1998-04-06 14:40:16# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:40]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Kvennalistinn átti fulltrúa í bankaráði Landsbankans eitt kjörtímabil árið 1991--1995 en á ekki fulltrúa þar nú. Auk þess að beita sér fyrir ýmsum úrbótum fyrir starfsmenn á samdráttartímum, m.a. í jafnréttismálum, lagði fulltrúi Kvennalistans, Kristín Sigurðardóttir, fram tillögu um að leggja laxveiðiferðir af og lækka risnu. Í kjölfarið samþykkti bankastjórnin að semja siðareglur fyrir starfsmenn en engar reglur virðast enn komnar um risnu eða laxveiðar ef marka má þær upplýsingar sem væntanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar mun vonandi skýra frekar.

Þær upplýsingar sem nú liggja fyrir eru alvarlegt áfall fyrir þingið og þjóðina. Þær eru áfall sem mun að öllum líkindum hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Landsbankann. Starfsfólk bankans er nú skammað fyrir bruðl yfirmanna og sumir eru farnir að skammast sín fyrir vinnustaðinn. Líklegt má telja að viðskiptavinir íhugi sín viðskipti við stofnun sem sóar almannafé með því að eyða 42 millj. í laxveiðar á nokkrum árum og gefur ráðherra og Alþingi villandi upplýsingar, stofnun sem er stýrt af bankastjóra sem selur bankanum veiðileyfi sem hann sjálfur hagnast á. Hér er grafalvarlegt mál á ferðinni sem taka verður á með öðru en að kalla úlfur úlfur í nokkra daga. Það verður að draga rétta aðila til ábyrgðar. En hverjir eru þeir?

Í mínum huga er skýrt að í þessu máli bera bankaráð og bankastjórar Landsbankans auk viðskrh. ábyrgðina. Þeir verða að gera ítarlega grein fyrir því hvernig þeir réttlæta þessa eyðslu í laxveiðar og hvernig þeir hafa brugðist við athugasemdum endurskoðenda. Sérstaka ábyrgð ber Sverrir Hermannsson bankastjóri vegna viðskipta sinna með laxveiðileyfi. Væri Sverrir Hermannsson þingmaður, þá gætu kjósendur refsað honum og flokki hans í næstu kosningum. Sverrir Hermannsson er ekki þingmaður sem stendur en hann er fyrrv. þingmaður og ráðherra Sjálfstfl. Hann situr sem bankastjóri í skjóli Sjálfstfl. sem hlýtur að taka sinn skell vegna þessa máls.

Þetta mál kallar því jafnframt á endurskoðun þess kerfis að núverandi stjórnarflokkar eigni sér bankastjórastöður ríkisbankanna. Þetta mál verður vonandi til þess að stjórnarflokkarnir slaki á klónni við ráðningar og láti faglega færni fremur en flokksskírteini ráða við stöðuveitingar bankastjóra. Þetta mál verður vonandi einnig til þess að ábyrgð bankastjóra verði í samræmi við kjör þeirra eins og almennt á að gilda á vinnumarkaðnum.

Síðast en ekki síst sýna tiltækar upplýsingar um laxveiðar, risnu og bílapeninga bankamanna að þau gífurlegu hlunnindi skila sér lítt til hins almenna starfsmanns og allra síst til hinna fjölmörgu kvenna sem starfa í Landsbankanum. Þeim er upp á lagt að hagræða og helst að bæta þjónustuna án nokkurrar yfirvinnu. Hinn almenni starfsmaður og almenningur sem á bankann hlýtur að gera sömu hagræðingarkröfur til toppanna í stað sóunar í laxveiðar og risnu, ella víki þeir úr starfi.

Virðulegi forseti. Oft er talað um að bankakerfið á Íslandi sé dýrt, vextir séu háir og vaxtamunur mikill. Skyldi nokkurn undra að svo sé eftir að hafa heyrt það sem nú liggur fyrir. Margar spurningar hafa vaknað m.a. um afskriftir bankans, risnu, bílastyrki og ferðalög sem ekki er unnt að ræða nánar. Svör viðskrh. við spurningum hv. málshefjanda, Jóhönnu Sigurðardóttur, eru um margt ófullnægjandi. Því má telja líklegt að þessi mál komi aftur til umræðu á Alþingi eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar liggur fyrir.