1998-04-06 14:25:45# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:25]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar yfirskriftar sem þessi umræða utan dagskrár hefur og áður en ég vík að einstökum spurningum hv. þm., vil ég í upphafi leggja áherslu á að þær upplýsingar sem ég veitti þinginu í bréfi dags. 5. mars. sl. voru veittar í góðri trú af minni hálfu og skýrt tekið fram í svarinu að það væri byggt á upplýsingum frá hlutaðeigandi viðskiptabönkum. Fyrirspurnin var þess eðlis að ég varð að reiða mig á upplýsingar frá Landsbanka Íslands og ég hafði enga ástæðu til að ætla annað en að þær upplýsingar sem ég fékk væru réttar.

Þegar mér var hins vegar greint frá því að fyrri upplýsingar bankans um málið væru rangar ritaði ég strax forseta þingsins bréf þar sem ég greindi honum frá því hvað hefði gerst. Það gerði ég til þess að koma réttum upplýsingum á framfæri við þingið eins fljótt og nokkur kostur væri.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fyrir mig spurningar í átta liðum, gerði það strax í gær, og ég þakka hv. þm. fyrir það, og þeim spurningum hefur nú verið dreift á borð þingmanna.

Í fyrsta lagi spyr hv. þm. til hvaða ráðstafana ráðherra muni grípa vegna þess trúnaðarbrests sem bankastjórn og bankaráð hafi valdið gagnvart þingi og þjóð.

Eins og kunnugt er urðu breytingar á formlegri stöðu viðskrh. gagnvart bankanum um síðustu áramót. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 50/1997, um stofnun hlutafélags um ríkisviðskiptabanka, fer ráðherra með eignarhlut ríkissjóðs í hlutafélaginu. Hlutverk viðskrh. er því tvíþætt. Annars vegar fer hann með lög um viðskiptabanka, veitir starfsleyfi og afturkallar starfsleyfi og hefur önnur þau völd sem viðskiptabankalögin tilgreina. Hins vegar kemur hann fram fyrir hönd eigandans sem hluthafi í þeim hlutafélagabönkum sem ríkið á. Í þeim efnum er enginn munur á aðkomu hans að hlutafélaginu og aðkomu venjulegs hluthafa að sínu hlutafélagi, þó hann sé sterkari hluthafi en gengur og gerist í ljósi þess að hann fer einn með eignarhlutinn í viðkomandi félögum.

Varðandi hið síðarnefnda, hlutverk ráðherra sem hluthafa í Landsbanka Íslands, fer hluthafafundur með æðsta vald í málefnum bankans samkvæmt því sem lög og samþykktir hans greina, og ráðherra fer með þetta vald á hluthafafundi. Á aðalfundi kjósa hluthafar bankaráð sem hefur það verkefni að hafa yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög og samþykktir, sbr. 39. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Það er því hlutverk bankaráðs að grípa til aðgerða vegna þessa máls.

Það er ljóst að þetta mál er mikið áfall fyrir þennan stærsta og rótgrónasta banka þjóðarinnar og hætt er við að trúnaðarbrestur geti orðið milli bankans og viðskiptamanna hans. Það verður því að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir slíkan trúnaðarbrest.

Ég treysti nýkjörnu bankaráði Landsbanka Íslands hf. til að grípa til aðgerða sem verða til þess að draga úr þessu áfalli og byggja að nýju upp traust á bankanum. Komi hins vegar til þess að ráðherra telji að aðgerðir bankaráðs séu ekki fullnægjandi getur hann krafist hluthafafundar og tekið málið til umfjöllunar þar. En á þessu stigi hef ég ekki ástæðu til að ætla að grípa þurfi til slíkra aðgerða. Ég vil hins vegar taka skýrt fram að í þessu máli mun ég láta fjárhagslega hagsmuni ríkisins sem eiganda bankans ráða aðgerðum mínum og sama skylda hvílir auðvitað á bankaráðinu.

[14:30]

Um aðgerðir mínar sem viðskrh. vil ég einnig segja að ráðuneytið hefur ritað bankaráði Landsbankans bréf þar sem óskað er eftir nánari skýringum á því hvernig staðið geti á þessum röngu upplýsingum. Enn fremur var óskað eftir upplýsingum um innra eftirlitskerfi bankans og mats bankaráðs á því sem þarna hefur gerst. Þá var þess óskað að bankaráð gerði ráðherra grein fyrir málinu í heild þegar niðurstöður Ríkisendurskoðunar liggja fyrir og bankaráðið hefur fjallað um þær.

Í öðru lagi spyr hv. þm. hvernig ég meti ábyrgð mína í tengslum við þetta mál. Ljóst er að ráðherra ber ábyrgð á svörum við fyrirspurnum sem alþingismenn geta spurt á Alþingi og varða starfsemi sem heyra undir starfssvið þeirra. Þar með eru taldar fyrirspurnir um málefni einstakra fyrirtækja og stofnana. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði í upphafi: Ég veitti Alþingi upplýsingarnar í góðri trú og tók fram að svörin væru byggð á upplýsingum frá hlutaðeigandi bönkum. Eins og ég sagði áðan hafði ég ekki ástæðu til að ætla að þær væru rangar, enda var fyrirspurninni svarað líkt og öðrum fyrirspurnum. Ég gerði Alþingi grein fyrir málinu strax og ég fékk vitneskju um að upplýsingarnar sem þarna voru veittar hefðu verið rangar.

Sé hv. þm. að vísa til hinnar formlegu stjórnarskrárbundnu ráðherraábyrgðar með spurningu sinni, þá tel ég mig ekki hafa brotið gegn henni í þessu máli. Þar kemur fyrst og fremst til að það var hvorki ásetningur minn né heldur má rekja það til gáleysis af minni hálfu að upplýsingarnar sem veittar voru þinginu reyndust rangar.

Í þriðja lagi spyr hv. þm. hvort ráðherra eða bankaráð hafi haft vitneskju um að einn bankastjóri Landsbankans hafi árum saman selt bankanum veiðileyfi úr Hrútafjarðará? Mér var ekki kunnugt um þetta fyrr en þær upplýsingar komu fram í tengslum við fyrirspurn þingmannsins. Ég get hins vegar ekki sagt til um hvort bankaráðið bjó yfir vitneskju um þetta en bíð nánari greinargerðar þess um málið.

Í fjórða lagi er spurt hvort ráðherra telji að bankaráð Landsbankans hafi brotið gegn starfsskyldu sinni í laxveiðimálinu, varðandi eftirlit með risnu-, ferða- og bifreiðakostnaði. Ég lít svo á að hér sé spurt um starfsskyldur fyrrv. bankaráðs ríkisviðskiptabankans á því árabili sem til umfjöllunar hefur verið. Á þessari stundu hef ég ekki forsendur til að meta þetta. Ég tel rétt að bíða frekari upplýsinga um það. Rétt er þó að taka fram að núverandi bankaráð, sem skipað er sömu einstaklingum og sátu í hinu fyrra bankaráði ríkisviðskiptabankans, hefur á allan hátt leitast við að varpa svo skýru ljósi á þetta mál sem kostur er. Þannig kom það réttum upplýsingum á framfæri um leið og ríkisendurskoðandi hafði greint frá því að fyrir lægju rangar upplýsingar. Bankaráð hefur óskað viðbótarathugasemda af hálfu ríkisendurskoðanda þannig að það hefur reynt að gera allt sem hægt er til að upplýsa málið.

Hv. þm. spyr jafnframt hvort endurskoðunardeild bankans, kjörnir endurskoðendur eða bankaeftirlit hafi gert athugasemdir við laxveiði-, risnu-, ferðakostnað, dagpeningagreiðslur, bifreiðakostnað eða önnur hlunnindi eða starfskjör bankastjóra Landsbankans og hvort eftirliti hafi verið ábótavant. Athugasemdum af þessu tagi hefur ekki verið komið á framfæri við viðskrn. Ég tek fram að ársreikningar bankans hafa verið staðfestir án athugasemda öll þau ár sem hér um ræðir.

Í sjötta lagi spyr hv. þm. um álit mitt á tilefni laxveiðiferðanna og hvort um brot á samkeppnislögum geti verið að ræða. Tilefni laxveiðiferðanna er eitt af því sem er til athugunar hjá Ríkisendurskoðun. Hvort um brot á samkeppnislögum kunni að vera að ræða vil ég ekki fullyrða um meðan ekki liggja fyrir nánari upplýsingar en tel þó að það sé fremur ólíklegt.

Í sjöunda lagi spyr hv. þm. hver sé skýringin á því að fyrirmælum bankaráðs hafi ekki verið fylgt. Engar upplýsingar liggja fyrir um þetta hjá mér, aðrar en þær sem fram hafa komið í fjölmiðlum. Ég tel það ekki hlutverk ráðherra að kanna framkvæmd einstakra samþykkta bankaráðs sem snúa að daglegri stjórn bankans hverju sinni.

Að síðustu spyr hv. þm. hvort ég muni beita mér fyrir því að skýrsla Ríkisendurskoðunar um risnu-, ferða- og bifreiðakostnað Landsbankans verði birt opinberlega. Það hefur áður komið fram hjá mér að ég lít þetta mál alvarlegum augum. Ég mun leitast við að upplýsa þingið um þær skýringar sem ég fæ í málinu. Ég bíð þess að bankaráð geri grein fyrir málinu og mun þá taka ákvörðun um á hvern hátt ég geti upplýst þingið um málavöxtu og þar mun ég hafa hagsmuni ríkisins sem eiganda bankans að leiðarljósi.