Aðgangur að Grensáslaug

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:08:28 (5430)

1998-04-06 17:08:28# 122. lþ. 102.9 fundur 623. mál: #A aðgangur að Grensáslaug# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:08]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Mig langar að varpa fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um gjaldtöku fyrir fatlaða lífeyrisþega vegna aðgangs að sundlauginni á Grensásdeildinni.

Lífeyrisþegar fá frítt í sund í almennum sundlaugum eins og hérna á höfuðborgarsvæðinu. Fatlaðir sem ekki geta notað almennar sundlaugar en geta farið í Grensáslaug án þess að fá þar nokkra sérstaka þjónustu svo sem þeir sem eru hjólastólabundnir, þurfa að greiða aðgangseyri þar. Með þessu er verið að mismuna lífeyrisþegum eftir því hvaða fötlun þeir eru haldnir.

Nú vitum við að þrengt hefur verið að Sjúkrahúsi Reykjavíkur í fjárveitingum til rekstrar og þeir hafa ekki treyst sér til þess að afnema þetta gjald en eftir því sem ég best veit eru forsendurnar fyrir gjaldinu löngu brostnar vegna þess að það var sett á á meðan Grensáslaug var látin greiða fyrir heita vatnið eins og til húshitunar í Reykjavík en nýtur nú sömu kjara og almenningssundlaugarnar. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að þessi hópur fatlaðra, sem reyndar er ekki stór en býr við þetta ranglæti og þessa mismunun að þurfa að greiða fyrir þegar þeir sækja sundlaugar, fái sömu kjör hvað varðar aðgang að Grensáslauginni eins og fatlaðir lífeyrisþegar hafa í almennum sundlaugum, þeir sem geta nýtt sér þær. Ég vil benda á að þessi hópur, lífeyrisþegar, er yfirleitt mjög tekjulágur og þó að aðgangseyrir sé ekki hár eða um 150 kr. í hvert sinn þá er þetta þó nokkur upphæð fyrir fólk sem hefur aðeins lífeyrisgreiðslurnar til að lifa af. Það getur farið allt upp í 40--48 þús. kr. á ári. Þeir sem um er að ræða eru ekki margir og ég gæti trúað að því að kostnaðurinn sem heilbrrn. þyrfti að bera af þessu væri kannski á við eina utanlandsferð starfsmanns í ráðuneytinu með dagpeningum. Það mundi kosta á við þrjá til fjóra daga í góðri laxveiðiá að koma þarna á réttlæti. Ég vil því gjarnan að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn að veita fé til þess að leiðrétta þá mismunun sem þessi hópur býr við í þjónustu hvað varðar aðgang að sundlaugum.