Aðgangur að Grensáslaug

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:15:36 (5432)

1998-04-06 17:15:36# 122. lþ. 102.9 fundur 623. mál: #A aðgangur að Grensáslaug# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:15]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir þessa fyrirspurn sem er vissulega brýn og þörf.

Varðandi aðgengi fatlaðra að sundlaugum bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið er það þannig að þó svo mikið hafi verið gert í þeim efnum að bæta aðgengi fyrir heyfihamlaða að sundlaugunum, þá er einn hópur sem kemst nánast ekkert inn í þessar almennu sundlaugar og það eru fjölfatlaðir sem þurfa á miklum hjálpartækjum að halda til að geta komist ofan í laugarnar. Þarna kreppir skórinn verulega að þessum hópum bæði fjárhagslega en ekki síst það að opnunartími þjálfunarlauga, sem henta þessu fólki, er yfirleitt af svo skornum skammti að t.d. foreldrar fjölfatlaðra barna eiga ekki nokkurn kost á að fara með börn sín í þessar laugar því að venjulega er búið að loka þeim þegar dagvinnutíma foreldra lýkur. Þetta er líka atriði sem væri gott að hæstv. heilbrrh. léti skoða og reyndi að koma með úrbætur í þeim efnum.