Starfsemi Umsýslustofnunar varnarmála

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:39:16 (5397)

1998-04-06 15:39:16# 122. lþ. 102.6 fundur 523. mál: #A starfsemi Umsýslustofnunar varnarmála# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:39]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég skal viðurkenna að ég er í nokkrum vandræðum með að svara þessari fyrirspurn. Það er ekki síst vegna þess að um svipað leyti og þessi fyrirspurn kom fram var lagt fram svar, að ég hygg frá hæstv. utanrrh., við fyrirspurn af svipuðum toga. Þá má búast við að svarið verði ekki ólíkt því sem þar var gefið.

Reyndar svaraði hv. þm. fyrri hluta fyrirspurnarinnar sjálf en skv. 3.--5. mgr. 8. gr. viðbætis við lög nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, er mönnum úr liði Bandaríkjanna og heryfirvöldum heimilt að flytja til landsins vörur. Þar með eru taldar bifreiðar, án greiðslu aðflutningsgjalda. Ég vil sérstaklega geta þess að þessi viðbætir hefur lagagildi og er birtur í Lagasafninu.

Um meðferð og endursölu þessara vara hér á landi gilda mjög strangar reglur. Í b-lið 7. mgr. 8. gr. viðbætisins, sem hv. þm. reyndar vitnaði til, kemur fram að slíkar vörur skuli ekki látnar af hendi á Íslandi. Þar skiptir engu hvort um er að ræða gjöf, sölu eða skipti. Ein undanþága er þó frá þessari reglu og hún er sú að þegar sérstaklega stendur á sé heimilt að afhenda þessar vörur hér á landi samkvæmt skilyrðum tollyfirvalda, t.d. um greiðslu aðflutningsgjalda. Í þeim tilvikum annast Umsýslustofnun sölu varanna, þ.e. hún hét áður Sölunefnd varnarliðseigna, samkvæmt reglugerð nr. 227/1995. Og með sérstöku milliríkjasamkomulagi árið 1962 var ákveðið að setja á laggirnar sérstaka nefnd á vegum utanrrn. er skyldi sjá um alla ráðstöfun tollfrjálsrar vöru samkvæmt varnarsamningnum og ætlunin væri að ráðstafa innan lands. Við sölumeðferðina var nefndinni gert að tryggja greiðslu á tollum og öllum afléttum gjöldum.

Spurt er hvernig eftirliti sé háttað með uppboðum og sölu Umsýslustofnunar á bifreiðum. Ég get einungis svarað með því að Umsýslustofnunin er ein af stofnunum utanrrn. og lýtur stjórnsýslulegu eftirliti þess. Það er svo sem ekkert einsdæmi, lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli heyrir undir utanrrn. en ekki undir fjmrn. þó að þar fari fram tollafgreiðsla. Ég verð þess vegna að vísa til svars utanrrn. þar sem fram kemur að verið sé að kanna hvort heppilegt sé að flytja stofnunina um set. Mér skilst þó að sala á þeim eignum sem þarna er um að ræða, sé þannig að boðið sé í viðkomandi eignir, t.d. bifreiðar sem sérstaklega er spurt um, og boði hæstbjóðanda tekið. Og mér skilst jafnframt að þær bifreiðar fari jafnan á svipuðu verði og er markaðsverð á slíkum bifreiðum hér á landi. Tollum eða aðflutningsgjöldum er þannig ekki skilað af vörunni heldur fyrst og fremst þeim ágóða sem verður af þessari verslun. Þá kemur kannski að kjarna málsins og hann er spurningin um hvort þessi ágóði sé eðlilegur miðað við starfsemina.

Í fjárlögum fyrir yfirstandi ár er gert ráð fyrir að hagnaðurinn sé 11 millj. kr. af 147 millj. kr. rekstrartekjum. Mér er kunnugt um að fara þurfi í verulegt viðhald á húsnæðinu sem þessi starfsemi fer fram í og get ekki því miður ekki, virðulegi forseti, á þessari stundu, sagt til um það hvort þessi rekstrarafgangur, þessi hagnaður, sé eðlilegur miðað við umsvifin. Og ég tel að eðlilegra sé að vísa spurningum um eftirlit með þessari starfsemi til þess aðila sem hefur stjórnsýslulegt eftirlit með starfseminni. Það er utanrrn. Ég finn að þessi svör eru heldur fátækleg. Ég hef verið að vitna til svara sem liggja fyrir en ég sé ekki í fljótu bragði að ég geti svarað öðruvísi. Svörin liggja fyrir af hálfu utanrrn.