Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 17:36:49 (5474)

1998-04-14 17:36:49# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[17:36]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. sem hér talaði síðast að frv. er um margt málamiðlun. Það er líka athyglivert að hlusta á athugasemdirnar sem hafa komið fram. Þær lýsa mjög vel þeim mismunandi sjónarmiðum sem eru uppi, ekki bara um norsk-íslensku síldina, heldur almennt þeim viðhorfum sem eru uppi í íslenskum sjávarútvegi. Segja má að í ekki fleiri ræðum en hér hafa verið haldnar hafi a.m.k. komið fram þrjú meginsjónarmið fyrir utan það sem liggur að baki þeirri málamiðlun sem er í frv. Hér hafa komið fram kröfur um úthlutun alfarið á grundvelli veiðireynslu, hér hafa komið fram kröfur um uppboð á veiðiheimildum og hér hafa verið sett fram þau sjónarmið að hvorki sé líffræðilega né efnahagslega þörf á nokkurri stjórnun á veiðunum.

Auðvitað lýsir þetta þeim vanda sem menn standa frammi fyrir þegar úrlausnarefni af þessu tagi blasa við að sjónarmiðin eru æðimisjöfn og það fer auðvitað ekki endilega eftir flokkum. Það getur líka farið eftir landshlutum og hvaða hagsmuni einstakir þingmenn telja eðlilegt að verja. Sjónarmiðin geta verið skipt, ekki endilega eftir flokkum, heldur eftir ýmsum öðrum sjónarmiðum.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. varpaði fram þeirri spurningu hver væri sú brýna þörf að setja fram frv. Ástæðan er sú að menn eru mjög almennt þeirrar skoðunar, þó að það sé ekki án undantekningar, að ekki sé rétt að ráðstafa veiðirétti í norsk-íslensku síldinni varanlega á þessu stigi málsins. Eins og lögin eru gera þau hins vegar ráð fyrir því að úthlutun fari varanlega fram fyrir upphaf næstu vertíðar samþykki Alþingi ekki nýja skipan þeirra mála. Það skal skipta aflahlut á milli skipa eins og kveðið er á um í gildandi lögum þannig að annað hvort standa menn frammi fyrir því að gera breytingar á lögunum ellegar að úthluta varanlega veiðiheimildum á grundvelli aflareynslu undangenginna ára. Með því að það er mjög almennt sjónarmið að ekki sé rétt að gera það á þessu stigi málsins er lagt til að horfið verði að því ráði að skipa þessum málum til bráðabirgða fyrir þrjár næstu síldarvertíðir.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. vék svo að því að sú aðferð sem lagt er til að verði notuð til bráðabirgða sé ekki í samræmi við þau meginsjónarmið varðandi úthlutun á veiðiheimildum sem eru í fiskveiðistjórnarlögunum og úthafsveiðilögunum. Að vísu er um margt rétt að þar er fyrst og fremst byggt á veiðireynslu. En eins og fram hefur komið í umræðunum má þó minna á að upphafleg úthlutun veiðiheimilda í loðnu og síld byggðist á öðrum forsendum, fjölda skipa og stærð þeirra. Á vissan hátt má segja að þessi bráðabirgðaráðstöfun taki mið af þeirri úthlutun eða úthlutunarreglum sem átt hafa sér stað varðandi uppsjávarveiðar fram til þessa.

Ugglaust er rétt hjá hv. þm. að mörg rök geta mælt með því að nota veiðireynslu fremur en aðrar viðmiðanir. Við erum þó í þeirri aðstöðu í þessu tilviki að ekki er hægt að nota veiðireynslu alfarið ef menn ætla að halda þessum hópi opnum þannig að nýir aðilar geti komið inn. Að einhverjum hluta þarf a.m.k. að byggja á öðrum sjónarmiðum. Niðurstaðan er vissulega málamiðlun en byggir á því að 90% af aflaheimildunum fari til skipa sem hafa verið að veiða á undanförnum árum og hafa veiðireynslu. En úthlutunin á milli þeirra fer eftir öðrum reglum og vissulega kemur sú úthlutun öðruvísi niður en ef byggt hefði verið á veiðireynslu og sitthvað kann að þykja skjóta skökku við í því efni. En um leið er þessi hópur opinn þannig að ný skip geta komið inn í veiðarnar. Ég hef talið mjög mikilvægt að hafa heimildir til framsals þannig að þær verði ekki afnumdar með öllu til þess að koma í veg fyrir að ráðuneytið þurfi að vera að stjórna þessum veiðum með reglugerðum og endurúthluta með ákveðnu millibili. En það er líka vandkvæðum bundið að hafa framsalsmöguleikann algjörlega opinn þegar aðgangurinn er opinn með þessum hætti sem hér er lagt til og úthlutun til nýrra skipa fer væntanlega fram eftir fjölda þeirra eða stærð eða svipuðum reglum og frv. gerir ráð fyrir því að það er ekki ætlunin að fara að úthluta til skipa einvörðungu til þess að þau fari að selja veiðiheimildir aftur. Þess vegna er framsalstakmörkunin miðuð við veiðireynslu skipanna á undanförnum árum.

Við væntum þess að með því að þessi framsalsmöguleiki er fyrir hendi reyni a.m.k. mjög lítið á að til endurúthlutunar þurfi að koma en engan veginn er hægt að útiloka að svo kunni þó að fara og þess vegna eru heimildir til að setja reglur þar að lútandi. En ég get tekið undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e. að auðvitað væri æskilegra að hægt væri að standa þannig að verki að ekki þyrfti til þess að koma að endurúthluta meðan á vertíðinni sjálfri stendur. Það skapar alltaf óvissu og verður trauðla gert þannig að öllum líki.

Ég hef þá vikið að helstu atriðum sem hér hafa komið fram. Auðvitað má ræða lengi um grundvallarviðhorf sem uppi eru í þessum efnum, hvort heldur menn eru að mæla fyrir uppboði á aflaheimildum eða stjórnlausum veiðum. Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi að fara mörgum orðum um þau grundvallarsjónarmið sem menn deila um í þeim efnum en hef reynt að víkja að þeim meginspurningum sem hafa komið fram um frumvarpið sjálft.