Prófun á vímuefnaneyslu nemenda í skólum

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:01:59 (5405)

1998-04-06 16:01:59# 122. lþ. 102.3 fundur 574. mál: #A prófun á vímuefnaneyslu nemenda í skólum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:01]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svarið. Ég vil benda á að komi nemandi drukkinn í skóla, grunnskólanemandi eða framhaldsskólanemandi, er tiltölulega auðvelt að sjá það af hegðan hans eða af lykt. Í slíkum tilvikum er þegar í stað gripið til viðeigandi ráðstafana.

Hins vegar er vandinn með fíkniefnaneyslu sá að nemandi getur verið undir áhrifum fíkniefna án þess að það sjáist af atferli hans né heldur að einhver sérstök lykt fylgi því.

Ég ítreka það sem ég nefndi áðan að núverandi og hefðbundin tækni við að mæla meinta fíkniefnaneyslu er seinvirk og dýr en hér er verið að benda á nýja tækni sem er til staðar og hefur rutt sér til rúms og gæti einfaldað þessa framkvæmd í alla staði. Það er líka vert að benda á að hér er verið að ræða um að taka upp hugsanlegt kerfisbundið eftirlit í samstarfi við foreldra, í samstarfi við námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðinga og þannig mætti áfram telja. Ég ítreka hvaða gildi það hefur fyrir einstakling ef hægt er að forða ungu barni eða unglingi frá hrösun strax á fyrstu stigum áður en vandamálið er orðið alvarlegt. Fyrir einstaklinginn er það mikilvægt, þjóðfélagslega er það mikilvægt. Sé það skoðun hæstv. dómsmrh. að það þurfi lagabreytingu til vil ég spyrja hvort hæstv. dómsmrh. hafi í hyggju að beita sér fyrir slíkri lagabreytingu í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram því og þar bendi ég á einkum þessa nýju tækni.