Ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:26:44 (5466)

1998-04-14 16:26:44# 122. lþ. 103.96 fundur 303#B ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík# (umræður utan dagskrár), Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:26]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það hefur nú komið fram í þessari umræðu sem ekki lá ljóst fyrir áður að ástæðan fyrir því að sýslumaðurinn á Akranesi á að flytjast nauðungarflutningi til Hólmavíkur er sú að hæstv. dómsmrh. er þeirrar skoðunar að hann standi sig ekki í starfi án þess þó að hæstv. dómsmrh. hafi getað sannað á hann nokkuð slíkt. Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að hæstv. ráðherra telur rétt við slíkar aðstæður að flytja embættismann nauðungarflutningi í annað umdæmi þar sem fólkið er færra.

Segja menn svo að eitthvað óeðlilegt sé við það að segja um þessar athafnir valdsmanns, að grípa þannig inn í embættisfærslur undirmanna sinna, að þetta sé eins og hér fyrr á öldum þegar valdsmenn sendu til afplánunar á Brimarhólm þá sem þeir felldu sig ekki við, án þess að þurfa að sanna á þá sakir. Með því er ekki verið að líkja saman þessum tveimur stöðum, Brimarhólmi og Hólmavík, heldur þeim valdsmönnum sem þarna eiga hlut að máli og starfsháttum þeirra.

Virðulegi forseti. Það var annað sem vakti athygli mína og það var að hæstv. dómsmrh. er ánægður með þessa gjörð sína og virðist ekki ætla að láta það hafa nein áhrif á sig þó að Vestfirðingar og hans eigin flokksmenn, m.a. einstaklingar sem hafa stutt við bakið á honum á þeim tíma á hans pólitíska ferli þegar honum lá mest við, biðji hann um að skipta um skoðun. Hann ætlar ekki að láta það hafa nein áhrif á sig. Hann sendir Vestfirðingum þessa kveðju úr ræðustóli: ,,Mér er alveg sama hvað þeir segja. Þetta valdaafskipti mitt skal standa. Maðurinn skal fluttur nauðungarflutningi hvort sem hann vill það eða vill það ekki, hvort sem þið viljið það eða viljið það ekki.``