Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:38:48 (5469)

1998-04-14 16:38:48# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að það hefur verið ákaflega mikið hringl með málin, veiðistjórnun og í raun og veru alla málsmeðferð varðandi veiðar okkar á norsk-íslensku síldinni. Eiginlega er sama hvar borið er niður, hvort það er veiðistjórnunin, samningagerðin eða annað. Það hefur allt verið mjög skrautlegt. Til marks um það mætti nefna að öll árin sem veitt hefur verið úr þessum stofni, frá því að veiðar hófust 1994, hefur verið breytt um kerfi. Ég held að ég fari rétt með það að í hvert einasta skipti sem menn hafa hugað að því, að áliðnum vetri, hvernig standa ætti að veiðunum, síðan farið var að stjórna þeim, þá hefur nýtt fyrirkomulag verið prófað að einhverju leyti.

Veiðarnar hófust þannig að menn fóru til veiða á alþjóðlega hafsvæðinu milli Íslands, Færeyja og Noregs, út í Síldarsmuguna sem sumir kalla á árinu 1994 og náðu strax nokkrum árangri. Fyrstu síldinni var landað snemmsumars 1994, ef minni mitt svíkur ekki. Þá voru veiðar frjálsar og um þær ríktu ekki neinar reglur. Þau skip sem fyrst fóru til veiða og náðu mestum árangri sýndu fram á að ganga síldarinnar væri orðin þannig að íslenski flotinn gæti veitt hana í verulegu magni.

Árið 1995 byggði þetta á einhliða ákvörðun Íslendinga og Færeyinga í samkomulagi. Árið 1996 var úthlutunin mjög sérstök. Þá var úthlutað vissu magni á skip á grundvelli ákveðinna reglna þar sem burðargeta réði nokkru. Árið 1997 voru veiðarnar gefnar frjálsar innan ramma þess heildaraflamarks sem kom í hlut Íslands á grundvelli fjórhliða samninga Íslands, Færeyja, Noregs og Rússlands. Þá voru sem sagt stundaðar ólympískar veiðar innan þessa magns. Nú, á árinu 1998, á að ganga í gildi ný regla, enn ein reglan og hún er til þriggja ára.

Þetta hringl, herra forseti, er auðvitað mjög bagalegt og ég þekki þess mörg dæmi að þetta hafi gert útgerðarmönnum og vinnsluaðilum ókleift að ráðast í fjárfestingar eða gera breytingar sem þeir höfðu hug á að gera. Auðvitað er ólíkri aðstöðu manna saman að jafna, t.d. til að tryggja sér hráefni í vinnslu eftir því hvort um er að ræða ólympískar veiðar eða úthlutun og á hvaða grunni sú úthlutun er.

Að þessu slepptu tel ég, herra forseti, að það þurfi auðvitað að vera allveigamikil rök til þess að hverfa frá ákvæðum laga sem Alþingi hefur sett og eru almenn lög sem eiga að gilda um málsmeðferð varðandi fiskstofna almennt við landið. Það er lagt til hér. Að taka 5. gr. laga um úthafsveiðar úr sambandi í þrjú ár og setja alveg sérstakar reglur, lagareglur um málsmeðferðina hvað varðar þennan stofn í þrjú ár. Við hljótum að spyrja okkur að því, ef ekki stendur til að gjörbreyta almennum leikreglum gagnvart öðrum stofnum, hver sú brýna þörf sé. Hver er sú ríka ástæða og rök sem valda því að þessi sérstaka málsmeðferð eigi að gilda í þessu tilviki?

Ákvæði 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eru tiltölulega skýr. Ég tel að ekki hafi leikið nokkur vafi á því hvað vakti fyrir úthafsveiðinefndinni á sínum tíma og síðan Alþingi með lögfestingu þeirra leikreglna. Í fyrsta lagi er það svo, herra forseti, að um veiðar utan lögsögu Íslands úr stofnum sem veiðast bæði innan og utan hennar, þ.e. íslenskum deilistofnum, skulu gilda ákvæði laga um stjórn fiskveiða eftir því sem við getur átt, samanber þó ákvæði þessarar greinar. Hin almennu lög um stjórn fiskveiða og ákvæði þessarar greinar, sem fjallar um deilistofna, eiga að gilda. Og síðan segir, með leyfi forseta:

,,Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni sem samfelld veiðireynsla er á skal aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú bestu veiðitímabil þeirra á undangengnum sex veiðitímabilum.``

Síðan er veiðireynslan skilgreind og sagt til um hvað þurfi til að veiðireynsla teljist samfelld:

,,Veiðireynsla telst samfelld samkvæmt lögum þessum hafi ársafli íslenskra skipa úr viðkomandi stofni a.m.k. þrisvar sinnum á undangengnum sex árum svarað til a.m.k. þriðjungs þess heildarafla sem er til ráðstöfunar af hálfu íslenskra stjórnvalda.`` Það ákvæði þessarar málsgreinar er þegar uppfyllt.

Það er nær því að vera í fjögur ár en þrjú að svo mikið hafi veiðst á einu ári að það svari til þriðjungs eða meira af því sem íslensk stjórnvöld hafa nú til ráðstöfunar á grundvelli alþjóðasamninga um veiðar þessarar tegundar, eða um 200 þús. tonn. Veiðarnar hafa a.m.k. óumdeilanlega gefið það af sér sl. þrjú ár, 1995, 1996 og 1997. Þetta ákvæði þessarar greinar er því uppfyllt. Þá spyr ég: Hvaða skilning leggja menn í orðin ,,skal aflahlutdeild einstakra skipa``? Ég tek eftir því að í greinargerð frv. er talað um að heimilt sé, á grundvelli núgildandi laga, að skipta aflaheimildum Íslands milli einstakra skipa o.s.frv.

[16:45]

Það virðist með öðrum orðum vera skoðun ráðuneytisins ef marka má greinargerðina að þetta sé heimildarákvæði en ekki skylduákvæði og ég spyr hæstv. ráðherra hvað liggi því mati ráðuneytisins til grundvallar. Hefur ráðuneytið látið gera lögfræðilega úttekt á því hver staða málsins er? Hverjar telur ráðuneytið að væru málsástæður útgerða sem á grundvelli óbreyttra laga færu fram á að þeim yrði reiknuð aflahlutdeild?

Svo vil ég segja, herra forseti, að þegar kemur að þeirri reglu sem frv. leggur upp um meðferð þessara mála næstu þrjú árin fullyrði ég að sú regla sem ráðuneytið leggur hér til er í ósamræmi við anda gildandi laga. Út af fyrir sig tel ég alveg ljóst að Alþingi getur ákveðið að setja ný lög, aftengja úthafsveiðilögin og búa til sérstakar leikreglur um þriggja ára skeið. En það getur tæplega verið eðlilegt að sú reikniregla sem notuð er til skipta milli einstakra aðila á því þriggja ára tímabili gangi gegn almennum ákvæðum fiskveiðistjórnarlaganna og gegn anda úthafsveiðilaganna sjálfra. Ég vek athygli á að í 2. gr. frv. segir í e-lið að að öðru leyti en því sem í fyrri hluta 2. gr. er rakið skuli ákvæði laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, um veiðar á norsk-íslenska síldarstofninum eiga við eftir því sem við geti átt. Hlýtur það þá ekki að skiljast sem svo að þessi sérregla eigi að vera eftir því sem kostur er í samræmi við anda almennu fiskveiðistjórnarlaganna og laganna um úthafsveiðar og ég svara hiklaust játandi. Hvers vegna er það, herra forseti, sem ég tel að sú aðferð að taka eingöngu mið af burðargetu skipa og að hluta til úthluta þeim öllum jafnt í stað þess að horfa a.m.k. að einhverju leyti til veiðireynslu sé í andstöðu við anda laganna? Það er vegna 2. mgr. sem ég hef þegar vitnað í en það er líka vegna upphafs 6. mgr. en þar segir, herra forseti: ,,Sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr viðkomandi stofni skal ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Skal hann við þá ákvörðun m.a. taka mið af fyrri veiðum skips.`` Þegar gengið var frá reglunum í 5. gr. úthafsveiðilaganna var alveg ljóst að í báðum tilvikum ætlaðist Alþingi til þess að veiðireynsla væri tekin inn í dæmið. Hvort heldur sem hún lægi fyrir sem samfelld veiðireynsla eða ef notuð væru ákvæði 6. mgr. og næstu málsgreinar þar á eftir í 5. gr., ef ekki væri fyrir hendi samfelld veiðireynsla þá skyldi taka mið af fyrri veiðum skips en væri heimilt að líta einnig til gerðar og búnaðar skips o.s.frv. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. hvernig hann telur í ljósi þessara ákvæða 5. gr. um úthafsveiðar að þetta sé hægt eða rétt, nema verið sé að fara fram á það við Alþingi að kúvenda í afstöðu sinni til þessara mála, að hafna veiðireynslu með öllu þegar kemur að því að úthluta til einstakra aðila þótt um sé að ræða sérstaka ráðstöfun í þrjú ár. Ég vek athygli á að eftir sem áður væri að sjálfsögðu hægt að byggja hina sértæku úthlutun innan þriggja ára tímabilsins að einhverju leyti á veiðireynslu. Það er afstaða mín að það eigi að gera og það er afstaða mín að það sé bersýnilega ósanngjarnt í garð þeirra skipa sem riðu á vaðið, lögðu í kostnað og sýndu sérstaklega fram á það með veiðum fyrstu tvö árin, 1994 og 1995, að íslenski flotinn var orðinn í færum til að veiða umtalsvert magn úr stofninum. Hvað var það sem lagði grunninn að kröfugerð Íslands í samningum við Noreg og Rússland annað en það að íslenski flotinn hafði þegar sýnt fram á veiðigetu sína í þessu sambandi? Ekkert annað. Á þá að meta það einskis?

Herra forseti. Það er einnig í algjöru ósamræmi við það sem gert var á Flæmska hattinum og gert var á Reykjaneshryggnum því að þar var gengið lengra. Þar var beitt svonefndri frumherjareglu sem þýddi að menn fengu sérstaka umbun fyrir að hafa brotið ísinn, fyrir að hafa riðið á vaðið og lagt grunn að samningsstöðu eða kröfugerð Íslands. Því er öllu hent hér. Enginn veit hvað á að taka við í framhaldinu. Þess vegna, herra forseti, teldi ég í fyrsta lagi að Alþingi hljóti að þurfa að fara mjög vel yfir það. Eru rök fyrir að grípa til þessarar sérstöku ráðstöfunar með þeim einu rökum, að ég fæ best séð, að síldin hafi ekki enn þá tekið upp eitthvað sem þeir í sjútvrn. kalla náttúrulegt göngumynstur? --- Reyndar hef ég nú oftar heyrt það orð notað af hæstv. utanrrh. --- Og þá lýsi ég eftir hvert hið löggilta náttúrulega göngumynstur norsk-íslensku síldarinnar er. Bíðum við, hvernig var það á síðustu árunum eða jafnvel áratugunum áður en hún hætti að veiðast hér við land? Hegðaði hún sér alltaf eins? Nei, ætli það nú. Var ekki verið að byggja bræðslur á Vestfjörðum og síðan austur eftir öllu Norðurlandi en á endanum var öll veiðin út af Austfjörðum? Hvað af þessu göngumynstri á að taka sem hið eina og sanna og löggilta göngumynstur síldarinnar? Er alveg öruggt mál að síldin muni hlýða þessu og hegða sér alveg nákvæmlega eins? Ég er ekki viss um að síldin muni hlýða fyrirmælum úr sjútvrn. Hún hlýðir ekki einu sinni Hjálmari og þá held ég sé nú ekki mikil von til að hún hlýði kontóristunum í ráðuneytinu.

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð mjög undrandi þegar ég las þetta frv. Þetta er að mínu mati mjög merkilegur samsetningur og þegar farið er yfir það hver áhrifin verða af beitingu þessarar reglu kemur mjög margt sérkennilegt í ljós. Menn skulu átta sig á því að með þessu reikniverki er verið að færa til alveg gífurlega hagsmuni. Hvað mun koma út úr þeirri reglu ráðuneytisins sem hendir öllu sem heitir aflareynsla frá undanförnum árum en tekur í staðinn tvær mælieiningar, í hlutföllunum 60/40? Það er burðargeta skipanna eins og hún stendur nú og það er jafnt á öll skip sem hafa yfir höfuð farið til veiða eða landað einu einasta kílói á einhverju af undangengnum þremur árum. Það þýðir að í sumum tilvikum færast þúsundir tonna frá skipum sem hafa stundað þessar veiðar undanfarin ár og náð árangri í þeim veiðum yfir á önnur skip sem sukku í fyrstu eða annarri veiðiferðinni, sem lögðust á hliðina á leiðinni til lands með eina farminn sem þau hafa nokkurn tímann náð um borð, eða skipum sem fóru út á mið, bleyttu nótina einu sinni, náðu aldrei einu einasta kvikindi um borð og fengu gefins af öðrum bátum og lönduðu því. Skipum sem á þriggja ára tímabili náðu því að landa nokkrum tonnum. Dæmi: Sæborg með skipaskrárnúmer 254 náði að landa 15 tonnum. Hún sökk í fyrstu eða annarri veiðiferðinni og á að fá úthlutað eftir sem áður 1.535 tonnum samkvæmt þessari fínu reiknireglu ráðuneytisins. Ætli það vefjist ekki eitthvað fyrir því skipi að ná því?

Hið merka skip Flosi, sem vann sér það til frægðar að fara á hliðina í fyrstu veiðiferðinni og sennilega einu, hefur samt komið með 19 tonn og má samkvæmt þessu framselja 9,5 tonn og á að fá úthlutað 1.568 tonnum.

Þannig má taka hvert skipið á fætur öðru. Sæljón, sem mun ekki hafa veitt mikið sjálft, hefur aflareynslu upp á 114 tonn, á að fá úthlutað 2.574 tonnum. Hvað ætli togarinn Venus hafi aflað á þessu tímabili? Hver er meðalaflareynsla hans þegar tekið er besta meðaltal áranna 1995, 1996, 1997? Það eru 4 tonn. Hann mundi þá samkvæmt 50% reglunni mega framselja 2 tonn. Það munar um það. Hin tvö þyrfti hann þá að veiða sjálfur en Venus á að fá úthlutað samkvæmt reiknireglu ráðuneytisins 2.723 tonnum. Það er dálaglegur stabbi. Gaman væri að vita hvernig þeim gengur að klára það miðað við þau 4 tonn sem þeir náðu. Svipað má segja um togarann Hoffell. Þeir náðu þó hvorki meira né minna en 5 tonnum. Það var nú talsvert meira og fá úthlutað umtalsvert magn. Hvaðan kemur þá sú mikla úthlutun umfram veiðireynslu sem þessi skip hafa? Hún kemur að sjálfsögðu frá skipunum sem náðu mestum árangri við veiðarnar þar á meðal og ekki síst skipunum sem fóru strax af stað. Af því að samúð með einstaklingsútgerðum er mjög í tísku í stjórnarflokkunum get nefnt sem dæmi útgerð Súlunnar EA sem er eins skips útgerð, var með fyrstu skipum, gott ef ekki fyrsta skipið sam landaði norsk-íslenskri síld á Íslandi eftir 27 ára hlé á Raufarhöfn. Þar munar hvorki meira né minna en því að ef Súlan fengi tekið eðlilega tillit til veiðireynslu sinnar, þótt ekki væri nema að hluta til, gæti úthlutun til hennar numið nálægt 5.000 tonnum en verður samkvæmt reiknireglu þessari um 3.700 tonn. Þarna getur munað kannski 1.300 tonnum. Ég hef undir höndum útreikninga sem er ekkert leyndarmál að eru ættaðir frá Farmanna- og fiskimannasambandinu þar sem menn hafa verið að skoða hvernig það kæmi t.d. út ef aflareynslan væri látin vega 70% og burðargetan 30% eða 67% og 33% eða eitthvað í þeim dúr. Þá kemur í ljós að þetta lagfærist talsvert miðað við aflareynslu og minna er úthlutað út á burðargetuna eða veiðileyfið eitt og sér. Ég teldi, herra forseti, að verði það niðurstaðan að fara út í sérreglu af þessu tagi hljóti menn að þurfa að skoða það að breyta reiknireglunni. Mér finnst annað svo bersýnilega ósanngjarnt að ég fer fram á að það verði skoðað að gera þær breytingar í meðförum málsins á Alþingi. Ég vil líka leyfa mér að minna menn á að það er talsverð tímamótaákvörðun hvað aðferðafræði snertir ef menn hverfa algjörlega frá því í þessu tilviki að horfa eitthvað a.m.k. til þeirrar veiðireynslu sem fyrir er. Ætli það verði ekki þannig að lokum og þegar upp verður staðið að vandfundin verði skárri viðmiðun þegar til kastanna kemur en sú að láta dóm reynslunnar um það hverjir náðu árangri í viðkomandi veiðum, a.m.k. að einhverju leyti, skera úr um það hvernig réttindunum er útdeilt? Ætli það reynist ekki líka þjóðhagslega skynsamlegt fyrirkomulag frekar en að úthluta þessu aðallega til hinna sem ekki náðu árangri í veiðunum? Til hvers er það? Hvaða tilgangi þjónar það? Þegar framsalsmöguleikarnir eru hafðir mjög takmarkaðir eins og hér á að gera mun það fyrst og fremst skapa vandamál í framkvæmdinni. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að endurúthluta því sem togarar, sem náðu fjórum tonnum og mega framselja tvö, geta nýtt sér sjálfir? Hvenær á að taka þær ákvarðanir á vertíðinni, á vertíð sem tekur aðeins þrjár, fjórar vikur? Hvernig á að tryggja að þjóðarbúið njóti þessara verðmæta öðruvísi en að gera þeim skipum sem hafa getuna til að ná aflanum kleift að gera það? Það mun reynast þjóðhagslega mjög vitlaust, herra forseti, og óhagkvæmt í öllu tilliti að hafa þetta á nokkurn annan hátt en þann.

Það er margt fleira, herra forseti, sem ég hefði haft áhuga á að fara aðeins inn á í sambandi við þetta mál og geri það kannski í seinni ræðu ef tilefni gefast til en ég tel framsetningu málsins, herra forseti, meingallaða og verulega þörf á að gera breytingar á frv. ef á að afgreiða það á annað borð.