Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 19:40:52 (5356)

1998-03-31 19:40:52# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[19:40]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég styð Sameinuðu þjóðirnar. Ég styð Genfarsáttmálann líka. Ég styð mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en ég styð það ekki að við hlýðum Bandaríkjamönnum og hernaðarveldunum í einu og öllu og í blindni. Ég tel að sú ákvörðun sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tók hafi strítt gegn grundvallarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég er tilbúinn að færa fyrir því rök í ræðustól eða á öðrum vettvangi og ég tel að það sé ekki stuðningur við Sameinuðu þjóðirnar til frambúðar að hlíta forsjá Bandaríkjastjórnar eins og íslenska ríkisstjórnin hefur því miður gert í þessu máli.

Ég vil að sjálfsögðu starfa innan alþjóðastofnana. En ég vil að við gerum það á gagnrýninn hátt og á sjálfstæðan hátt og ég vil ekki að við styðjum þá stefnu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn hafa fylgt á liðnum árum og hefur sætt vaxandi gagnrýni um heim allan að setja fátækum ríkjum stólinn fyrir dyrnar og skilyrða lán með þeim hætti sem gert hefur verið. Þetta er stefna mín.