Umferðarstjórn lögreglunnar

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:28:55 (5415)

1998-04-06 16:28:55# 122. lþ. 102.5 fundur 637. mál: #A umferðarstjórn lögreglunnar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:28]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á síðasta hausti var settur á fót starfshópur sem skipaður var fjórum fulltrúum frá yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík og þremur fulltrúum frá stjórn Lögreglufélags Reykjavíkur. Aðalmarkmið starfshópsins var að fjalla um aðalvaktkerfi lögreglunnar í Reykjavík með tilliti til vinnutímatilskipunar EES.

Í þessu sambandi var m.a. skoðaður sá möguleiki að fella niður núverandi kerfi í almennri deild og umferðardeild og sameina þessar einingar í eina deild. Niðurstaða starfshópsins varð sú að leggja til að umferðardeild starfaði áfram og því eru engin áform um að leggja umferðardeildina niður, hvorki hjá ráðuneytinu né lögreglustjóranum í Reykjavík.

Til að ná fram markmiðum umferðaröryggisáætlunarinnar til ársins 2001 hefur ýmsum úrræðum verið beitt eins og rakið er m.a. í skýrslu minni til Alþingis um stöðu umferðaröryggismála sem lögð var fram fyrr á þessu ári. Ekki er sérstaklega gert ráð fyrir því sem úrræði til að ná fram markmiðum umferðaröryggisáætlunarinnar að auka sjálfstæði einstakra lögregludeilda.

[16:30]

Af fyrirspurn hv. þm. verður heldur ekki ráðið með hvaða hætti slíkt ætti að leiða til aukins árangurs. Að mati lögreglustjórans í Reykjavík kemur það ekki til greina og færir hann þau rök fyrir því að á undanförnum mánuðum hafi markmið hans verið þau að virkja alla einkennisklædda lögreglumenn meir við umferðarlöggæslu til viðbótar starfsemi umferðardeildarinnar. Í því sambandi nefnir hann að samkvæmt úttekt lögreglustjórans á árangri í 15 flokkum umferðarlagabrota fyrstu þrjá mánuði þessa árs, hafi almenn deild lögreglunnar kært í rúmlega 3.000 málum en umferðardeildin í um 1.500 málum. Lögreglustjóri bendir á að sérstaka athygli veki hversu miklu fleiri ökumenn almenn deild kæri vegna ölvunar við akstur og réttindaleysis við akstur, svo dæmi sé tekið. Ljóst er að sú tilhögun hefur gefist mjög vel. Lögreglustjóri metur það svo að þessum málaflokki hafi sjaldan eða aldrei verið betur sinnt. Segir hann að samanburður á fyrstu þremur mánuðum þessa árs og síðasta árs gefi til kynna að sú stefna að virkja alla lögreglumenn meira í umferðarmálum hafi skilað sér ríkulega en töluverð aukning hefur orðið á kærum í flestum flokkum umferðarlagabrota.

Ég tel að reglugerð um einkennisbúninga, merkibúnað lögreglumanna, sé fullnægjandi trygging fyrir öryggi lögreglumanna við umferðarstjórn. Nefna má að með reglugerðinni var formlega tekið upp svokallað endurskinsvesti, sem er mjög áberandi og sést vel í myrkri. Samkvæmt reglugerðinni skal vestið að jafnaði nota úti við þegar skuggsýnt er og slæmt skyggni. Auk þess segir að vestið skuli ætíð fylgja klæðnaði lögreglumanns á bifhjóli.

Reglugerðin tók gildi 1. jan sl. og af því tilefni var, m.a. hjá lögreglunni í Reykjavík, vakin athygli á gildandi ákvæðum hennar með skriflegri tilkynningu til lögreglumanna. Þar kemur fram að a.m.k. tvö endurskinsvesti verði til staðar í öllum lögreglubifreiðum embættisins og er lögð rík áhersla á að allir lögreglumenn noti þau við störf í umferðinni, svo sem umferðarstjórn, við stöðvun ökutækja þar sem slys hafa orðið o.s.frv. Einnig má nefna að í febrúarmánuði sl. var mælt fyrir því hjá embætti lögreglustjórans í Reykjavík að í öllum bifreiðum umferðardeildar yrðu tvær ljósakylfur til umferðarstjórnunar, auk endurskinsvestanna, en öllum lögreglumönnum í umferðardeild sem starfa úti er úthlutað endurskinsvesti. Að mínum mati tryggir hin nýja reglugerð um öryggi lögreglumanna við umferðarstjórn ekki síður en áður.