Tollalög

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 13:33:10 (5441)

1998-04-14 13:33:10# 122. lþ. 103.1 fundur 619. mál: #A tollalög# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[13:33]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á tollalögum. Þetta er þskj. 1050, 619. mál.

Helsta breytingin sem lögð er til í frv. er að lögfestur verði viðauki við tollalög þar sem tilgreindar verði ýmsar vörur á sviði upplýsingatækni sem ekki verði heimilt að leggja toll á. Jafnframt falli niður tollur af þeim vörum sem falla undir viðaukann og bera nú tolla.

Á ráðherraráðstefnu í Singapore í desembermánuði 1996 gerðust 28 ríki, sem starfa í Alþjóðaviðskiptastofnuninni, aðilar að ráðherrayfirlýsingu um niðurfellingu tolla í þrepum fyrir árið 2000 af ýmsum vörum á sviði upplýsingatækni. Síðar hafa fleiri ríki gerst aðilar að yfirlýsingunni og alls eru nú 43 ríki aðilar að henni og talið er að þau stundi um 93% heimsviðskipta með vörur á sviði upplýsingatækni. Í yfirlýsingunni er því lýst yfir að aðildarríki hennar skuli þróa viðskiptahætti sína þannig að það auki möguleika fyrir markaðsaðgang vara á sviði upplýsingatækni en jafnframt skuli aðildarríkin afnema toll af vörum sem tilgreindar eru í viðaukum við yfirlýsinguna. Niðurfelling og binding tolla af þessum vörum áttu samkvæmt yfirlýsingunni að gerast í tilteknum áföngum og skyldi vera að fullu lokið 1. jan. árið 2000 en þó var hvatt til örari niðurfellingar.

Í framhaldi af gerð þessarar yfirlýsingar lagði hvert ríki fyrir sig fram skuldbindingaskrá yfir þær vörur sem féllu undir ákvæði yfirlýsingarinnar og tollar skyldu afnumdir af. Á listanum, sem var lagður fram af Íslands hálfu, eru vörur sem tilgreindar eru í lista sem lagt er til að verði hluti af viðauka II og ber heitið viðauki IIC. Þar er að mestu leyti um að ræða vörur sem engir tollar eru á í dag og hefur þess vegna tiltölulega litla þýðingu fyrir ríkissjóð eins og síðar verður vikið að.

Vörur sem tollar falla niður af og óheimilt verður að leggja tolla á samkvæmt yfirlýsingunni eru m.a. óáteknir miðlar, hugbúnaður, rafmyndasímtæki, hljóðnemar, hátalarar, símsvarar svo og ýmiss konar fjarskiptaútbúnaður. Fæstar þeirra vara sem falla undir ákvæði ráðherrayfirlýsingarinnar bera nú tolla og hefur Ísland reyndar þegar skuldbundið sig til að leggja ekki tolla á margar þeirra. Þó eru tilteknar vörur sem falla undir yfirlýsinguna sem bera nú tolla og tollar munu því falla niður af. Þar ber helst að nefna rafmyndasímtæki, hljóðnema, hátalara, símsvara og svokallaða óátekna miðla, þ.e. segulbönd, myndbönd og diska.

Eins og ég sagði áður er erfitt að áætla hvert árlegt tekjutap ríkissjóðs verður við niðurfellingu tolla. Í heild má þó ætla að tekjutapið verði vart meira en 25 millj. kr. á ári. Á móti kemur að afnám tolla af þessum vörum auðveldar útflutning af ýmsum vörum á sviði upplýsingatækni sem framleiddar eru hérlendis en öllum er kunnugt um að íslenskur iðnaður, hugbúnaðariðnaður, hefur verið í mikilli framför á undanförnum árum.

Í annan stað er lagt til í þessu frv. að dregið verði úr ábyrgð þeirra aðila sem koma fram fyrir hönd innflytjenda við tollafgreiðslu á því að aðflutningsgjöld verði greidd. Samkvæmt ákvæðum tollalaga er meginreglan sú þegar einhver annar aðili en innflytjandi kemur fram gagnvart tollyfirvöldum við tollafgreiðslu ábyrgist sá aðili in solidum ásamt innflytjanda að aðflutningsgjöld verði greidd. Sem dæmi um slíka aðild má nefna flutningsmiðlanir, hraðflutningsfyrirtæki og rekstraraðila tollvörugeymslna. Standi innflytjandi ekki í skilum með greiðslu aðflutningsgjalda er því hægt að krefja umboðsaðilann um greiðslu aðflutningsgjaldanna. Telja verður að ábyrgð umboðsaðila á greiðslum aðflutningsgjalda sé of víðtæk, m.a. vegna þeirra breytinga sem urðu á tölvukerfi og tollafgreiðsluháttum á síðasta ári en þá var umboðsaðilum gert kleift að skuldfæra aðflutningsgjöld beint á innflytjendur, þ.e. þá sem njóta greiðslufrests í tolli. Því er lagt til í frv. að ábyrgð umboðsaðila falli brott við skuldfærslu aðflutningsgjalda á innflytjanda. Þó er gert ráð fyrir að umboðsmaður beri áfram solidaríska ábyrgð í þeim tilvikum er umboðsaðili hefur ekki haft heimild til að skuldfæra aðflutningsgjöld á innflytjanda eða þegar umboðsmaður vissi eða mátti vita að upplýsingar sem voru veittar við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, er lagt til í þessu frv. að ríkistollstjóri og tollstjórar í stað fjármálaráðherra nú skipi tollverði við embætti sín. Þó er gert ráð fyrir að fjmrh. skipi áfram yfirtollverði, aðaldeildarstjóra og deildarstjóra. Það fyrirkomulag að fjmrh. skipi tollverði þykir of þungt í vöfum og er breyting því lögð til. Það skal tekið fram, virðulegi forseti, að svipuð breyting var gerð eða var fyrirhugað að gera með framlagningu laga um lögregluna --- ég man nú ekki lengur nákvæmlega hvaða lög það eru --- þar sem gert var ráð fyrir að nokkur breyting yrði á skipun lögreglumanna en þó ekki yfirlögregluþjóna og annarra yfirmanna lögreglunnar. Ég fer ekki nánar út í þá sálma enda kann sú tillaga að hafa breyst í meðförum þingsins. (Gripið fram í.) Já, svo mun vera.

Í fjórða lagi er lögð til breyting á málsmeðferðarákvæðum tollalaga í því skyni að ákvæðin verði skýrari og að ótvírætt verði að endurákvörðun tollstjóra og ríkistollstjóra sé kæranleg beint til ríkistollanefndar án þess að fyrst verði að kæra hana til viðkomandi tollyfirvalds.

Í fimmta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna sem varða skylduaðila sem koma fram fyrir hönd innflytjenda til varðveislu gagna um innflutninginn. Lagt er til að geymsluskyldan verði að meginstefnu til hjá innflytjendunum sjálfum ef þeir eru bókhaldsskyldir, geymsluskylda umboðsmanna takmarkist hins vegar við tölvutæk gögn sem varða tollafgreiðsluna sjálfa.

Loks eru í sjötta lagi lagðar til orðalagsbreytingar á einstökum greinum laganna sem miða að því að færa orðalag þeirra til samræmis við breytingar sem orðið hafa á póststarfsemi á undanförnum árum og til að gera orðalag einstakra greina skýrari og leiðrétta ónákvæmt orðalag.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði málið afgreitt til 2. umr. og sent hv. efh.- og viðskn. til frekari umfjöllunar.