Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 17:09:14 (5471)

1998-04-14 17:09:14# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[17:09]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Íslenskur sjávarútvegur er bundinn þröngu sovétkerfi. Það er með ólíkindum þegar litið er á þau lög og reglur sem gilda um íslenskan sjávarútveg hvernig hann er rekinn. Það er nánast eins og útgerðarmenn séu ekki fjárráða. Tekinn er af þeim hver fiskur, hver sporður, hann er veginn og vigtaður og gjöld eru tekin af þessu. Þetta er borgað inn í sjóði og síðan fær útgerðarmaðurinn eftir dúk og disk það sem honum ber, þ.e. afganginn. Það er nánast eins og ríkiskerfi, ríkisapparat, reki íslenskan sjávarútveg.

Við erum með lög um hlutaskipti og ef menn gefa sér tíma og tóm til að lesa þau lög þá eru þau með ólíkindum. Talið er upp í smáatriðum hvað eigi að gera og hvað megi gera. Síðan erum við með lög um Þróunarsjóð. Útlendingum er bannað að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi og svo erum við hv. þm. nýbúnir að setja lög um Kvótaþing og Verðlagsstofu og ég veit ekki hvað og hvað. Það eru þvílík lög og reglur sem gilda um íslenskan sjávarútveg að ég fullyrði að hann er ekki lengur einkaframtak. Hann er ekki lengur venjulegur rekstur. Þetta er ríkisrekstur, stjórnað héðan ofan úr hv. Alþingi.

Eins og ég gat um áðan þá eru útgerðarmenn ekki fjárráða. Ef Jóna framleiðir vöru og selur Gunnari koma þau sér saman um verð og greiðslutilhögun og svo greiðir Gunnar Jónu fyrir vöruna. En svo er ekki í sjávarútvegi. Þar er allt saman skipulagt ofan frá af grænum skrifborðum ráðuneytisins.

Herra forseti. Víða um heim eru menn að hverfa frá slíkri miðstýringu. Við þekkjum örlög Sovétríkjanna þar sem menn hurfu frá 70 ára tilraun sem hafði í för með sér gífulega hörmulegar afleiðingar. Og það er meira að segja talað um slíkt fráhvarf frá miðstýrðu kerfi hér á landi þó að minna sé um efndir og minna sé um gerðir. Menn tala um að einkavæða og að hverfa frá ríkisvæðingu á fjármálamarkaðinum þó það gangi hægt og alls staðar er verið að tala um að hverfa frá þessari ríkisvæðingu. Nema í sjávarútvegi. Hann skal vera áfram á forræði ríkisins, á forræði löggjafarsamkundunnar meira að segja.

Herra forseti. Harðvítugt sjómannaverkfall og verkföll undanfarið eru afleiðing af undarlegu eignarhaldi á kvótanum. Sumar útgerðir hafa fengið kvóta gefins. Þar fá sjómennirnir hundraðkall fyrir kílóið. Aðrar útgerðir hafa þurft að kaupa kvótann og þurfa að kaupa hann og þar fá sjómennirnir 40 kr. og jafnvel niður í 30 kr. fyrir kílóið. Þetta er ástæðan fyrir þessum harðvítugu verkföllum. Og þetta er vandamálið með eignarhaldið. Hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson gat þess rétt áðan að myndast muni verð á þann kvóta sem hér er meiningin að fara að úthluta eftir undarlegum reglum. Að sjálfsögðu myndast verð á hann og það verð mun skekkja þetta dæmi enn frekar.

Herra forseti. Ég hef lagt til í þingsályktun á hv. Alþingi að árlegum kvóta verði skipt á alla íbúa landsins á nægilega löngum tíma þannig að allur kvóti yrði settur á markað. Hver einstaklingur mundi reyna að selja sinn hlut í kvótanum og ein allsherjar markaðsvæðing yrði á eignarhaldinu á kvótanum og allur kvótinn færi þar af leiðandi á markað. Þetta er tillaga í anda Thatcher hinnar bresku, alþýðukapítalismi og markaðsvæðing. Ég vil endilega að menn skoði þá tillögu.

Í þessu tilfelli sem við erum hér að ræða erum við að tala um nýjan stofn til að veiða og þar er engin reynsla. Þar er engin veiðireynsla. Enginn telur sig eiga rétt á því að veiða þennan stofn. Því væri tilvalið að byrja á því að senda öllum Íslendingum, öllum íbúum landsins, heimild til að veiða alla síld úr norsk-íslenska stofninum næstu þrjú og jafnvel fimm árin og sjá svo til hvernig hverjum og einum tekst að selja. Það er náttúrlega erfitt að meta hvað útgerðirnar væru tilbúnar til að borga fyrir þessa veiðiheimild en ég giska á að það yrðu svona 2, 3 jafnvel 4 milljarðar. Þetta yrðu svona 10--15 þús. kr. á hvern Íslending og yrði alveg ágætis æfing í því að prófa svona markaðsvæðingu á kvóta. Þetta gæti orðið byrjun í átt að því kerfi sem ég hef lagt til, þ.e. að þjóðin eigi allan kvótann og svo reyni hver um sig að selja sinn hlut.