1998-04-06 14:35:49# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:35]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta mál á dagskrá svo skjótt eftir að okkur hv. þingmönnum barst til eyrna að rangar upplýsingar hefðu verið veittar í svari við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Eftir svör hæstv. ráðherra held ég að að e.t.v. hefði verið rétt að bíða fram yfir páskaleyfið. Mér heyrast svör hans við nánast hverri þeirri spurningu sem hér hefur verið lögð fram vera að málin séu í athugun. Hann hefur ekki skýr svör við einni einustu spurninga hv. þm.

Þetta mál er mjög alvarlegt. Það er alvarlegt vegna þess hve illa er farið með þá fjármuni sem eru í bönkum sem hafa verið í almenningseign, reknir af ríki fram til þessa og eru enn í eigu ríkisins, þó að þarna sé ekki um gífurlega stórar fjárhæðir að ræða á mælikvarða fjárlaga Alþingis. Þó má benda á að sú upphæð sem þarna um ræðir er hærri en fer t.d. til heilsugæslunnar í Mosfellsbæ, til rekstrar heilsugæslu í Vík, á Klaustri, Hvolsvelli og Hellu samanlagt þannig að við erum að tala um verulegar fjárhæðir ef horft er til ýmissa þátta í ríkisrekstrinum.

Þetta er einnig alvarlegt vegna þess að þær upplýsingar hafa komið fram að bankaráðið hafi ekki vitað hvers eðlis þessar ferðir voru fyrr en fyrir um það bil viku síðan. Bankastjórn undirritar þær upplýsingar sem ráðherra berast og síðan berast Alþingi, endurskoðandi bankans hafði gert athugasemdir við bankastjórnina einhvern tíma á síðasta ári. Bankastjórnin lét bankaráðið ekki vita af málinu, formaður bankaráðs á að hafa fengið vitneskju um það í nóvember sl. en að öðru leyti fengu bankaráðsmenn ekki vitneskju um málið fyrr en um síðustu helgi. Það er auðvitað mjög alvarlegt vegna þess að við erum að ræða um hver beri ábyrgðina. Er það hæstv. ráðherra sem ber ábyrgðina á því að Alþingi fær rangar upplýsingar, þó hann hafi lagt þær fram, eins og fram kom í máli hans, í góðri trú? Hjá ýmsum þjóðþingum í nágrenni okkar ber ráðherra ævinlega ábyrgðina. Þó upplýsingarnar, rangar upplýsingar sem fram eru lagðar, séu í raun komnar frá undirstofnun ráðuneytis, þá ber hæstv. ráðherra sjálfur ábyrgðina. Hvort var það bankastjórnin eða bankaráðið sem undirritaði plagg það er hæstv. ráðherra fékk? Niðurstaðan hlýtur að verða sú að þegar þessari könnun hæstv. ráðherra lýkur og þeim spurningum sem hér hafa verið lagðar fram hefur verið svarað, að hinir ábyrgu verði látnir víkja. Sá eða þeir sem ábyrgðina bera á því að Alþingi fékk rangar upplýsingar hljóta að verða látnir víkja.

Ég hefði viljað heyra þau svör frá hæstv. ráðherra hvort sem niðurstaðan verður sú að endanleg ábyrgð liggi hjá honum sjálfum eða þeim aðilum sem gáfu hæstv. ráðherra upplýsingarnar.

Þá hefði ég einnig viljað heyra afdráttarlaust frá hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að skýrsla Ríkisendurskoðunar sem nú er í vinnslu og verður lokið í þessari viku, verði birt hv. alþingismönnum í ljósi þessarar reynslu.