Umferðarstjórn lögreglunnar

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:33:07 (5416)

1998-04-06 16:33:07# 122. lþ. 102.5 fundur 637. mál: #A umferðarstjórn lögreglunnar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:33]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og gagnlegar upplýsingar um búnað lögreglumanna, endurskinsvestin sem eru tvenn og kylfurnar sem hann fjallaði rækilega um í máli sínu. Í máli hans kom einnig fram að ekki væri á döfinni að leggja niður umferðardeildina, að mér skildist, eins og áform voru uppi um. Þar á móti leggur hann mikla áherslu á að það að draga hina almennu lögreglu alla inn í umferðareftirlitið sé mjög til bóta og skili miklum árangri. Mér sýnist að þar með sé það í raun þannig, þó að hugmyndir um það að leggja niður umferðardeildina séu ekki á dagskrá til framkvæmda eins og sakir standa, þá sé ráðuneytið sé með það í huga að smátt og smátt yfirtaki hin almenna lögregla alla þessa starfsemi og umferðardeildin verði þar með lögð niður. Ef það er ætlunin, eins og mig grunar af svörum ráðherrans þrátt fyrir ákvarðanir þeirra um að hætta við fyrir nokkru, þá tel ég það slæmt vegna þess að hjá umferðardeildinni og umferðarstjórn lögreglunnar í Reykjavík er geysilega mikil fagleg þekking sem getur ekki nýst annars staðar en þar, jafnmarkvisst og verið hefur. Þess vegna vara ég við hugmyndum um að það að taka almennu lögregluna inn í þetta í staðinn muni leysi allan vanda.