1998-04-06 15:06:54# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[15:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil ítreka tvær eða þrjár spurningar til hæstv. viðskrh. Í fyrsta lagi: Mun hann beita sér fyrir því að skýrsla Ríkisendurskoðunar sem væntanleg er núna á næstu dögum verði gerð opinber og lögð fyrir þingið? Í annan stað spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hafi fengið skýringar hjá bankastjórum eða bankaráði á röngum upplýsingum til þingsins. Í þriðja lagi þá spurði ég hæstv. ráðherra hvort hann mundi láta sér nægja afsökunarbeiðni bankastjórnar eða bankaráðs, áminningu til bankastjórnar eða loforð um bót og betrun. Ég skildi hæstv. ráðherra svo --- hann leiðréttir mig þá --- að hann mundi ekki láta sér það nægja og ef niðurstaða bankaráðs verður ekki fullnægjandi muni hann kalla til hluthafafundar.

Mér fannst miður að hæstv. ráðherra skyldi ekki geta svarað varðandi eftirlitsskyldu bankaráðs og innra eftirlitið í bankanum. Ég held að það sé alveg ljóst að innra eftirlitið í bankanum er í molum. Og ég held að við hljótum, bara miðað við þær upplýsingar sem við höfum nú, að sjá að bankaráðið hefur líka brugðist skyldum sínum. Ég vitna aðeins til þess að 1993 átti að setja reglur um risnu. Þær eru ekki enn til í dag og bankaráðið hefur greinilega ekki kallað eftir þeim af hálfu bankastjórnar. Það átti að hætta öllum laxveiðiferðum 1993 en þær viðgangast enn þá þannig að ég spyr um eftirlit bankaráðsins. Mér sýnist því að bankaráðið hafi líka brugðist í þessu efni.

Það kom fram í fjölmiðlum í gær --- ég spyr ráðherrann hvort hann hafi vitneskju um það --- að endurskoðendur bankans hafi komið fram með aðvaranir varðandi ýmsa kostnaðarþætti, laxveiðar o.fl. Ráðherrann segist ekki hafa fengið slíka aðvörun. En veit ráðherrann til þess að bankaráðið eða bankastjórn hafi fengið slíka aðvörun frá endurskoðendum bankans?

Herra forseti. Þetta mál er margþætt og snýst um sóun og misnotkun á almannafé sem við höfum farið hér í gegnum, varðandi laxveiðar, risnu, ferðalög o.fl. Það snýst um það að bankastjóri hefur misnotað aðstöðu sína og selur sjálfum sér og bankanum laxveiðileyfi. Það snýst um rangar upplýsingar til Alþingis, hugsanlega skattalega misnotkun og brot á ýmsum lögum sem ég nefndi hér, og það snertir almennan siðferðisbrest og ábyrgðarleysi í stjórnsýslunni. Heilbrigð dómgreind og siðgæðisvitund gagnvart óskráðum reglum virðast ekki duga til. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann muni svara þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir hann í átta liðum þegar hann fær þær upplýsingar sem hann bíður eftir.

Ég minni líka á, herra forseti, að ég hef lagt hér fram ýmsar tillögur sem ég tel að séu til þess að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þær lúta að ráðherraábyrgð, eftirlitsnefndum þingsins, endurskoðun á allri löggjöf og opnum heimildum til framkvæmdarvaldsins og ég spyr hvort þar geti legið orsökin fyrir sóun og of litlu aðhaldi í meðferð opinberra fjármuna. Einnig hef ég lagt til að við styrkjum stöðu Ríkisendurskoðunar. (Forseti hringir.) Ég vænti þess einnig að fram komi a.m.k. fyrr eða síðar, svör við þeim spurningum sem ég hef beint til forsetadæmisins.