Ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:18:08 (5462)

1998-04-14 16:18:08# 122. lþ. 103.96 fundur 303#B ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð að taka undir með hv. málshefjanda og þeim þingmönnum Vestfirðinga sem hér hafa talað að þessi ákvörðun hæstv. dómsmrh. er afar undarleg stjórnsýsla svo ekki sé nú sagt beinlínis forneskja, að ætla að fara að senda embættismann sem ráðuenytið hefur átt í útistöðum við og þar á ofan áminnt, í annað embætti. Það lýsir að mínu mati fráleitum viðhorfum til þeirrar þjónustu sem hér á í hlut og auðvitað til íbúa viðkomandi svæða, að lélegur embættismaður, sem hann hlýtur að vera að mati ráðuneytisins eða tæpast fær um að sinna sínu starfi, sé nógu góður fyrir fólk á minni stöðum úti á landi. Það er það sem í raun felst í þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Þau rök að umfang embættisins sé eitthvað minna eru engin rök vegna þess að það þýðir ekki að neinn eðlismunur sé á starfseminni sem sýslumenn hafa með höndum í minni umdæmum en stærri. Það er enginn eðlismunur á verkefnum sýslumanna eftir stærð umdæma, einungis munur á umfangi. Og það þýðir sem sagt að í lagi sé að menn séu vanhæfir ef það er í minna magni eða ef menn eru hroðvirkir þá sé það í lagi ef það bitni á mönnum í færri tilvikum.

Þetta er ekki frambærileg framsetning á málum, herra forseti. Og verði þetta að fordæmi, við hverju má þá búast? Verða þá hinir brottreknu bankastjórnar Landsbankans ráðnir sem útibússtjórar í litlum útibúum af því það sé í lagi þar ef þau eru nógu lítil? Og verður lögreglustjórinn í Reykjavík, sem eitthvað hefur nú gengið misjafnlega hjá að undanförnu, kannski gerður að pólitíi á Borgarfirði eystra? Þetta gengur ekki svona, herra forseti, þetta er algjör fjarstæða. Þetta eru stjórnsýsluhættir sem ekki ganga upp. Ráðherrar og ráðuneyti verða að taka afstöðu til hæfis embættismanna á öðrum forsendum en út frá staðsetningu eða landafræði. Landafræði er ónýtur mælikvarði á það hvort menn séu hæfir eða ekki hæfir embættismenn.

Svo er það að lokum, herra forseti, þannig að ein ástæða þess að deilur hafa orðið milli sýslumannsins á Akranesi og dómsmrn. er svonefnt ÞÞÞ-mál. Gæti það hugsast að hér ætti að finna blóraböggul í því máli, hengja bakara fyrir smið? En stjórnsýsla sjálfs ráðuneytisins í þeim málum öllum og reyndar frekar tveggja ráðuneyta en eins, hefur nú ekki fengið háa einkunn, m.a. hjá Ríkisendurskoðun.