Ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:03:22 (5458)

1998-04-14 16:03:22# 122. lþ. 103.96 fundur 303#B ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík# (umræður utan dagskrár), Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:03]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að missirum saman hafa verið árekstrar og ágreiningur milli dómsmrn. og dómsmrh. annars vegar og sýslumannsins á Akranesi hins vegar. Fyrir tilstuðlan ráðuneytisins var gerð stjórnsýsluathugun hjá sýslumanni sem leiddi ekki til þess að neinar athugasemdir væru gerðar við embættisfærslur hans. Sennilega var það að tilstuðlan ráðuneytisins sem viðvera sýslumanns á vinnustað var könnuð og leiddi það ekki til að neinar athugasemdir væru gerðar. Mér er sagt frá því að núv. dómsmrh. hafi orðað við sýslumann fyrir u.þ.b. fjórum árum að flytja hann í veigaminna embætti þótt ekki hafi orðið af því. En fyrir nokkru var hins vegar sýslumanni veitt áminning vegna meðferðar hans á svokölluðu ÞÞÞ-máli þannig að enginn vafi er á að það er álit hæstv. dómsmrh. að embættisfærsla sýslumanns sé ekki að hans skapi. Hins vegar kom mjög á óvart þegar fregnir bárust af því nú fyrir páskana að í bréfi hafi hæstv. ráðherra tilkynnt sýslumanni að hann íhugi að nota heimild í stjórnarskrá til að flytja sýslumanninn á Akranesi til starfs á Hólmavík og sýslumanninn á Hólmavík til starfs á Akranesi. Ekkert var rætt við sýslumann áður en bréfið var sent og mér er ekki kunnugt um að nein ástæða sé gefin í bréfinu fyrir því að þessir nauðungarflutningar eigi sér stað heldur sé sýslumanni aðeins gefinn andmælaréttur til 20. þessa mánaðar.

Hér er um að ræða dæmalaust mál og mjög óeðlilega málsmeðferð af hálfu hæstv. dómsmrh. og því hlýt ég að kalla eftir svari við þeirri einföldu spurningu hver ástæðan er fyrir því að gripið er til slíkra úrræða.

Þá spyr ég einnig hæstv. dómsmrh. hver ástæðan sé fyrir að hann tekur þá ákvörðun að flytja sýslumanninn á Akranesi nauðugan til Hólmavíkur. Ég veit ekki betur en þar hafi verið sýslumaður í starfi á Hólmavík en svo undarlega vill hins vegar til að á sama tíma var laust eða að losna annað sýslumannsembætti úti á landsbyggðinni, þ.e. sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum en sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hafði þá verið ráðinn til starfa sem varalögreglustjóri í Reykjavík. Hvers vegna nýtti hæstv. ráðherra sér það ekki eða orðaði við sýslumanninn á Akranesi hvort hann væri reiðubúinn að færa sig þangað þar sem sýslumannsembættið var laust? Hver er ástæðan fyrir því að hann valdi sýslumannsembættið á Hólmavík þar sem sýslumaður sat í embætti fyrir og var ekki vitað til að sá sýslumaður hefði leitað eftir embætti annars staðar?

Í þriðja lagi kemur fram að Vestfirðingar eru mjög ósáttir við þetta ráðslag hæstv. ráðherra. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga sendi honum bréf þann 8. apríl 1998 þar sem hún mótmælir framferði hans. Bæjarstjórnin í Bolungarvík hefur 14. apríl gert samþykkt þar sem tekið er undir bréf stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga og mér barst afrit af því í dag. Að auki hafa hv. 1. þm. Vestf. verið afhent mótmæli yfir 200 Strandamanna við ráðstöfun hæstv. ráðherra þar sem þingmenn Vestfirðinga eru hvattir til að hlutast til um að fyrrnefnd embættismannaskipti komi ekki til framkvæmda. Þá er spurning mín til hæstv. ráðherra hvort hann engu að síður ætli að halda fast við ákvörðun sína og flytja sýslumanninn á Akranesi nauðungarflutning norður til Hólmavíkur og hver sé þá ástæðan fyrir slíkri aðgerð.