1998-04-06 15:00:22# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[15:00]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta mál snýst um trúnað og þann trúnaðarbrest sem forsvarsmenn Landsbankans hafa valdið í samfélaginu. Þeir verða að bera ábyrgð á því. Svör hæstv. ráðherra voru mjög slök, óljós og loðin. Þetta mál um óhóf, misnotkun aðstöðu og röng svör til Alþingis sýnir þörf á bættu siðferði og siðareglum. Ráðherra svaraði ekki hvort endurskoðendur hefðu gert athugasemdir þó um væri spurt. Hann ætlar ekki að beita sér fyrir því að skýrsla Ríkisendurskoðunar verði gerð opinber. Hæstv. forsrh. ætlar greinilega að kenna lágt settum starfsmönnum um þetta mál. Það á enginn að bera ábyrgð.

Ef laxveiðiboð eiga að styrkja og viðhalda viðskiptasamböndum er ljóst að boð Landsbankans til ráðherra og alþingismanna orka mjög tvímælis. Viðskrh. hefur upplýst að hann hafi þegið slík boð sem þingmaður. Bankaráð ber ábyrgð og ráðherra sem yfirmaður bankamála og sá sem gaf Alþingi rangar upplýsingar ber ábyrgð.

Þingflokkur jafnaðarmanna skrifaði sl. föstudag bréf til hæstv. forseta þar sem spurt var hvernig forsn. hyggist bregðast við þessari röngu upplýsingagjöf frá framkvæmdarvaldinu til Alþingis og hvernig hægt verði að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þessum spurningum verður vafalítið svarað.

Erlendis væru bankastjórn, bankaráð og viðskrh. búin að segja af sér vegna þess trúnaðarbrests sem þau bera ábyrgð á. Það, herra forseti, væri eðlileg niðurstaða í þessu máli.