Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 15:13:57 (5449)

1998-04-14 15:13:57# 122. lþ. 103.3 fundur 630. mál: #A fjáraukalög 1997# frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[15:13]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. fráfarandi fjmrh. ræddi um fjármál sjúkrahúsanna í landinu, að þau væru erfið og hefðu löngum verið erfið. Ég skal taka undir að ekki er ástandið gott og ég held að fátt hafi verið mér erfiðara við afgreiðslu fjárlaga í vetur en að skilja svo við þann pakka sem þar var gert að það stefndi inn í fleiri milljarða áframhaldandi hallarekstur á sjúkrahúsunum í landinu. Mér finnst mikið hafa skort á að stefnumótunarumræða færi fram í fjármálum sjúkrahúsanna og ég held það sé viðurkennd staðreynd, t.d. erlendis, að það má spara mikið fjármagn í heilbrigðiskerfinu t.d. með því að styrkja sjúkrahúsin og gera þau fjárhagslega sterkari, gera þau færari um að ráða til sín hæfa sérfræðinga sem vinna þar í fullu starfi við að lækna fólk.

[15:15]

Það er líka hægt að spara peninga með því að styrkja heilsugæsluþáttinn með því að taka upp tilvísanakerfi sem ekki hefur eiginlega mátt minnast á hér. Þetta liggur fyrir. Hins vegar er hægt að eyða endalaust í heilbrigðismál ef við hleypum sérfræðingastéttinni lausri í einkaklíníkum úti um borg og bý, þar sem endalaust er verið að krefjast betri tækjabúnaðar og meiri fjárútláta af hálfu ríkisins og sjúklinga fyrir aðgerðir. Ég bara vonast til að þessi umræða sem hæstv. ráðherrann, sem því miður er fráfarandi, drap á að þyrfti að fara fram, fari hér einmitt fram einhvern tíma á næstunni um stefnumótun í heilbrigðismálum á Íslandi.

(Forseti (GÁ): Forseti verður því miður að biðjast afsökunar á því að ljósið er bilað hér og verður því að hafa gömlu mælinguna í gangi.)