Ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:24:12 (5465)

1998-04-14 16:24:12# 122. lþ. 103.96 fundur 303#B ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík# (umræður utan dagskrár), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:24]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða hér fyrirhugaða færslu sýslumannsins á Akranesi til Hólmavíkur né heldur embættisfærslur Sigurðar Gizurarsonar og ágreining hans við dómsmrn. Almennt held ég að Sigurður hafi komist ágætlega af við íbúa Akraness enda Akurnesingar almennt löghlýðið friðsemdarfólk. En það sem ég vil hins vegar láta koma fram við þessa umræðu og vil beina til hæstv. dómsmrh. er að ég tel að það eigi að gera sýslumönnum það að skilyrði að þeir hafi búsetu í sínu umdæmi. Sýslumaðurinn á Akranesi flutti með fjölskyldu sína til Seltjarnarness fyrir nokkrum árum og hefur alllengi farið daglega á milli staða með Akraborginni til að sækja vinnu. Mér finnst ekki í lagi að yfirvaldið á staðnum, sýslumaðurinn sem er æðsti yfirmaður löggæslunnar og fulltrúi í almannavarnanefnd staðarins sé ekki á Akranesi nema að hámarki 30 klukkustundir á viku. Það er sjálfsagt ekkert í ráðningarsamningi sýslumanna sem gerir þeim þetta skylt en ég tel að því þurfi að breyta.

Flestar ríkisstjórnir og allir stjórnmálaflokkar hafa haft á stefnuskrám sínum síðustu 20 árin að auka starfsemi hins opinbera á landsbyggðinni, m.a. með því að flytja opinber störf frá höfuðborginni út á land. Síðustu tvær ríkisstjórnir hafa reynt í litlum mæli að fara eftir þessari stefnu og mætt harðri andstöðu í kerfinu. Í nýrri skýrslu sem Rekstur og ráðgjöf vann fyrir Byggðastofnun kemur skýrt fram hvernig þróunin hefur verið á undanförnum árum en fjölda stöðugilda A-hluta ríkissjóðs fækkar jafnt og þétt á landsbyggðinni en fjölgar í Reykjavík. Þannig fækkaði þessum stöðum um 31 á Vesturlandi á árunum 1994--96 á sama tíma og þeim fjölgaði um 236 í Reykjavík. Þá voru stöðugildi á hverja þúsund íbúa 45 á Vesturlandi en 105 í Reykjavík. Þegar á það er litið að þeim opinberu störfum sem þó eru til staðar á landsbyggðinni er í auknum mæli sinnt af fólki sem býr á höfuðborgarsvæðinu þá eykst þessi munur enn. Þetta á ekki bara við um sýslumanninn á Akranesi heldur presta og fleiri embættismenn. Mér finnst þessi þróun ákveðin niðurlæging fyrir landsbyggðina sem ástæða er til að taka á.

Herra forseti. Ég ítreka að ég er ekki að gera athugasemdir við embættisfærslur Sigurðar Gizurarsonar og sjálfsagt er hann í fullum rétti að búa þar sem hann kýs. Ég legg hins vegar áherslu á að þessu þarf að breyta þannig að þegar sýslumannsembætti eru veitt þá sé búseta á viðkomandi svæði skilyrði.