1998-04-06 14:49:18# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[14:49]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er ekki í þágu málsins að drepa því á dreif. Það er ekki í þágu málsins að gefa til kynna að hæstv. viðskrh. standi í einhverri sök. Ef menn ætla að halda því fram að ráðherrar eigi hér eftir eða hafi jafnvel átt hingað til að staðreyna öll þau svör sem þeir flytja þinginu þarf að gjörbreyta öllu fyrirkomulagi fyrirspurna. Ég segi fyrir mig að ég hef margoft flutt svör við fyrirspurnum sem ég hef ekki haft nokkurn möguleika á að fullyrða, hefði ég verið spurður, hvort væru örugg eða rétt og ég fullyrði að fjöldi fyrrverandi ráðherra hafa flutt þess háttar svör. Það er ekki nokkur vinnandi vegur fyrir einstaka ráðherra að sannreyna hvort svörin séu rétt. Það þýðir hins vegar það af þeirri ástæðu að það er afar alvarlegt mál þegar ráðherra eru gefnar vitlausar upplýsingar. Megi þingmenn ekki treysta því að ráðherrar sem vitna í svör eins og við gerum iðulega og segjum: Þessi og þessi svör eru byggð á þessum og þessum upplýsingum --- megi ráðherrann ekki og þá ekki þingmennirnir treysta því að þau svör séu unnin samkvæmt bestu samvisku og séu rétt erum við í vandræðum. Ég vil leyfa mér að fullyrða að enginn viðskrh., sem hefði fengið þessi svör til að fara með inn á þing, hefði byrjað á að gefa sér að þau væru röng og senda einhverja rannsóknarnefnd til að athuga málið. Ég tala ekki um stofnun sem Ríkisendurskoðun hefur skyldu til að endurskoða og hefur gert í áratugi að endurskoða og skrifað upp á reikninga fyrir. Þá tek ég fram að ég er ekki að sakast við Ríkisendurskoðun í þessu tilfelli heldur. Við verðum að mega treysta þessum upplýsingum. Þess vegna er afar alvarlegt mál að viðskrh. skuli hafa fengið þessar upplýsingar og borið þær hingað inn í þingið en ekki er á nokkurn hátt hægt að sakast við hæstv. viðskrh. í málinu, við hljótum að sjá það, hvert og eitt okkar. (Gripið fram í: Hver er ábyrgur?) Það er ljóst að sá sem gefur upplýsingarnar ber ábyrgðina og það er opinber starfsmaður. (Gripið fram í: Er það starfsmaðurinn?) Sá sem gefur viðskrh. upplýsingarnar ber ábyrgðina. Ef hitt dæmið er fyrir hendi sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi áðan að ráðherrann ætti að bera ábyrgð á vitlausum upplýsingum gæti einfaldur bókhaldari komið ráðherra frá. Með því að láta honum í té upplýsingar sem honum væri ekki nokkur kostur á að sannreyna. (Gripið fram í: Er það einfalt dæmi?) Nei, hv. þm., reyndu ekki að snúa út úr fyrir þessu. Ég veit ekki af hverju þingmaðurinn er svona órólegur. Ef það er svo að ráðherra á að víkja vegna þess að hann ber inn rangar upplýsingar í góðri trú sem einhver hefur sett honum getur slíkur aðili látið ráðherra fara og ég hygg að það þyki engum manni nokkurt réttlæti. Það breytir ekki alvöru málsins en enginn maður getur með nokkurri sanngirni sagt að hæstv. viðskrh. hafi gerst brotlegur á einn eða annan hátt.