Tilkostnaður við tannréttingar

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:00:50 (5426)

1998-04-06 17:00:50# 122. lþ. 102.8 fundur 610. mál: #A tilkostnaður við tannréttingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:00]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, fyrir þessa fyrirspurn sem var vissulega bæði brýn og orð í tíma töluð. Það vekur athygli í svari hæstv. ráðherra hversu mismunandi kostnaður virðist vera fyrir sömu verkin eða sambærileg verk allt eftir því hver veitir meðferðina og það kom fram í máli ráðherra að munurinn getur verið tífaldur. Það er alvarlegt og er nokkuð sem Tryggingastofnun og tryggingaráð þarf að bæta úr.

Kjarni málsins er sá að börn láglaunafjölskyldna eiga í mörgum tilvikum alls ekki kost á tannréttingum í dag.

Líka vekur athygli sá fjöldi mála sem berst til tryggingaráðs þar sem óskað er eftir endurgreiðslu á tannréttingakostnaði sökum lágra tekna framfærenda og 100 þús. kr. styrkur nægir þar alls ekki. Ég tel að heilbrrn. og Tryggingastofnun gætu leitað annarra leiða til þess að koma til móts við þessar fjölskyldur, t.d. með því að hækka beinar greiðslur og jafnvel að setja þær reglur að hugsanlega megi draga tannlæknakostnað sem fer yfir ákveðna upphæð frá skatti. Þar má slá tvær flugur í einu höggi, koma til móts við þessar fjölskyldur og jafnframt hafa eftirlit með tekjum tannlækna.