Prófun á vímuefnaneyslu nemenda í skólum

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:57:57 (5403)

1998-04-06 15:57:57# 122. lþ. 102.3 fundur 574. mál: #A prófun á vímuefnaneyslu nemenda í skólum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Enginn velkist í vafa um að fíkniefnaváin er ein ömurlegasta ógn við íslenskt samfélag. Þrátt fyrir mikla vinnu undir merkjum forvarna berast stöðugt óhugnanlegar fréttir af neyslu ungmenna á fíkniefnum. Nýlega á opinni ráðstefnu lýstu fimm mæður ungra fíkla átakanlegri reynslu sinni af því hvernig börn þeirra drógust inn í hinn miskunnarlausa heim fíkniefna, með öllum þeim skelfilegu afleiðingum sem því fylgir fyrir einstaklinginn og alla aðstandendur hans. Í nokkrum tilvikum er um að ræða fíkniefnaneyslu allt frá 13 ára aldri. Við þurfum ekki að fara í grafgötur með það að börn á grunnskólaaldri eru sum hver fórnarlömb þessa skelfilega eiturs. Síðan tekur framhaldsskólastigið við og þannig verður keðjuverkun. Flestir geta verið sammála um hversu mikilvægt er að geta gripið inn í með réttum úrræðum strax á fyrstu stigum hrösunar barns eða unglings. Alkunna er hins vegar að oftar en ekki eru það foreldrarnir sem síðastir fá að vita um að barn þeirra er byrjað að feta sig inn á hinar lífshættulegu brautir fíkniefnanna. Hins vegar eru mörg dæmi þess að kennarar, skólafélagar og leikfélagar hafi fengið grun um að tilteknir einstaklingar séu byrjaðir að fikta sig inn á þessar hættulegu brautir. Þá vekur athygli, herra forseti, að árlega virðast fá sýni vera send til rannsókna til að ganga úr skugga um meinta fíkniefnanotkun, enda slík hefðbundin efnarannsókn afskaplega dýr og svifasein. Nú munu hins vegar vera til aðferðir sem eru bæði miklu einfaldari í meðferð, skjótvirkari og ódýrari í alla staði. Þar er m.a. átt við mælingar úr þvagsýnum eða jafnvel úr svita einstaklings. Aðferðin mun vera mjög einföld og getur í raun hver sem er notað hana.

[16:00]

Þess vegna kviknar sú spurning hvort ekki sé ástæða til að búa foreldra, kennara og leiðbeinendur í íþrótta- og tómstundastarfi þeim vopnum að geta kallað einstakling til slíkrar prófunar ef minnsta ástæða er til.

Hér er vissulega vandi á höndum. Ég bendi á vernd einstaklingsins, óeðlilega upplýsingasöfnun og fleira í þeim dúr. En þarna, herra forseti, gæti samt verið möguleiki á að koma markvisst inn í skólakerfið, inn á heimili og annars staðar þar sem grunur leikur á að fíkniefnaneysla geti verið til staðar, kerfisbundnu fyrirkomulagi. Hins vegar kunna að vera á þessu lagalegar hindranir og af þeim ástæðum hef ég beint þeim fyrirspurnum til hæstv. dómsmrh. hvort hann telji að lög banni skólayfirvöldum í samvinnu við foreldra að taka upp markvissa prófun á vímuefnaneyslu nemenda ef ástæða er talin til.