Aðgangur að Grensáslaug

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:11:31 (5431)

1998-04-06 17:11:31# 122. lþ. 102.9 fundur 623. mál: #A aðgangur að Grensáslaug# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:11]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Æfingasundlaug Grensásdeildar Sjúkra\-húss Reykjavíkur er eins og heitið gefur til kynna æfingasundlaug fyrir einstaklinga sem nota sundæfingar til að ná líkamlegri færni. Fyrst og fremst er þetta æfingasundlaug endurhæfingardeildar sjúkrahússins og gegnir þar mikilvægu hlutverki sem tæki til að deildin nái markmiðum sínum til að endurhæfa inniliggjandi sjúklinga. Á þeim tímum þegar sjúkrahúsið þarf ekki á sundlauginni að halda hafa aðrir möguleika á að notfæra sér þá kosti sem þessi sundlaug býður upp á. Kostirnir eru einkum þeir að starfsfólk er til staðar sem sinnir og aðstoðar fatlaða einstaklinga við sundæfingar sem hluta sjúkraþjálfunar eða til viðbótar við hana. Þá hefur æfingalaugin verið leigð til hópa fatlaðra sem stunda sameiginlegar sundæfingar sem eru sniðnar að þeim og hæfa þeim sérstaklega, enda eru þeir hópar þá með eigin þjálfara með í för.

Nokkuð er um að fatlaðir einstaklingar sem hafa áður verið við æfingar í lauginni haldi áfram að koma þangað til að notfæra sér aðstæður þar sem henta þeim vel. Almennir sundstaðir bjóða lífeyrisþegum yfirleitt upp á ókeypis aðgang og nú er spurt hvort einstaklingar sem ekki geta nýtt sér þá sundstaði vegna fötlunar sinnar eigi ekki að fá að njóta sömu kjara í æfingalauginni.

Allir geta verið sammála um að tímaþörf sjúkrahússins vegna inniliggjandi sjúklinga hefur fyrsta forgang. Tímaþörf sjúkraþjálfunar vegna sjúklinga á göngudeild sem er niðurgreidd af almannatryggingum hefur annan forgang og þeir sjúklingar greiði sinn hlut samkvæmt reglum tryggingaráðs um þjálfun. Hópar fatlaðra undir leiðsögn þjálfara hafa þriðja forgang en þeir hópar eru oftast á vegum félaga fatlaðra sem njóta opinbers stuðnings. Síðast koma svo þeir sem nota þá tíma sem eftir standa til að koma þarna á eigin vegum og njóta aðstöðunnar og þeirrar aðstoðar sem þar býðst og fæst ekki annars staðar. Þessir aðilar greiða 150 kr. fyrir hvert skipti eins og hv. þm. gat um áðan.

Það er ljóst af þessari upptalningu að hinir ýmsu hópar sjúklinga njóta innbyrðis ekki sömu kjara í æfingalauginni sjálfri hvað þá ef miðað er við almenningssundlaugar. Jafnljóst er að æfingasundlauginni verður ekki jafnað við almenningssundstaði enda gegnir hún allt öðru hlutverki. Ég tel að ákvörðun í þessu máli verði að liggja hjá stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur miðað við þá sérhæfðu þjónustu sem veitt er þannig að jafnrétti náist annars vegar milli sjúklinga æfingalaugarinnar innbyrðis og hins vegar miðað við sundgesti almenningssundstaða ef það er yfirleitt samanburðarhæft.

Í þessu sambandi verður einnig að minnast þess að fatlaðir hafa aðgang að sundlaug hjá Sjálfsbjörg sem er opin um það bil 35 klukkustundir á viku. Þar er aðgangur ókeypis en almennt ekki veitt sérstök aðstoð. Hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra kostar hvert skipti 100 kr. enda er veitt aðstoð eftir þörfum. Nauðsynlegt er að stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur hafi í huga við skoðun hvort aðgangur eigi að vera ókeypis út frá þeirri sérhæfðu þjónustu sem veitt er og í samanburði við aðrar sérhæfðar sundlaugar sem hér hafa verið nefndar.