Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 31. mars 1998, kl. 19:46:39 (5359)

1998-03-31 19:46:39# 122. lþ. 100.6 fundur 81#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), KPál
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 122. lþ.

[19:46]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla ræðu sem náði yfir mjög svo fjölbreytilegt svið. Ég vil byrja á því að taka undir þau sjónarmið sem koma fram í ræðu hæstv. ráðherra varðandi aðild okkar að Schengen-samkomulaginu, að það er mjög mikilvægt af hálfu Íslendinga að geta gengið frá þeim samningi sem allra fyrst og náð þar fullri aðild enda tel ég að með fullri aðild séum við ekki aðeins að halda áfram því mikla og nána samstarfi sem við höfum átt í Evrópu heldur séum við líka að efla okkar varnir gegn ólöglegum innflutningi fíkniefna og aðild okkar að sameiginlegu öryggiskerfi lögreglu innan Evrópuríkjanna nýtist okkur í því starfi.

Ljóst er að Schengen-samstarfið og Schengen-samn\-ing\-ur\-inn munu verða til umræðu um nokkurn tíma enn og ekki er alveg ljóst hvert hann mun leiða. Ég velti því fyrir mér hvort Schengen-samstarfið og stækkun Leifsstöðvar muni vera nátengt og hvort einhver breyting sé að verða á afstöðu hæstv. ráðherra til stækkunar Leifsstöðvar. Ekki það að ég hafi heyrt neitt um það en ég vildi gjarnan fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort stækkun Leifsstöðvar sé ekki á dagskránni nákvæmlega eins og stefnt hefur verið að samkvæmt þeim áætlunum sem lagðar hafa verið fyrir ráðuneyti og nefndir þingsins.

Varðandi ár hafsins þá fagna ég þeim miklu undirtektum sem koma fram frá hæstv. ráðherra við ár hafsins. Ég vil minna á samþykkt í hinu háa Alþingi þar sem samþykkt var að reka skólaskip á mun öflugri hátt en áður en það getur nýst einmitt í þeim tilgangi að auka möguleika unglinga og skólafólks til að fara á sjó og kynna sér starfsemi um borð í venjulegum rannsóknarskipum í samstarfi við íslenska vísindamenn sem eru þeir fremstu í heiminum á sínu sviði. Svona tengingu tel ég einmitt eiga vel heima innan þeirra stofnana sem það reka í dag í samstarfi við Hafrannsóknastofnun sem tengist þannig inn í grunnskóla landsins. Ég lýsi yfir mikilli ánægju minni með það hvernig þetta er að þróast í samstarfi við sjútvrn.

Mig langaði aðeins til þess að spyrja hæstv. ráðherra um VES eða Vestur-Evrópusambandið og hver staða þess væri í augum ráðuneytisins og hæstv. utanrrh. Ég tók eftir því að í ræðu hæstv. ráðherra er ekki tekin nein sérstök afstaða til VES eða yfirleitt minnst á það í ræðunni. Ég minni á það að Vestur-Evrópusambandið hefur verið mjög öflugur málsvari fyrir Evrópuþjóðir í varnarlegu tilliti og þær þjóðir sem þar eiga aðild eru miklu fleiri en þær sem standa að NATO eins og kunnugt er. Núna taka 28 ríki þátt í starfinu innan VES á einn eða annan hátt.

Ég minni á að á VES-ráðstefnu í desember í fyrra var einróma tekið undir stækkun NATO af öllum þeim sem þátt tóku í þeirri umræðu. Ég held að það megi segja að slíkur stuðningur allra Evrópuríkja sé mjög mikilvægur. Þess vegna tel ég að efling samstarfs innan VES af hálfu Íslendinga sé liður í utanríkisstarfinu sem eigi að vera hluti af yfirferð Alþingis.

Ég hef nefnt í umræðum um utanríkismál hvort ekki væri ástæða fyrir Íslendinga að sækja um fulla aðild að VES. Hæstv. ráðherra hefur haldið því fram að slíkt sé ekki hægt vegna þess að reglur VES leyfi ekki slíkt. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hefði kynnt sér sjónarmið Klaus Kinkels, utanríkisráðherra Þýskalands, í þessu efni en hann upplýsti í ræðu sem hann hélt í desember í fyrra á þingi VES að hann teldi að spurningin væri ekki hvort breyta þyrfti reglum um inngöngu í VES heldur væri það spurning um túlkun á reglum VES hvort nýjar þjóðir fengju fulla aðild að sambandinu eða ekki. Þá er í fyrsta lagi verið að tala um hvort ríki sem eru í NATO en ekki Evrópusambandinu eigi rétt á fullri aðild eða ekki eða hvort þann rétt hafi eingöngu ríki sem bæði eru í Evrópusambandinu og í NATO. Þetta er spurning um samræmdan skilning á því hvaða reglur gildi og túlkun á þeim.

Mig langaði, herra forseti, aðeins að minnast á varnarsamstarfið sem tók ekki mikið pláss í ræðu hæstv. ráðherra sem sýnir að sjálfsögðu að náðst hefur að tryggja samninga við varnarliðið til ársins 2000. Ég held að þar hafi verið vel að verki staðið af hálfu ráðuneytisins og störf ráðherra séu góð að þessu leyti og góð samvinna við Bandaríkjamenn í að halda því samstarfi áfram sem allir hafa talið mjög markvert og tryggja frið í Evrópu ásamt mörgu öðru.

Samt er ljóst að samskiptin verða sífellt erfiðari og þá fyrst og fremst samskipti á hinu fjárhagslega sviði. Við höfum séð það að starfsemi varnarliðsins hefur liðið mjög mikið fyrir fjármagnsskort á undanförnum mánuðum og árum og sífellt er verið að draga úr þeirri starfsemi sem þarna hefur þótt sjálfsögð. Ég get þó tekið fram sem formaður í einni þeirra nefnda sem fást við samstarfið við varnarliðið og sveitarfélög á Suðurnesjum að náðst hefur mjög gott samkomulag um fráveitumál á svæðinu og vil ég nota tækifærið til að þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans þátt í að leysa það mál ásamt skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofunnar, Þórði Ægi Óskarssyni. Þar hafði inngrip hæstv. utanrrh. og starfsmanna hans mikið að segja og er það gott þegar utanrrn. tekur afstöðu og aðstoðar sveitarfélög og yfirvöld á svæðum til þess að ná eðlilegri niðurstöðu í samningaferli milli þessara tveggja aðila.

Samt er ljóst að ýmis önnur mál eru óleyst hjá varnarliðinu sem varða eðlileg samskipti sveitarfélaganna og varnarliðsins. Maður veltir því fyrir sér, herra forseti, vegna þess að starfræksla stöðvarinnar er nánast að verða ómöguleg, hvort þessi mikli niðurskurður fjármagns sé vísbending um að það sé stefna bandarískra yfirvalda að draga svo úr starfsemi hjá varnarliðinu að hún verði svo smá að hún hverfi einn góðan veðurdag. Í mínum huga er ekki neinn bragur á því ef samskipti Bandaríkjamanna og Íslendinga einkennast svo af fjárskorti að menn eru í eilífum vandamálum við að leysa dagleg verkefni sem er skylt að leysa í stórri stöð eins og þessari. Ég held að ef ekki ríkir stórhugur heimsveldis í þessu samstarfi við fullvalda ríki, sé eins gott að endurskoða þá miklu samninga sem hafa verið farsælir fram að þessu.