Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 14:24:36 (5446)

1998-04-14 14:24:36# 122. lþ. 103.3 fundur 630. mál: #A fjáraukalög 1997# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[14:24]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get ekki látið þetta tækifæri fram hjá mér fara til að ræða fjármál ríkisins, væntanlega í síðasta sinn við hæstv. fjmrh. sem eins og boðað hefur verið mun ganga í raðir almennra þingmanna í næstu viku. Þá getum við farið að ræða við hann almennt eins og hvern annan og hætt að ávarpa hann hæstvirtan hvað sem það svo stendur lengi.

Það eru nokkur atriði í þessu frv. sem mig langar að fá skýringar á ef hæstv. fjmrh. hefur þær handbærar. Eins og hefur komið fram endurspeglar frv. auðvitað þá miklu breytingu sem orðið hefur í íslensku efnahagslífi og hér er enn verið að leiðrétta tekjutölur ríkisins frá því sem þegar hafði verið gert á síðasta ári. Hér hafa tekjuskattur og eignaskattar skilað sér enn betur en þær áætlanir sem við samþykktum síðast gerðu ráð fyrir. En það sem vekur athygli er að menn virðast hafa ofmetið skatta á vöru og þjónustu upp á 169 millj. kr. Ég minnist þess að þegar góðærisins fór fyrst að gæta kom það fram að svo virtist sem virðisaukaskattur og aðrir slíkir tekjustofnar skiluðu sér ekki eins og menn höfðu vænst. Ég hygg að þar hafi komist á jafnvægi því að virðisaukaskatturinn skilar sér að hluta til eftir á en fróðlegt væri að fá skýringu á því hver er meginskýringin á þessari tölu, 169 millj., sem menn hafa ofætlað skatta á vöru og þjónustu.

Það eru örfá atriði sem mig langar að spyrja út í og ég ætla ekki að gera utanrrn. sérstaklega að umtalsefni en þar sem ég sit í hv. utanrmn. hefur ekki farið fram hjá mér, frekar en væntanlega öðrum þingmönnum hve verkefni ráðuneytisins hafa aukist mikið og hve þörfin er þar brýn fyrir fleira starfsfólk og jafnframt að menn reyni að forgangsraða verkefnum en ég kann auðvitað ekki frekar en hv. 4. þm. Norðurl. e. skýringar á þessum vanáætlunum sem hér er að finna. Þetta eru ekki allt háar upphæðir og hugsanlega hafa gengisbreytingar og fleira slíkt einhver áhrif en það er auðvitað nauðsynlegt að fá skýringar á þessu þar sem er meira og minna um fastákveðnar upphæðir að ræða. Mig langaði að spyrja út í einn lið sem heyrði undir landbrn. og er þar langsamlega stærsti liðurinn. Það er um uppkaup á fullvirðisrétti. Hér er beðið um 46,7 millj. umfram það sem áætlað hafði verið og það er í rauninni kominn tími til að við förum að gera okkur grein fyrir því hér á hinu háa Alþingi hvernig sá samningur sem gerður var við sauðfjárbændur á sínum tíma hefur gengið og hvernig hefur gengið að kaupa upp fullvirðisréttinn.

Ef ég man rétt fór þetta afar hægt af stað og það var svo sem búast mátti við tregða hjá bændum. Svo ég rifji upp ummæli bóndans á Torfalæk sem sagði að það væri lífsstíll að vera bóndi þá hætta menn auðvitað ekki búskap nema brýna nauðsyn beri til en ætlunin með þessum samningi var auðvitað m.a. sú að reyna að fækka bændum og gera þeim kleift að hætta sem það vildu. Nú sé ég að formaður landbn. gengur í salinn og hér situr einnig í salnum hv. þm. Egill Jónsson sem er varaformaður hv. landbn. ef ég man rétt. Kannski kunna þeir frekari skýringar á þessu en ráðherrann en vissulega er ástæða til að staldra við og átta sig á því hvernig þetta hefur gengið eftir.

Varðandi dóms- og kirkjumrn. vekur það athygli mína að opinber réttaraðstoð hefur farið hvorki meira né minna en 22,2 millj. fram úr því sem áætlað var og í skýringum segir að þetta sé fyrst og fremst vegna gjafsóknar. Það væri afar fróðlegt að fá skýringar á þessu. Kannski er það hreinlega efni í fyrirspurn hvað þarna er á ferðinni. Er það að aukast að dómsmrn. veiti gjafsóknir? Hvers konar mál eru þar á ferð? Hvað býr að baki? Þetta er nokkuð há upphæð.

[14:30]

Einnig vekur það athygli hve lögreglustjóraembættið í Reykjavík, sem mikið hefur verið í umræðunni að undanförnu, hefur farið fram úr fjárlögum. Í frv. er sú skýring gefin að hér sé fyrst og fremst um laun að ræða. Ég verð nú að segja að þarna er farið ansi langt fram úr og æskilegt væri að fá skýringar á því hvað veldur. Er þetta fjölgun starfsmanna eða eru þetta einfaldlega þær launahækkanir sem samið var um á síðasta ári? Þarna hefur bæst við býsna há upphæð.

Varðandi heilbr.- og trmrn. get ég ekki látið hjá líða að nefna að þar eru heldur betur gamlir kunningjar á ferð. Ár eftir ár hefur þurft að sækja um auknar fjárveitingar vegna þess að ráðuneytið hafi vanáætlað útgjöld. Það verður þó að segjast að úr því hefur dregið verulega. Á undanförnum árum hefur verið sótt um hundruð milljóna til sjúkratrygginganna og slysatrygginga og annarra tryggingaflokka. Hafa menn hreinlega tekið sig á í áætlanagerðinni og hætt þessum bókhaldsbrellum, sem ég vil meina að hafi verið beitt á undanförnum árum? Þar var reynt að sýna fram á sparnað í ráðuneytinu. Er hér um einhverja raunverulega breytingu að ræða?

Hér er líka endurtekið efni, aukin framlög til Ríkisspítalanna og Sjúkrahúss Reykjavíkur, þó hið síðarnefnda komi ekki fram hér sem sérstakur liður heldur inni í öðru. Auðvitað er rétt að minna á að vandi stóru sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu hefur alls ekki verið leystur, langt í frá. Enn er glímt við niðurskurð þar, þó ég vilji á engan hátt gera lítið úr vanda sjúkrahúsa úti á landi, svo sem á Akureyri.

Þá langar mig til þess að spyrja hæstv. fjmrh. sérstaklega út í lið sem heyrir beint undir hans ráðuneyti og það er gerð kjarasamninga. Þar er farið 11,7 millj. fram úr áætlun. Fróðlegt væri ef hæstv. ráðherra upplýsti hvað gerð kjarasamninga kostaði fjmrn. á síðasta ári. Það kemur hér fram og við vitum auðvitað að kjarasamningar voru gerðir við nánast hvern einasta hóp opinberra starfsmanna og aðra þá sem ríkið semur við. Ég held því fram að menn hafi ekki beitt mjög skynsamlegum vinnubrögðum í kjarasamningagerð hjá ríkinu á undanförnum árum og áratugum. Beðið er fram á síðasta dag með að hefja umræður, og síðan taka menn þetta í löngum lotum, í næturvinnu og miklum törnum. Fróðlegt væri að fá að vita hvað þetta kostar þegar sjálf kjarasamningagerðin hefur farið 11,7 millj. fram úr því sem áætlað var. Ég býst við að megnið af þessu sé launakostnaður þó annað kunni að vera þar inn í.

Að lokum vil ég nefna umhvrn. Því tengjast sérkennilegar skýringar í frv., hæstv. forseti. Hér er liður sem heitir Ýmis umhverfisverkefni, og í skýringum í frv. á bls. 27 segir, með leyfi forseta:

,,Frávik á viðfangsefninu ýmis umhverfisverkefni á fjárlagalið 190 Ýmis verkefni er 21,9 millj. kr. Skýringar eru margþættar en aðallega er um vanda frá árinu 1996 að ræða.`` Engar frekari skýringar eru gefnar. Hér er sem sagt vandi frá 1996 sem hefur farið yfir á árið 1997 sem skýrður er sem ,,vandi í ýmsum umhverfisverkefnum``. Fróðlegt væri að fá skýringar á þessu.

Þetta eru auðvitað ekki nein stórmál, hæstv. forseti. Ástæða er til að fagna því að í þessu frv. má sjá ýmsar afleiðingar laganna um fjárreiður ríkisins. Að mínum dómi er um skýra og skilmerkilega uppsetningu að ræða og greinargóðar töflur um fyrirhugaðar breytingar á framlögum vegna óhafinna fjárveitinga. Ég held að allt þetta geri Alþingi, alþingismönnum og öðrum sem koma að fjármálum ríkisins auðveldara að fylgjast með því sem er að gerast og hvernig fjármunum ríkisins er varið. Það er ánægjulegt að svo miklar framfarir hafi orðið í þessum efnum.

Að lokum vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir samstarfið á undanförnum árum og óska honum alls hins besta í því sem við tekur hjá honum. Hvenær og hvar sem það verður. Þótt eflaust megi segja ýmislegt um hæstv. ráðherra þá verð ég að segja honum það til hróss að hann hefur verið mjög iðinn við að ræða við þingmenn. Hann hefur ekki skirrst við að svara því sem til hans hefur verið beint og þar mættu ýmsir aðrir ráðherrar taka hann sér til fyrirmyndar. Ég held að við þingmenn metum það þegar ráðherrar sitja undir umræðum og fylgjast með og svara okkur þingmönnum þegar við leitum skýringa.