1998-04-06 15:10:27# 122. lþ. 101.93 fundur 295#B kostnaður Landsbankans við laxveiðar og rangar upplýsingar í svari ráðherra til Alþingis# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur verið mjög kvartað undan því að ekki skyldi vera hægt að svara öllum þeim fyrirspurnum sem hér voru lagðar fram. Það er að vísu rétt, ég viðurkenni það, að svörin voru að mörgu leyti ófullkomin að því leyti til að ekki liggja fyrir upplýsingar um einstaka þætti sem fram koma í einstökum fyrirspurnum hv. þm. Það hvarflaði ekki að mér, eins og fram hefur komið hjá mörgum hv. þm. sem hér hafa talað, að vera með dylgjur eða vangaveltur um það hvernig þetta mál liggur fyrir. Þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar liggur fyrir um heildarniðurstöðu málsins er fyrst hægt að taka ákvarðanir.

Það er ekki rétt sem fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan í lok þessarar umræðu að engar reglur séu til um starfskjör bankastjóra, ferðakostnað og risnu. Þær reglur hafa verið settar nú með tilkomu hlutafélagabankanna, skýrar reglur um launakjör, skýrar reglur um risnukostnað og skýrar reglur um ferðakostnað, en þessar reglur voru ekki áður til staðar.

Hv. þm. hafa kallað eftir ábyrgð og það er alveg eðlilegt. Margir kunna að þurfa að bera ábyrgð í þessu máli en langeðlilegast er að menn beri ábyrgð á þeim forsendum sem liggja til grundvallar í málinu en verði ekki dæmdir hér á málflutningi stjórnarandstöðunnar í þessu máli. Það er grundvallaratriði að það verði ekki gert. Þeir eiga að bera ábyrgð sem ábyrgðina eiga að bera og það þurfa þeir að gera. Og dylgjur eins og fram komu í frammíkalli hv. þm. Svavars Gestssonar, um að það eigi að láta vélritunarfólk eða lægra sett fólk í starfi Landsbankans bera ábyrgð, eru ósmekklegar við þessar kringumstæður og útúrsnúningur á orðum hæstv. forsrh. áðan. Það kom skýrt fram að þeir verða látnir bera ábyrgð í þessu máli sem ábyrgðina eiga að bera.