Störf nefndar um skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:20:10 (5412)

1998-04-06 16:20:10# 122. lþ. 102.4 fundur 624. mál: #A störf nefndar um skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:20]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Bara smáinnlegg í þessa umræðu. Ég vil þakka fyrir þær upplýsingar sem hafa komið fram um starf þessarar nefndar. Það er greinilega mjög víðfeðmt hlutverk sem nefndin hefur til athugunar og gott eitt allt um það að segja. Mig langar til að leggja áherslu á að mjög mikilvægt er að niðurstaða komi fljótt í mörg þeirra mála sem nefndin er með til umfjöllunar. Þar vil ég sérstaklega nefna rétt barna til umgengni við báða foreldra sína. Ég tel að úrbótum í þeim efnum verði að flýta mjög og þau geti vart beðið eftir því að nefndin klári öll þau verkefni sem hún er að vinna. Ég tel mjög mikilvægt að komið verði á skylduráðgjöf, faglegri ráðgjöf við skilnaði til að tryggja að börn fái notið þess réttar sem þau eiga samkvæmt alþjóðasamningum og mannréttindasáttmálum sem við erum aðilar að.

Sömuleiðis tel ég mikilvægt að því fyrirkomulagi verði komið á að börnum sé skipaður talsmaður þegar erfitt er að koma á umgengni við það foreldri sem börn eru ekki hjá. Þannig verði séð til þess að haft sé samband fyrir barnið við það foreldri sem t.d. ekki sinnir umgengnisskyldu sinni til að réttur barnsins verði tryggður. Ég held að þetta geti ekki beðið eftir að nefndin ljúki störfum þó greinilega sé um mjög mikilvæg og margþætt mál að ræða sem nefndin er að fjalla um. En ég held að taka verði á þessum sérstaka þætti sem er umgengnisréttur barna við báða foreldra sína. Það er nauðsynlegt að það bíði ekki eftir lokaniðurstöðu þessarar nefndar.