Tilkostnaður við tannréttingar

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:02:29 (5427)

1998-04-06 17:02:29# 122. lþ. 102.8 fundur 610. mál: #A tilkostnaður við tannréttingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að spyrjast fyrir um þetta mál. Það er alveg ljóst að 500 þús. kr. aðgerð er ofviða meðallaunamanni ef hann fær aðeins 100 þús. greiddar úr almannasjóðum til að koma til móts við þann kostnað. Ef mörg slík dæmi eru uppi þá fær fjöldi barna ekki þá þjónustu sem þyrfti.

Vissulega er þetta rétt leið sem farin hefur verið hjá hæstv. heilbrrh. og í Tryggingastofnun, að koma til móts við fleiri eins og gert er með þessari 100 þús. kr. greiðslu. En það dugir bara alls ekki til. Það þarf meira til þess að allir geti átt kost á þessari þjónustu.

Hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir benti á frádrátt frá skatti. Slíkt mál liggur fyrir í þinginu og væri full ástæða til þess að skoða þá leið betur þó svo að yfirvöld séu ekki beint hrifin af henni. En það verður að jafna þarna og þetta má ekki bitna á börnum láglaunafólks þannig að þau fái ekki viðunandi tannlæknaþjónustu eins og tannréttingar eru í mjög mörgum tilvikum.