Yfirskattanefnd

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 15:55:23 (5456)

1998-04-14 15:55:23# 122. lþ. 103.4 fundur 641. mál: #A yfirskattanefnd# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. vil ég fyrst segja varðandi frestinn sem minnst var á, en verið er að lengja frest nefndarinnar, yfirskattanefndar, úr þremur mánuðum í sex mánuði, þá held ég að það sé fyllilega raunsætt. En ég vil jafnframt láta það koma fram að sem betur fer hefur nefndin unnið aðeins á kúfnum, eins og sést á bls. 3 í athugasemdum við lagafrv., þar sem fram kemur að óafgreidd mál í lok tímabilsins árið 1994 voru tæplega 1.300 á meðan þau voru rúmlega 900 árið 1997. Ég held að það sé rétt að lengja þennan tíma í sex mánuði og þá sé fyllilega raunsætt að standa við þá tímafresti.

Ég held einnig að sú nýbreytni sem bryddað er á, að skattborgarinn eigi kost á því að fá greiddan kostnað þegar hann vinnur mál gagnvart ríkinu, sé af hinu góða og ætti að halda starfsmönnum skattkerfisins, sem ég ber mikla virðingu fyrir að sjálfsögðu og tel flesta hverja vera ágæta starfsmenn, dálítið við efnið, því að öðrum kosti mun það kosta ríkið heilmikil útgjöld, þ.e. ef úrskurðir eru ekki réttir og annað kemur í ljós þegar yfirskattanefnd fjallar um þá.

Ég held, virðulegi forseti, að stundum sé erfitt að sjá skóginn fyrir trjánum þegar maður starfar í stjórnsýslunni, ekki síst fyrir ráðherra sem starfar í ríkisstjórn um hríð og jafnvel þótt um lengri tíma sé. En ég er alveg sannfærður um að þessa tíma, tíunda áratugarins, verður minnst með því að stjórnsýslan hefur verið að breytast á mjög mörgum sviðum. Við höfum verið að setja ný stjórnsýslulög, upplýsingalöggjöf þar sem stjórnvöld eru skyldug til að veita ákveðnar upplýsingar. Við höfum séð hvernig umboðsmaður Alþingis hefur tekið á stjórnsýslunni og Ríkisendurskoðun, svo nefnd séu nokkur dæmi, og dæmi sem kannski þeim sem hér eru nokkuð nærtæk. Almennt held ég að hægt sé að fullyrða að hv. alþingismenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, hafi haft mikinn skilning á því að bæta stjórnsýsluna og allt eru þetta liðir og atriði sem byggja á löggjöf sem Alþingi hefur sett. Þetta eru mikilvægar breytingar. Þær kosta að vísu talsvert rót, kosta að menn þurfa að vinna sína heimavinnu mjög vel. Það er fjöldi manns í ráðuneytunum sem þarf að vinna að þessum breytingum. Það er meiri hraði í stjórnsýslunni og oftast kemur mönnum í hug sú einfalda lausn að nauðsynlegt sé að fjölga starfsfólki. Ég er á móti þeirri aðferð. Ég tel, og ætla að gera það að lokaorðum mínum hér, að betri aðferð sé að breyta lögum og reglum þannig að hægt sé að koma í veg fyrir árekstra og gera framkvæmdina og stjórnsýsluna þannig úr garði að hún geti verið skjót, viðbrögðin séu skjót, niðurstöðurnar skýrar og ágreiningsmálum milli hennar og almennings geti fækkað. Það er betri aðferð en að fjölga sífellt fólki í ráðuneytunum og slíkt getur einungis endað með skelfingu.

Ég vil að allra síðustu enn á ný, ég veit ekki einu sinni í hvaða skipti í dag, þakka hv. þingmönnum fyrir samstarfið meðan ég hef verið ráðherra. Ég er nú ekki dauður enn þá reyndar. Ráðherraskiptin eiga sér ekki stað fyrr en á fimmtudaginn, sem er í síðari hluti vikunnar en nú er enn þá fyrri hluti vikunnar. Ég vil þó sérstaklega þakka hv. þm. Ágústi Einarssyni fyrir okkar samstarf sem hefur verið mikið og kannski meira en gengur og gerist vegna þess að hv. þm. hjálpaði mér á sínum tíma þegar hann var utan þings á tímabili við ákveðna erfiða þætti í starfi mínu, sem var kjarasamningagerð á sínum tíma.

Virðulegi forseti. Þetta er orðið svo mærðarlegt allt saman að ég held að ástæða sé til að setja punkt hér og segja amen á eftir efninu. Ég vænti þess að stuðningur hv. nefndar við þetta mál speglist í ummælum hv. þm.