Heilsugæslumál á Eskifirði og Reyðarfirði

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:46:57 (5421)

1998-04-06 16:46:57# 122. lþ. 102.7 fundur 585. mál: #A heilsugæslumál á Eskifirði og Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:46]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að bera fram þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði þó óskað eftir að svör hæstv. ráðherra hefðu verið skýrari því ljóst er að þolinmæði heimamanna er á þrotum. Ég vil í því sambandi vitna í ályktun frá Félagi eldri borgara á Eskifirði sem okkur þingmönnum Austurlands barst nú á dögunum en þar segir, með leyfi forseta:

,,Félagið lætur í ljós áhyggjur sínar vegna hins ógnvekjandi ástands í læknamálum Eskifjarðarlæknishéraðs. Læknaskipti eru hér mjög tíð og læknalaust oft dögum saman. Slíkt öryggisleysi er öldruðum mjög erfitt, brýtur niður sálarþrek, vilja og líkamlegt mótstöðuafl sem getur valdið ótímabærum og kostnaðarsömum veikindum``.

Það er alveg ljóst að þegar aldraðir eru farnir að taka svo djúpt í árinni er málið orðið mjög alvarlegt.

Okkur hafa einnig borist ályktanir frá sveitarstjórnum á Reyðarfirði, Eskifirði og Neskaupsstað og stjórn heilsugæslu Eskifjarðarlæknishéraðs. Það er nefnt að frá því í janúar 1997 eða á fimmtán mánuðum hafa starfað 26 læknar í héraðinu. Við þessar aðstæður hlýtur að koma mjög til athugunar hvort ekki muni vera skynsamlegt að greiða staðaruppbætur þar sem þessi læknaskortur er fyrst og fremst kjaralegs eðlis. Úrskurður kjaranefndar leysti ekki málið og því verður að grípa til annarra aðgerða.