Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 17:47:28 (5477)

1998-04-14 17:47:28# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[17:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Heldur hefur spurningunum fjölgað við þessar umræður en að þeim hafi fækkað. Sú sem er einna áleitnust nú --- og ég vísa þar m.a. til orða hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, 1. þm. Vestf. --- er spurningin um það hvaðan frumkvæðið að þessu máli er komið. Hver hefur beðið um að þetta mál yrði flutt? Hvaða aðilar í þjóðfélaginu hafa þrýst á sjútvrn. með að flytja þetta mál? Það kom ekki fram að það væri sérstakt kappsmál ráðherra að gera þessar breytingar. Ég lýsi eftir frumkvöðlunum að þessu máli. Er það vegna óska frá síldarverkendum eða fiskvinnslunni í landinu? Mig grunar að svo sé ekki. Er þetta samkvæmt beiðni LÍÚ eða að óskum útgerðarmanna? Mig grunar að svo sé ekki heldur þvert á móti. Er þetta vegna þess að Hafrannsóknastofnun hafi farið fram á að þetta yrði haft öðruvísi en á síðasta ári? Mig grunar að svo sé ekki. Er það vegna þess að Fiskistofa eða samskiptaaðilar okkar í þessum efnum, Norðmenn, Færeyingar og Rússar hafi beðið um breytingar af hálfu Íslands á fyrirkomulaginu? Mig grunar að svo sé ekki. Hver biður um þetta mál? Hvers vegna mega lögin ekki gilda óbreytt?

Ég spyr spurninga hér, herra forseti, eins og: Hvað, ef þetta verður að lögum, verður um veiðireynslu skipa frá umliðnum árum, t.d. ef þau eru seld? Nú liggur það í hlutarins eðli að menn hafa lagt í kostnað og útbúið sín skip til veiða á nýjum stofnum í ljósi ákvæða úthafslaganna og reynslunnar. Þeir væru þá kannski að fá á móti þeim kostnaði, þeirri áhættu og óvissu sem fylgir nýrri útgerð, hlutdeild í verðmætum og sú reynsla mundi fylgja skipum þeirra. Hvað verður um það? Verður því öllu hent? Öfugt við það sem gert var á Reykjaneshryggnum og Flæmska hattinum? Hvað eiga útgerðarmenn í þessari stöðu að halda?

Myndar reynslan á þessu þriggja ára tímabili, ef að lögum verður, einhvers konar grunn til síðari tíma nota eða ekki? Það er einnig eðlilegt að þessar spurningar komi upp. Hvernig á að fara með málin í framhaldi þessa þriggja ára tímabils, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson einmitt nefndi, ef það á að vera einhver eyða í reynslusögunni. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig þá eigi í komandi tilvikum að tryggja að eitthvert frumkvæði, einhver hvati verði til að nýta nýja fiskistofna eða leita nýrra möguleika. Það er óumdeilanlegt að eitt af því sem ýtti undir sóknina og lagði grunninn að þeim viðbótarréttindum sem íslenski flotinn hefur fengið á Flæmska hattinum, á Reykjanesshryggnum og uppi í Smugu, var sá ávinningur sem útgerðarmenn gerðu sér vonir um að fá á móti þeim kostnaði og þeirri áhættu sem þeir tóku. Sú er hugsunin á bak við svonefnda frumherjareglu í úthafsveiðilögunum. Hvað eiga þeir að halda sem lagt hafa í sambærilegan kostnað vegna upphafsveiðanna á norsk-íslensku síldinni?

Við skulum taka annað nærtækt dæmi, þ.e. kolmunnann, ef menn, á þessu ári eða hinu næsta sem mikil þörf er á að gera, reyna fyrir sér með veiðar úr þeim stofni sem er stór og í góðu ástandi. Þessi stofn gengur inn í íslensku lögsöguna að hluta til en við höfum lítið sem ekkert nýtt okkur hann. Að mínu mati gæti hér verið uppistaða veiða sem næmu tugum ef ekki hundruðum þúsunda tonna. Ef menn leggja í þann kostnað, eiga þeir þá að reikna með því að samt sem áður verði farið eins með þær veiðar þeirra og hér á að gera gagnvart norsk-íslensku síldinni? Menn taki áhættuna af því að frumkvæði þeirra og veiðireynslu þeirra á fyrstu árum slíkra veiða verði einskis metin og henni verði hent. Ég fer fram á að hæstv. sjútvrh. svari þessu.

Við getum tekið túnfiskveiðar eða önnur slík dæmi. Er hin nýja hugsun í þessum efnum að hafa engan hvata fyrir hendi með því að gelda jafnharðan ákvæði úthafsveiðilaganna eins og hér á að gera gagnvart norsk-íslensku síldinni? Telur hæstv. sjútvrh. það skynsamlegt fyrirkomulag? Telur hæstv. sjútvrh. það líklegt til að hvetja til þess á komandi árum að menn leiti fyrir sér með veiðar á nýjum tegundum? Ég tel það sorglegt afturhvarf til fyrri tíma, til heimóttarhugsunarháttarins þegar sjóndeildarhringur manna náði aldrei út fyrir 200 mílna lögsöguna. Allt of lengi sátu Íslendingar fastir innan þeirrar ósýnilegu girðingar og ég hélt að reynsla síðustu ára og þeir landvinningar sem menn hafa þó náð og skilað ómældum viðbótarverðmætum inn í greinina hefðu kennt mönnum eitthvað. Það virðist ekki vera ef marka má þetta. Sem betur fer, herra forseti, eru þrátt fyrir allt enn miklir ónýttir möguleikar, a.m.k. möguleikar sem við Íslendingar höfum ekki tekið þátt í að nýta. Við ættum þó að veiða úr þessum stofnum. Ég nefni aftur þar dæmi eins og kolmunnann og túnfiskinn.

Í þessu frv., herra forseti, er sú mikila mótsögn að veiðireynsla undanfarinna þriggja ára skuli notuð til að afmarka þá sem úthlutað er til. Þá er það látið gilda. Það skulu aðeins vera skip sem veiddu eitthvað eða töldust veiða eitthvað á sl. þremur árum og síðan er 90% úthlutað til þeirra á grundvelli þessarar merkilegu reiknireglu. Á hinn bóginn er veiðireynslunni hent þegar að því kemur að skipta. Þá er veiðireynslan einskis metin og eins og ég fór yfir í fyrri ræðu minni, koma út skrautleg dæmi um báta á hafsbotni, báta sem fóru á hliðina í einu veiðiferðinni eða togara sem náðu fjórum eða fimm tonnum að meðaltali á þessum þremur árum, þ.e. þá tólf eða fimmtán tonnum yfir allt tímabilið. Þeim er úthlutað fleiri þúsundum tonna. Þannig kemur það út. Í sama mæli er tekið af skipum sem sannarlega gætu nýtt getu sína á þessu sviði.

Ég spyr hæstv. sjútvrh. hvort hann sé ekki spenntur að fara að beita ákvæðum d-liðar 2. gr. frv. um að setja reglur. Ég óska hæstv. ráðherra alveg sérstaklega til hamingju og ráðuneytinu með þá ánægjulegu daga sem ráðuneytið á fram undan í maí og byrjun júní á þessu ári. Þá verður þetta sennilega ekki nægjanlegt að gera eins og sl. vor þegar fyrst var gefin út reglugerð fyrir vertíðina, svo var gefin út önnur reglugerð til að skipta upp afgangnum svo næmi einni veiðiferð á hvert skip. Svo fóru skipin út. Þá kom bræla og sum skipin neyddust til að leita vars eða fara í land með slatta. Ráðuneytið varð að gefa út þriðju reglugerðina til að þau mættu fara út aftur, enn aftur og klára slattana sína. Útkoman úr þessu öllu varð sú að við náðum ekki kvótanum. Það var nú allur árangurinn af þessu glæsilega reglugerðarverki ráðuneytisins. Þetta verður enn þá verra.

Næst þarf hæstv. ráðherra, einhvern tímann á miðri vertíðinni, að meta hvað togararnir sem veitt hafa 4 og 5 tonn en fá 2--3 þús. tonnum úthlutað, eigi langt í land með að ná sínum hlut. Auðvitað verður hæstv. ráðherra að endurúthluta því, þegar líður á vertíðina og sjáanlegt er að láréttu útgerðirnar, þær á hliðinni eða hafsbotnsútgerðirnar, nái ekki miklu. Hann verður að endurúthluta því. Þá hefur hellingur skipa sótt um á grundvelli 10% reglunnar, fengið slöttum úthlutað og margir hverjir munu ekki veiða eitt einasta kvikindi af því. Þá verður ráðherra að meta hvernig hann fer með restina af því og úthlutar því. Þá mun hann gefa út reglugerð sem gengur út frá burðargetu skipanna í einni veiðiferð, þá kemur bræla, skipin fara í land með slatta. Þá verður að gefa út eina reglugerð enn um að þau megi klára slattana sína o.s.frv.

Þetta er tóm della. Þetta er óskilvirk stjórnun og vitleysa vegna þess að þarna þarf að veiða takmarkað magn af uppsjávarfiskum á mjög stuttri vertíð. Í raun og veru þarf að drífa þetta magn í land á nokkrum vikum. Síldin er hvort sem er ekki í vinnsluhæfu ástandi. Hugmyndir um að gera stórt grand í því eru að mínu mati óraunhæfar þangað til við höfum náð gagnkvæmum samningum við Norðmenn um að mega elta stofninn inn í norsku lögsöguna og veiða hann þar að haustinu. Þá getum við gert okkur vonir um að fara að nýta þetta til manneldis í einhverju verulegu mæli.

Ég tek undir það með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að fyrsta spurningin er auðvitað: Til hvers er þessi lagasetning yfir höfuð? Önnur spurning er: Ef menn vilja aftengja ákvæði 2. mgr. 5. gr. um varanlega úthlutun, af hverju er það þá ekki gert með einföldu ákvæði? Af hverju er það ekki gert með einni línu sem segir að þetta skuli þó ekki gerast næstu þrjú árin en reglurnar að öðru leyti látnar standa? Þannig væri fyrirkomulagið sambærilegt því sem var á síðasta ári og ég hallast að því að það væri illskásti kosturinn.

Til vara geri ég þá kröfu að menn líti til þess að lagfæra reikniregluna sem á að gilda í þessi þrjú ár, ef sú verður niðurstaðan, og taki veiðireynsluna inn að einhverju marki. Allt annað, herra forseti, er að mínu mati bersýnilega ósanngjarnt og óhagkvæmt. Annað væri heimskulegt og mundi gera stjórnun og framkvæmd þessara mála óskilvirkari og flóknari en vera þarf. Það er hægt að setja um þetta tiltölulega einfaldar reglur sem ganga vel upp og þarf ekki að vera að hringla með eftir að vertíðin er hafin. Ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til að leita eftir samkomulagi um breytingar á frv. í þá veru.