Heilsugæslumál á Eskifirði og Reyðarfirði

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:48:52 (5422)

1998-04-06 16:48:52# 122. lþ. 102.7 fundur 585. mál: #A heilsugæslumál á Eskifirði og Reyðarfirði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:48]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin vil ég undirstrika að þau valda mér vonbrigðum. Það er ekki fundin lausn á því neyðarástandi sem þarna hefur ríkt og er enn til staðar, verður alvarlegra með hverjum deginum sem líður. Það er eindregin krafa sem er undirstrikuð hér með þátttöku annarra þingmanna Austurl. í þessari umræðu að ráðuneytið sjái til þess að þarna náist lausn sem hægt er að una við. Það er ekki verið að biðja um að tveir heilsugæslulæknar verði ráðnir í dag eða á morgun. Menn mundu gleðjast ef einn læknir fengist til starfa sem yrði þarna til frambúðar á meðan verið er að leita tryggilegra lausna til frambúðar. Það liggur enn þá ekkert fyrir. Það er þakkarvert að forsendum greiðslna fyrir gæsluvaktir hefur verið breytt. Það getur verið mikilvægur liður í þessu.

En það þarf ljóslega að koma fleira til. Ég spyr, virðulegur forseti: Af hverju leggur hæstv. ráðherra hér ekki fram eða biður viðkomandi ráðuneyti að leggja fram frv. til laga um breytingu á lögum varðandi embættisbústaði, varðandi þetta hérað og e.t.v. fleiri? Það var heilbrrn. sem beitti sér fyrir því og lagði mikinn þrýsting á heimamenn fyrir tveimur árum eða svo að selja læknisbústað og skilyrti það nánast í sambandi við önnur mál og það ber að leiðrétta og verður að leiðrétta.

Ég vænti þess að eftir þessa umræðu átti hæstv. ráðherra sig á því hversu grafalvarlegt þetta mál er fyrir þetta hérað. Um leið og talað er um byggðamál verða menn auðvitað í Stjórnarráðinu í Reykjavík að átta sig á því að undirstöður sem heilsugæslu verður að tryggja. Það er nú ekki svo að þetta sé á einhverjum útnára sem fáir búi og þetta þarf auðvitað að gilda fyrir alla. Hér erum við á miðjum Austfjörðum að fást við vandamál af þessum toga.