Málefni Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:20:38 (5435)

1998-04-06 17:20:38# 122. lþ. 102.10 fundur 575. mál: #A málefni Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:20]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mönnum að að undanförnu hafa orðið talsverðar umræður um störf Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs. Þær umræður hafa bæði beinst að einstökum úrskurðum eða ákvörðunum samkeppnisyfirvalda sem og að vinnuaðferðum í öðrum tilvikum og jafnvel að sjálfum samkeppnislögunum og einstökum ákvæðum þeirra.

Umræðan hefur einkum risið hátt þegar samkeppnisyfirvöld hafa gripið til þess að skilyrða samruna eða yfirtöku fyrirtækja á öðrum á undanförnum missirum og nú síðast þegar samkeppnisráð beitti ákvæðum 18. gr. til að stöðva samruna eða yfirtöku Myllunnar/Brauðs hf. á Samsölubakaríi með þeim rökum að þá kæmi til sögunnar einn algerlega markaðsráðandi aðili hvað varðaði rekstur á verksmiðjubakaríi hér og framleiðslu á brauðum t.d. í hillur stórmarkaða.

Það hefur ekki síður, herra forseti, vakið eftirtekt hverjir hafa verið í fararbroddi fyrir gagnrýninni eða svo ekki sé sagt árásunum á Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð í þessu sambandi. Þar fóru fyrir fríðum flokki ef ekki þrír þá a.m.k. tveir nafntogaðir forstjórar stórfyrirtækja sem einmitt eru sjálf starfandi á fákeppnismarkaði hér í landi og þar komu að talsmenn Verslunarráðs og talsmenn iðnaðarins. Nú vantar það ekki, herra forseti, að allir þessir aðilar séu a.m.k. í orði kveðnu hallir undir frjálsa samkeppni og telji að hún eigi að ríkja. En hitt vekur auðvitað athygli að svo virðist að ef Samkeppnisstofnun er því hlutverki sínu trú að hindra þá viðleitni markaðarins sem alltaf er í gangi, að ná markaðsyfirráðum eða undirtökum á markaði og geta í skjóli slíkrar stöðu haft áhrif á verð, þá ætlar allt vitlaust að verða. Það læðist að mér sá grunur, herra forseti, að menn hafi ekki alveg skilið tilganginn með samkeppnislöggjöf og samkeppnisyfirvöldum ef menn bregðast þannig við þegar samkeppnisráð reynir á eðlilegan hátt að tryggja forsendur samkeppnisaðstæðna á markaði.

Ég hef því leyft mér af þessu tilefni, herra forseti, að spyrja hæstv. viðskrh. eftirfarandi spurninga:

Í fyrsta lagi. Hver er afstaða ráðherra til þeirrar gagnrýni sem forsvarsmenn nokkurra stórfyrirtækja á fákeppnismarkaði og talsmenn Samtaka iðnaðarins og Verslunarráðs hafa látið í ljós á störf Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs?

Í öðru lagi. Telur ráðherra að Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð hafi í einhverjum tilvikum starfað andstætt ákvæðum og megintilgangi samkeppnislaga?

Í þriðja lagi. Styður ráðherra viðleitni Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs til að tryggja virka samkeppni á hérlendum markaði eins og sú viðleitni hefur birst í störfum þessara aðila?

Í fjórða lagi. Telur ráðherra sérstök tilefni til að breyta einhverjum ákvæðum samkeppnislaga, t.d. ákvæðum 18. gr.?