Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 17:29:31 (5473)

1998-04-14 17:29:31# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[17:29]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er fram komið frv. sem sérstaklega á að gilda um deilistofninn síld næstu þrjú árin. Það var mér mjög eftirminnilegt þegar við afgreiddum í fyrra lögin um fiskveiðar utan lögsögu hvernig ákvæðin um síldveiðarnar þvældust fyrir bæði sjútvn. og þinginu. Mig minnir að atkvæðagreiðsla hafi verið stöðvuð á seinustu stundu vegna þess að ákvæði til bráðabirgða var ekki nákvæmlega í samræmi við skilning annars stjórnarflokksins.

[17:30]

Hér er komið frv. sem er að mörgu leyti mjög athyglisvert og ég tek undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að augljóslega er fyrst og fremst um efnahagsstjórnunarfrv. að ræða fremur en að líffræðilegar forsendur skýri hvers vegna það er til komið.

Undanfarin ár hafa síldveiðarnar verið frjálsar að því leyti að þær hafa ekki verið kvótasettar og menn hafa verið að safna sér veiðireynslu og vonast til að hún nýttist og um það eru skýr ákvæði í áðurnefndum lögum sem á að taka úr sambandi. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég er sammála því að varhugavert sé að byggja úthlutun á kvóta í síld á veiðireynslu nokkurra undafarinna ára og ég held að við þingmenn verðum að hafa í huga hversu umdeild upphaflega kvótaúthlutunin var árið 1983 þegar þorskurinn var kvótasettur. Hér er farin sú sérkennilega leið að veiðireynslan er virt, en á afmarkaðan hátt. Veiðireynslan síðustu þrjú ár á að gilda sem aðgöngumiði inn í pottinn en síðan er það stærð skips sem á að gilda að hluta eða 60% og jafnt að öðru leyti eða 40%. Það verður því erfitt en ekki útilokað fyrir nýliða að byrja síldveiðar því það verða eingöngu 10% af kvótanum sem þeim verða hugsanlega opin en það er eftir náð og miskunn hæstv. sjútvrh. hvernig þær reglur verða. Hérna er um gífurlega mikla hagsmuni að ræða, 10% af síldarkvótanum á ári hverju eru mikils virði ef veiðar verða á næstunni eins og þær hafa verið undanfarin ár og ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni að það er í hæsta máta óeðlilegt að ráðherra ráði þessu einhliða. Þess vegna mun ég mælast til þess að hv. sjútvn. taki það til umræðu hvort ekki sé rétt að setja einhverjar leiðbeinandi reglur um leið og ég fagna því að það eru þó a.m.k. 10% sem eru utan við fyrir þá sem hafa ekki veiðireynslu nú þegar.

Enda þótt framsal sé takmarkað við 50% er kapphlaupið virkilega að byrja að mínu mati. Þessi þrjú ár verða þannig að eftir þann tíma verður mjög erfitt að snúa við. Það er alveg ljóst að það 50% framsal, sem nú á að heimila, mun ganga kaupum og sölum. Hver fær andvirði kvótans? Er það þjóðin sem á auðlindina, a.m.k. á meðan hún er inni í efnahagslögsögunni? Nei, það verða áfram útgerðarmennirnir sem koma til með að skiptast á summum sem nemur andvirði þessa kvóta. Ég tel því að það verði mjög erfitt að bakka eftir þrjú ár og við séum því í raun að gefa rásmarkið með frv. og það hafi að hluta til verið gert fyrir þremur árum því að það eru eingöngu þeir sem hafa veitt síðustu þrjú árin sem komast í aðalkapphlaupið.

Ég tek sérstaklega undir með hv. síðasta ræðumanni um að réttara væri að taka öðruvísi á málinu og samþykkja frv. sem hér liggur fyrir frá jafnaðarmönnum, frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og fleirum. Ég tel að það væri mun vænlegri leið til að komast hjá því að þurfa að taka ákvarðanir af þessu tagi að veita sumum einstaklingum en ekki öðrum, bara eftir handahófsreglum ráðherrans eða lögum þingsins, þau gífurlegu verðmæti sem eru í húfi. Ég tel að eðlilegra væri að veiðileyfin væru boðin út og að allir geti komið að þessum veiðum eða þeir sem telja sig geta stundað þær á hagkvæman hátt. Þá er ég ekki síst með komandi kynslóðir í huga. Ég tel að það yrði skelfilegt ástand ef það yrði svo að eftir nokkur ár hoppi þeir sem nú stunda síldveiðar af bátnum fyrir gífurlegar upphæðir og allir nýliðar þurfi að kaupa sig inn í greinina þannig að þeir geti varla stundað hana.

Þess vegna tel ég alveg augljóst að frv. er málamiðlun milli margs konar hagsmuna og það er augljóst að jafnvel við stjórnarandstæðingar teljum að það sé of mikið af þessu en ekki nógu mikið af hinu, við erum ekki einhuga í málinu. Málið er mjög mikilvægt og ég tel að þessi leið sé að sumu leyti skiljanleg miðað við núverandi aðstæður en hún er mjög varhugaverð.