Ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:29:15 (5467)

1998-04-14 16:29:15# 122. lþ. 103.96 fundur 303#B ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:29]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fram kom talsverður misskilningur í máli hv. 4. þm. Vestf. þar sem hann sagði og fullyrti að ákvörðunin í þessu tilviki, þ.e. að færa til sýslumann, hefði byggst á því að fólkið væri færra á Hólmavík. Það sem ég sagði var að talið var eðlilegt að færa sýslumanninn til þannig að hann fengi umfangsminna embætti til að sýsla með og það er oft gert.

[16:30]

Ég hef til að mynda flutt sýslumann vestan af fjörðum og til Reykjavíkur í umfangsminna starf, þó miklu meira fjölmenni sé hér í Reykjavík en fyrir vestan. Ég man ekki eftir að nokkur hafi kvartað yfir því. Það var einfaldlega talin eðlileg ráðstöfun. Sú var svipaðs eðlis og þessi, þó að hún hafi verið gerð með samkomulagi aðila.

Einnig er ástæða til að gera athugasemdir við það sem hér hefur verið sagt að dómsmrn. hafi lent upp á kant við viðkomandi sýslumann. Dómsmrn. fylgist með störfum sýslumannanna eins og annarra embættismanna sem undir það heyrir og ber skylda til að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar teljast til þess að halda stjórnsýslunni í góðu horfi.

Ég get tekið undir það sjónarmið sem fram kom hjá 8. þm. Reykn. um að þörf sé á að bæta aðstöðu sýslumannsins á Hólmavík. Aðstaðan hefur batnað varðandi íbúðarhúsnæði sýslumannsins en aðstöðu sýslumannsembættisins þarf að bæta.

Að lokum, herra forseti, þá get ég tekið undir það sem fram kom hjá hv. 4. þm. Vesturl. um búsetu sýslumanna. Þó tel ég að til þess að unnt sé að setja þau skilyrði þá þurfi að hafa bein fyrirmæli þar um í lögum.