Útgáfa reglugerðar um sölu áfengis

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:32:45 (5395)

1998-04-06 15:32:45# 122. lþ. 102.91 fundur 296#B útgáfa reglugerðar um sölu áfengis# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:32]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vísa enn á bug þeirri gagnrýni að hér hafi ekki verið eðlilega staðið að útgáfu reglugerðar af hálfu fjmrh. Hv. Alþingi er ekki að fjalla um þetta tiltekna atriði. Þau frv. sem liggja fyrir Alþingi voru rædd mjög mikið á milli stjórnarflokkanna og það vita allir sem komið hafa að málinu að fyrir lá samkomulag um þau atriði sem er að finna í þeim frv.

Það kom vissulega til álita, því er ekki að leyna, að leggja til við hv. Alþingi að einkaleyfi ÁTVR yrði tekið af þannig að allir gætu stundað smásölu með tilteknum skilyrðum. Niðurstaðan var þó ekki sú. Þau atriði sem um er rætt í reglugerðinni koma til vegna þess að Samkeppnisstofnun lagði eindregið til að við yrðum að taka upp breytta háttu. Og ég endurtek hér að þeir verslunarhættir sem teknir eru upp með reglugerðinni eru hinir sömu og tíðkast á Norðurlöndum þar sem áfengisútsölur hafa verið með svipuðu sniði og hér á landi. (ÖJ: Þetta eru ósannindi.) Þetta er nú einu sinni þannig og hv. þm. getur fengið að skoða þær upplýsingar sem ég hef undir höndum í þessum efnum.

Ég vil síðan ítreka það, virðulegi forseti, að mér finnst sjálfsagt að nefndin skoði þetta mál. Það er niðurstaða sem liggur fyrir. Það að gera þetta 15. maí var m.a. vegna þess að forstjóri stofnunarinnar taldi að hann þyrfti að hafa tíma til undirbúnings. Hjá fyrirtækinu sjálfu breytast hlutirnir sáralítið því að fyrirtækið þarf auðvitað að afla aðfanga. Eini munurinn er sá að það verður gert með útboði sem nær ekki eingöngu til Íslands heldur jafnvel til annarra landa. Vandinn er sá, og það vita hv. þm., að það var ekki hægt að fara aðra leið nema breyta lögum af því að í 4. gr. laga um ÁTVR segir skýrt og skilmerkilega að forstjórinn ráði alla aðra starfsmenn fyrirtækisins. Samkeppnisstofnun segir að það sé nauðsynlegt að halda þessu algjörlega aðskildu og þar með var nauðsynlegt að breyta lögunum eða fara þessa fyllilega löglegu leið enda liggur fyrir lögfræðiálit á málinu.