Málefni Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 17:34:08 (5439)

1998-04-06 17:34:08# 122. lþ. 102.10 fundur 575. mál: #A málefni Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[17:34]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að í þessu svari var í sjálfu sér ekki mikil hætta á ónógum eða misvísandi upplýsingum. (SJS: Ónákvæmum.) Ónákvæmum upplýsingum. Hins vegar ítreka ég það sem kom fram í svarinu að þetta eru tiltölulega mjög ung lög og það er fyrst núna að reyna á einstaka þætti þeirra sem snúa beinlínis að samkeppnismarkaðnum þar sem fyrirtækin sem starfandi eru á litlum markaði með einokunaraðstöðu eða oft og tíðum fákeppnisaðstöðu verða fyrir barðinu á samkeppnisyfirvöldum. Einstök átök og deilur sem koma upp um hvernig samkeppnislögunum er beitt mega ekki verða til þess að menn fordæmi lögin og segi sem svo: Þarna verður að gera breytingar, og þá tek ég dæmi af 18. gr. sem slíkri sem hefur mest verið rætt um núna upp á síðkastið.

Ég hef hins vegar í hyggju, kannski síðari hluta sumars eða næsta haust, að eðlilegt sé að taka samkeppnislögin að því leyti til skoðunar og fara yfir hvernig framkvæmdin hafi gengið. Það á ekki að verða gert út frá hagsmunum einstakra fyrirtækja eða þeirra sem kvarta. Um það verður að hafa mjög breiða pólitíska samstöðu. Að því þarf Alþingi að koma að einhverju leyti. Þá á ég við þá flokka sem eiga fulltrúa á þingi og atvinnulífið að nokkru leyti líka, einfaldlega til þess að meta hvernig til hefur tekist. Þessi löggjöf var sett á sínum tíma, ef ég man rétt árið 1993 og kom þá til framkvæmda. Hún markar alger tímamót á þessu sviði og margar þjóðir benda á frá sinni reynslu og hafa horft á íslensku samkeppnislögin að mönnum hafi tekist að búa hér á Íslandi út samkeppnislög sem taki á mörgum þeim þáttum sem aðrar þjóðir öfunda okkur af að verið sé að taka á. Við eigum því að vanda okkur og við eigum að fara yfir þessi mál að mjög yfirlögðu ráði en ekki að hlaupa til af því að menn eru að kvarta. En ég ítreka það þó að menn verða líka að passa sig að beita þessu skynsamlega vegna þess að við erum á litlum markaði.