Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 15:16:28 (5450)

1998-04-14 15:16:28# 122. lþ. 103.3 fundur 630. mál: #A fjáraukalög 1997# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[15:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vona að gamla mælingin sé hagstæð, það sé hagstætt mál í henni.

Fyrst vil ég segja vegna orða hv. þm. Jóns Kristjánssonar, formanns fjárln., að okkur er auðvitað stórkostleg huggun að vita að hv. fjárln. ætlar að rukka eftir skýringum á þeim atriðum sem þurfa skýringa við, eins og t.d. útafkeyrslu utanrrn. Ég mun rukka eftir þeim skýringum sem fjárln. hefur fengið frá ráðuneytinu og annars staðar að, vegna þess að ég tel ástæðu til þess að fara þannig rækilega yfir hlutina. Alþingi verður náttúrlega að taka eftirlitshlutverk sitt að þessu leyti mjög alvarlega og fara ofan í saumana á þeim hlutum sem hér eru lagðir fyrir í frumvarpsformi af hálfu hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Að öðru leyti komu ekki skýringar eða svör við spurningum mínum. Varðandi t.d. heilbrigðismálin liggur alveg ljóst fyrir að þar þarf að kalla eftir upplýsingum um stöðu mála. Hv. þm. nefndi að starfshópur sem mun hafa verið settur í að ausa upp úr pottunum hafi kynnt fjárln. vinnufyrirætlanir sínar eða áform þegar hann var að hefja störf. En síðan skildist mér að meira lægi í raun og veru ekki fyrir um það hjá fjárln. hvernig að því hefði verið unnið. Því endurtek ég spurningar mínar um það hvernig þau mál standa gagnvart vanda einstakra stofnana eins og t.d. Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri þar sem stjórnendurnir neyðast þessa dagana til að taka ákvarðanir um stórfelldan niðurskurð, lokanir, fækkun aðgerða og annað því um líkt, kannski óafvitandi um hvað að lokum kemur upp úr þessum pottum og í þeirra hlut.

Um vinnubrögðin að þessu leyti, herra forseti, þá tek ég undir það sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, 8. þm. Reykn., Sigríði Jóhannesdóttur, að auðvitað skortir hér á stefnumótun, þ.e. faglega stefnumótun í heilbrigðismálum þannig að menn geti hætt þessu pottasulluverki hér á hverju ári, þessum nauðungar-, þvingunar-, sparnaðaraðgerðum þar sem áætlaðar eru ónógar fjárveitingar til stofnananna. Síðan er búinn til pottur sem menn eiga að sækja í, koma skríðandi á hnjánum til hins háa ráðuneytis og einhverrar nefndar, biðja um framlag úr pottinum og þiggja svo það sem þaðan er rétt og afsala sér í leiðinni möguleikanum til þess að halda uppi gagnrýni eða krefjast meiri fjárveitinga. Það er það sem gerist. Þetta er í raun mjög lúaleg aðferð, herra forseti, til þess að hjartstinga stjórnendur þessara stofnana og múlbinda þá, handjárna eða hvað við viljum nú kalla það.

Ég bendi á það sem mun vera tilfellið varðandi vinnubrögðin núna með pottana, fínu pottana, þar sem er verið að ausa upp 500 millj. kr. kannski eða hvað það nú er, alla veganna 200 millj. til sjúkrastofnana úti á landsbyggðinni. Það sem ég hef af því starfi frétt, herra forseti --- ég þáði m.a. upplýsingar í þingsalnum áðan --- er að þar sitji tíu manna starfshópur kófsveittur við þetta núna og hafi gert vikum saman, tíu manna starfshópur og þrír menn í fullu starfi. Það er því búið að búa til nýtt fjárlagabatterí, nýja fjárlaganefnd úti í bæ sem situr við það að skipta upp 500 millj. kr. með tilheyrandi kostnaði. Er þetta hagræðing, herra forseti, að hafa fjölda manns í fullri vinnu við einhvers konar framhaldsfjárlög sem eru samin úti í bæ? Þetta er náttúrlega argasta framsal á fjárveitingavaldi, a.m.k. skiptavaldinu, og vinnubrögð sem ég hef stórfelldar efasemdir um að séu til bóta hvað fagleg sjónarmið eða gegnsæi í stjórnsýslunni eða annað því um líkt áhrærir.

Hverjir eru svo settir í nefndirnar? Hverjir eru gerðir að starfsmönnum í þessum hópum? Jú, það eru forsvarsmenn viðkomandi sjúkrastofnana. Þeir eru neyddir í þá aðstöðu að fara inn í einhvern starfshóp eða gerast starfsmenn í svona nefndarstarfi, slást þar við kollega sína um hlutdeild í þessum óskipta potti og fara með dúsuna heim sem þeir ná að krafsa til sín en bera líka ábyrgð á því í leiðinni að þeir fá ekki meira því þeir eru aðilar að skiptingunni.

Ég vil leyfa mér að segja að ég held að þetta séu fullkomlega óheilbrigðir stjórnsýsluhættir sem hér er verið að koma á í gegnum þetta pottaverk. Mér finnst að hv. formaður fjárln. og allt það merka fólk sem situr í þeirri nefnd ætti að hugleiða hvaða einkunn það er að gefa sjálfu sér með því að skrifa upp á vinnubrögð af þessu tagi. Af hverju gekk ekki fjárlaganefnd hreint til verks og sá um þetta og kláraði það, t.d. í samráði við heilbr.- og trn.? Af hverju er þetta sett út í bæ? Af hverju er ekki fjárlagagerðin unnin á Alþingi og það til loka? Mér finnst þetta, herra forseti, vera mikið umhugsunarefni sem þarna hefur verið að gerast og vera á skjön við þau vinnubrögð sem menn hafa verið að reyna að taka hér upp undanfarin ár, þ.e. bætta áætlanagerð, skýrari verkaskiptingu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og hreinni vinnubrögð að þessu leyti. Þetta pottasullumverk í heilbrigðismálunum er algjörlega á skjön við þetta, gengur þvert á þetta og er afturför en ekki framför í þessu tilliti.

Herra forseti. Að lokum vil ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin og hans tölu áðan. Ég tek undir það sem einhver af fyrri ræðumönnum nefndi, að hæstv. ráðherra hefur tamið sér, og það er vel, að vera virkur þátttakandi í umræðum og svara þegar hann er spurður. Ýmsir mættu taka sér það til eftirbreytni. Ég nefni t.d. hæstv. dómsmrh. og hæstv. sjútvrh. í einum og sama manninum sem stundum er fullsnubbóttur í svörum að mér finnst og sýnir innleggi þingmanna og umræðum oft ekki mikla virðingu þegar hann svarar jafnvel með einu jái eða neii og finnst fyndið. Það er þvert á móti virðingarvert að hæstv. ráðherrar sýni sjálfum sér, málaflokki sínum og auðvitað í leiðinni Alþingi þann sóma að virða slíka umræðu með málefnalegri þátttöku og innleggi.

Ég kemst ekki hjá því aðeins að nefna vegna þess að hæstv. ráðherra gerði það, hið merka ár 1991, árið er stjórnarskipti urðu. Það eru oft dálítið sérstök ár eins og kunnugt er, m.a. er stundum pexað um hver beri ábyrgðina á því sem þá gerist, hvort allt sé á ábyrgð fyrri ríkisstjórnar vegna þess að hún hafi gengið frá fjárlögum eða hvort þeir sem við taka beri þar einnig vissa ábyrgð. Þeir hafa að sjálfsögðu vissa möguleika á að grípa í taumana ef þeir svo kjósa þó að liðið sé nokkuð á ár. Um það ætla ég ekki að deila. Ég hallast þó að því að það sé að breyttu breytanda eðlilegara að gjaldfæra það sem gerist á þeim árum á fráfarandi ríkisstjórn, sérstaklega með þeim rökum að hún hefur gengið frá fjárlögum, lánsfjárlögum og öðru slíku yfirleitt áður en hún fer frá völdum.

En við verðum þá líka þegar við berum saman ár og ræðum atburði að taka til greina og sýna fulla sanngirni þeim aðstæðum sem voru á líðandi stundu. Aðstæður ársins 1991 og áranna þar á undan voru um margt sérstakar. Ég veit að ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hæstv. fjmrh. eða öðrum viðstöddum að árin 1990 og 1991 voru mjög sérstök m.a. vegna þess að þá var verið að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til að ná niður verðbólgunni og innleiða þann stöðugleika sem við síðan búum að og hefur nú ekki síst nýst hæstv. núv. fjmrh. til að ná smátt og smátt tökum á ríkisfjármálum og öðru slíku. Það er alveg ljóst að þjóðarsáttinni á sínum tíma og ýmsum aðgerðum í kringum hana á árunum 1990 og 1991 fylgdu mikil útgjöld. Það var ekki bara almenningur sem þó vissulega færði mestu fórnirnar heldur lagði ríkissjóður þar líka heilmikið í púkkið. Að ógleymdu því að á árunum 1989--1991 var mikil niðursveifla í tekjum ríkissjóðs. Þá hélt efnahagslægðin innreið sína frá gósenárunum 1987--1988 og þess sá að sjálfsögðu stað.

Alvarlegast við ástandið núna hins vegar, herra forseti, er viðskiptahallinn eins og hæstv. ráðherra kom inn á og eru ákveðin óveðursský við sjóndeildarhring þrátt fyrir að ýmsu öðru leyti séu jákvæðar horfur í efnahagsmálum.