfi okkar við Evrópuþjóðir. Það er alveg rétt. En því er nú þannig farið að um flest af því jákvæða má segja að það eru breytingar sem við hefðum getað gert sjálf og þá er ég að vísa til breytinga sem hafa verið gerðar í ýmsum félagslegum efnum. Ég vara við því að menn dragi rangar ályktanir af þögn þjóðarinnar um EES. Menn nenna ekki að gangrýna sýknt og heilagt það sem þegar er orðið. Við erum stödd á hinu Evrópska efnahagssvæði og reynum að sjálfsögðu að gera hið besta úr því sem þar er að finna. En ég vil taka það undir að full ástæða væri til þess að rannsaka þau áhrif sem hið Evrópska efnahagssvæði hefur haft á íslenskt þjóðlíf og þá ekki síst lýðræðið í landinu vegna þess að með þeim sáttmála sem við gerðum þegar við gengum í hið Evrópska efnahagssvæði skuldbundum við okkur til þess að gera veigamiklar skipulagsbreytingar á íslensku efnahagskerfi og íslensku þjóðlífi. Það er átakanlegt að fylgjast með því í störfum Alþingis og í störfum einstakra þingnefnda að þegar inn koma mál sem menn hafa á ríkar skoðanir og einhver bendir á það undir lokin að þetta sé tilskipun frá Brussel, þá þagnar allt. Og það er umhugsunarvert að menn sem áður reyndu að hafa áhrif á gang mála reyna nú að skilja gang mála, reyna að skilja tilskipanirnar sem koma frá Brussel. Það væri vissulega nauðsynlegt og gagnlegt og fróðlegt og mikilvægt að gera úttekt á þeim áhrifum sem Evrópska efnahagssvæðið og þær skuldbindingar sem við gerðum í tengslum við EES hafa haft á íslenskt þjóðlíf og íslenskt lýðræði.

Hæstv. utanrrh. fór ekki aðeins hlýjum orðum um hið Evrópska efnahagssvæði og Evrópusambandið. Hann fór líka hlýjum orðum um Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og svokallað þróunarstarf á vegum hans. Hann fór hlýjum orðum um alþjóðavæðingu fjármagnsins líka. En hann fór líka hlýjum orðum um mannréttindi og það er vel. Hann sagði í sinni ræðu: ,,Við Íslendingar viðurkennum ekki að gengið sé á mannréttindi.`` Þetta sagði hæstv. utanrrh. í sinni ræðu og hann sagði líka, með leyfi forseta:

,,Mannréttindamál eru óaðskiljanlegur hluti alþjóðastjórnmála, ekki einkamál sérhverrar þjóðar. Mannréttindi eru alþjóðleg og algild og það er á ábyrgð alþjóðasamfélagsins alls að tryggja virðingu fyrir þeim.``

[19:30]

Þetta eru dýr orð og þetta eru góð orð og ég tek undir þessi orð. En ég spyr: Hvernig hefur til tekist í þessu efni? Hvernig hefur til tekist hjá Íslendingum í þessu efni? Hver er afstaða okkar gagnvart Kínverjum og mannréttindamálum í Kína, einhverri stærstu þrælakistu heimsins? Ég veit ekki betur en allflest ráðuneyti og allflestar stofnanir þessa samfélags hafi sent sendinefnd á fætur sendinefnd til að efla og bæta tengslin við Kínverja. Hvað hafa Íslendingar gert til að verja mannréttindi í Kína? Hér var talað um Afganistan. Við munum einskis láta ófreistað að styðja konur í Afganistan, sagði hæstv. utanrrh. Hefur þetta nokkuð verið rætt við Bandaríkjamenn? Við munum einskis láta ófreistað, sagði hæstv. utanrrh. Hér var á ferðinni fyrir fáeinum dögum fulltrúi andófsmanna í Afganistan, kona sem var að vekja athygli á hlutskipti kvenna þar og kúgun kvenna og hvernig þær væru grýttar í hel. Það kom fram í hennar máli að talebanar í Afganistan fengju stuðning frá Bandaríkjastjórn. Hefur þetta verið rætt við fulltrúa Bandaríkjamanna? Hafa Íslendingar tekið þetta upp á alþjóðavettvangi þar sem þeir geta látið til sín heyra og hugsanlega haft einhver áhrif? Hvað með Írak? Ekkert hefur verið fjallað um Írak í dag. Hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því að ekki er fjallað um Írak þegar rætt er um mannréttindi í skýrslu utanrrh.? Hvernig stendur á því? Vita menn ekki að það hafa komið fram ásakanir frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna, frá sjálfstæðum rannsóknastofnunum? Frá málsmetandi aðilum víðs vegar um heiminn, Ramsey Clark, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna meðal fjölmargra annarra um að viðskiptabannið á Írak hafi orðið þess valdandi að mörg hundruð þúsund manns hafi látið lífið. Á þetta er ekki minnst. Þetta er eitt mesta og stærsta hitamál samtíðar okkar og á þetta er ekki minnst í skýrslu utanrrh. Á það er ekki minnst að sami hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir að Bandaríkjamönnum yrði gefin heimild til þess að lenda hér og fara hér með árásarflugvélar, sem áttu að gera árásir á Írak. Þetta kalla ég að þjóna alþjóðafjármagninu og hernaðarhyggjunni.

Ég hef velt því fyrir mér hvað valdi því að Bandaríkjastjórn var eins áköf og raun bar vitni að hefja árásarstríð á hendur Írak. Ég tel að skýringin sé sú að þrýstingur í heiminum hafi verið orðinn það mikill að aflétta viðskiptabanni á Írak að þeir hafi ekki séð aðra leið til að veikja íröksku þjóðina og Írak en að gera hernaðarárás á landið. Írak sem framleiddi áður 3,2 milljónir tunna af olíu á dag var komið niður í 600 þúsund og olíuiðnaðurinn í Bandaríkjunum sem er búinn að fjárfesta í gömlu Sovétríkjunum, olíuiðnaðurinn í Evrópu, olíuiðnaðurinn í Arabaheiminum hafi óttast að aukið framboð af olíu frá Írak og hugsanleg lækkun á verði mundi verða þess valdandi að efnahagur iðnríkjanna yrði í verulegum vanda staddur. Þetta eru vangaveltur sem menn hafa haft uppi í Bretlandi og víðar og vísa ég til þeirra sem hafa haft einhverja gagnrýni uppi. Hún hefur verið af afar skornum skammti. Ég hefði viljað að utanrrh., sem vill kenna sig við miðju stjórnmálanna, hefði reynt að halda uppi gagnrýnum málflutningi af þessu tagi. Ég hefði kosið það.

Ég hefði kosið að hann hefði gert það líka þegar hann gerðist málsvari Norðurlandanna hjá Alþjóðabankanum og í starfi okkar innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann fer lofsamlegum orðum um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann. Það er ekki orð um að þessar stofnanir hafi verið gagnrýndar víða um heim fyrir að setja þróunarríkjum og ríkjum almennt stólinn fyrir dyrnar og þrengja að lýðræðislegum sjálfsákvörðunarrétti. Svo eru menn að tala af þjósti og með hroka um það hvort menn ætli virkilega að ganga gegn vilja þjóða sem vilja koma í NATO. Á sama tíma eru menn að setja þessum fátæku ríkjum stólinn fyrir dyrnar í gegnum Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn því að það eru menn að gera. Um það bera vitni fréttatilkynningar sem koma frá utanrrn. þar sem segir m.a.:

,,Utanríkisráðherra lýsti yfir fullum stuðningi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við sérstakt átak Alþjóðabankans til að auka fjárfestingar einkaaðila í orkumálum, samgöngu- og fjarskiptakerfum þróunarríkjanna.``

Það er þetta sem þessar fátæku þjóðir hafa verið að gagnrýna. Þær hafa ekki fengið aðgang að lánum nema þær hafi undirgengist að umbreyta efnahagskerfi sínu, einkavæða stoðkerfin, almannaþjónustuna og um það talaði hæstv. utanrrh. í ræðu sinni sem hann flutti í Hong Kong sl. haust. Þar var talað um aðgerðir til að tryggja einkafjármögnun í stoðkerfi samfélagsins, Action program to facilitate private involvement in infrastructure, millifyrirsögn í ræðu hæstv. utanrrh. Hann talar um það líka að þetta sé liður til að styrkja einkafjármagnið í þessum ríkjum og farið er lofsamlegum orðum um þann grunn sem eigi að starfa á og hefur verið dreginn upp og myndaður af hugmyndagengi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Síðan er talað um það líka að á grundvelli þessa eigi að meta frammistöðu viðkomandi landa í efnahagsuppbyggingu. Á þessum grundvelli, á einkavæðingarmarkaðsgrundvellinum. Ég hef saknað þess að um þessi atriði færi fram lýðræðisleg umræða á Íslandi, hvernig við beitum okkur gagnvart þessum fátæku ríkjum heimsins.

Ég hefði viljað ræða um NATO líka. En ég vil nota þessar síðustu sekúndur sem ég hef til að ítreka það sem ég sagði áðan um þann hroka sem einkenndi afstöðu ríkisstjórnarinnar og NATO-sinna í Alþingi gagnvart þeim sem hafa áhyggjur af því að verið sé að færa út þetta hernaðarbandalag og ýta undir hernaðaruppbyggingu, þetta eru sömu menn og sömu aðilar og eru að setja fátækustu þjóðum heimsins stólinn fyrir dyrnar og þvinga þær til að færa almannaþjónustuna, vatnsveiturnar, rafmagnsveiturnar í hendur alþjóðlegra kapítalískra fyrirtækja.