Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 18:13:20 (5481)

1998-04-14 18:13:20# 122. lþ. 103.7 fundur 654. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv., 655. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[18:13]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Vegna þessara síðustu ummæla hæstv. félmrh. vil ég harma það hve seint þessi frv. koma fram því að vissulega er hér um réttarbætur að ræða. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra hefur ýmislegt komið fram um framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar. Ýmsir hnökrar hafa verið á þeim og margt sem upp hefur komið á vinnumarkaði hefur beint sjónum að því hvernig lögin virka í raun og veru þegar fer að reyna á. Því er hér um leiðréttingar að ræða sem ég lýsi fullkomnum stuðningi við og hefði viljað hafa tíma til að vinna í hv. félmn. Ég skal svo sannarlega gera mitt til að reyna að sjá til þess að nefndin afgreiði þessi mál. En það verður að segjast eins og er að tíminn er vægast sagt naumur og hv. félmn. er að vinna við afar stór mál þar sem eru húsnæðisfrumvörp hæstv. félmrh. og jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar sem ég hefði mjög gjarnan viljað klára á þessu vori. Mér þykir afar slæmt að landið skuli vera án jafnréttisstefnu mánuðum saman þó að sumum finnist þar kannski vera bættur skaðinn. En staðan er sú að skammt lifir þings, skammur tími er til stefnu og við verðum að sjá hverju fram vindur.

[18:15]

Þingmenn minnast þess eflaust að á sínum tíma varð allnokkur rimma um núverandi lög um Atvinnuleysistryggingasjóð og einnig um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga. Við í stjórnarandstöðunni vorum býsna ósátt við margt sem þar var verið að gera og þau mál öllsömul tengdust líka hinni nýju Vinnumálastofnun félmrn. sem vinnur eftir lögum um vinnumarkaðsaðgerðir. Vissulega fer að verða tímabært að skoða rækilega hvernig sú stofnun hefur farið af stað, hvað þar er verið að gera og hvernig þetta hefur allt saman virkað til að draga úr atvinnuleysi og aðstoða þá sem eru að leita sér að vinnu.

Sem betur fer hefur efnahagsþróunin komið okkur til aðstoðar og það hefur dregið úr atvinnuleysinu. Jafnframt hafa ýmis séreinkenni þess komið í ljós. Þar vil ég sérstaklega rifja upp og nefna það sem við ræddum reyndar fyrr í vetur sem er langvarandi og stöðugt atvinnuleysi kvenna. Atvinnuleysi kvenna er enn þá mun meira en atvinnuleysi karla. Ákveðinn hópur fólks býr við langtímaatvinnuleysi og einnig er mjög vert að gefa gaum ungu fólki sem er því miður oft illa menntað eða hefur ekki lokið skóla, það á greinilega erfitt með að fá vinnu. Við þessu öllu þarf að bregðast.

Ég vil geta þess, hæstv. forseti, að mér gafst kostur á því núna fyrir u.þ.b. hálfum mánuði að sækja ráðstefnu Norðurlandaráðs um velferðarkerfið og vinnumarkaðsmál. Það var afar fróðleg ráðstefna sem ég á reyndar eftir að finna tíma til að gera almennileg skil og ég hef svo sannarlega hugsað mér vegna þess að þar kom margt athyglisvert fram, ekki síst það sem snertir atvinnuleysi. Þá verður mér einkum hugsað til þess sem Svíar eru að gera í þeim efnum. Það tengist annars vegar því að þó að margt megi segja um Evrópusambandið hafa þeir mjög miklar áhyggjur af því mikla atvinnuleysi sem er í ríkjum Evrópusambandsins. Það hefur verið samþykkt í ráðherraráðinu að setja aðgerðir gegn atvinnuleysi þar mjög ofarlega á blað og grípa til sameiginlegra og samræmdra aðgerða gegn atvinnuleysinu. Á ráðstefnunni sem ég sótti í Stokkhólmi var einmitt fulltrúi frá sænska vinnumálaráðuneytinu sem greindi frá ýmsum hugmyndum og aðgerðum sem þar væru á döfinni. Mér fannst þar sérstaklega athyglisvert að þeir eru að taka upp svokallaðar hundrað daga áætlanir sem beinast einkum að ungu fólki. Þar er stefnt að því að reyna að endurmennta, þjálfa og koma viðkomandi í vinnu á hundrað dögum. Ef ekki hefur ræst úr eftir 90 daga eru sérstakir samningar við sveitarfélögin til vara. Mér fannst einna athyglisverðast að þetta unga fólk fer beint yfir til sveitarfélaganna, sem setur það í ákveðin verkefni, og þá hefst þar nýtt ferli. Þetta er mjög athyglisvert að kynna sér nánar sem aðgerð til þess að draga úr atvinnuleysinu.

Því nefni ég þetta, hæstv. forseti, að mér finnst mjög forvitnilegt að reyna að átta mig á því hvað gerst hefur í kjölfar nýrra laga um Atvinnuleysistryggingasjóð og Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga og vildi gjarnan beina því til hæstv. félmrh. að hann greini okkur aðeins frá því í umræðunni hvert mat hans er á þessum breytingum. Ég hef heyrt ýmsa gagnrýni á lögin og m.a. kom upp töluverð umræða síðasta sumar um framkvæmdina og að ákveðinn hópur fólks hefði orðið fyrir skerðingu á bótum. Eftir því sem ég best veit var reynt að kippa því í liðinn og eflaust hefur ýmislegt komið upp. Ég hef líka heyrt gagnrýni á hina nýju Vinnumálastofnun. Umræða hefur verið um úthlutunarnefndirnar og mörgum finnst að stofnunin hafi farið hægt af stað og að þar sé ekki nægilega mikil sérþekking á málunum. Þetta er mjög ung stofnun og eflaust á margt eftir að koma þar í ljós. Ég verð að viðurkenna að við í félmn. höfum ekki getað gefið okkur tíma til að fylgjast nógu vel með þróuninni og það er eitt af því sem stendur til hjá okkur fljótlega að heimsækja stofnunina og sjá hvernig gengur og hvert mat þeirra sem þar vinna er á því hvernig gengið hefur.

Áður en ég vík að frv. væri líka afar fróðlegt að heyra frá hæstv. félmrh. hvernig gengið hefur með Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, hvernig hefur gengið að skilgreina þá hópa sem eiga þar rétt, hvað eru deildirnar orðnar margar, hversu margir fá bætur o.s.frv. Í umræðunni var talað um að hæstv. ráðherra ætlaði að skoða sérstaklega ákveðna hópa einyrkja, t.d. þýðendur, og ég vildi biðja hæstv. félmrh. að upplýsa okkur um það hvort þessi hópur hefur farið af stað. Hefur eitthvað gerst í málefnum þýðenda og annarra einyrkja sem vöktu athygli á stöðu sinni þegar frv. var til umræðu?

Þær breytingar sem verið er að leggja til sýnist mér að muni sérstaklega koma konum til góða og ég fagna því alveg sérstaklega, ekki síst í ljósi þess eins og ég nefndi hér fyrr að konur eru mun fjölmennari í hópi atvinnulausra en karlar. Það kom einmitt fram þegar verkfall sjómanna var yfirvofandi hve fiskvinnslufólk og þá ekki síst konurnar standa oft veikt að vígi. Það er því hið besta mál að hér skuli lagt til að jafna rétt þeirra. Eins líst mér mjög vel á það og ég held að það sé mjög þarft að fólk geti geymt bótarétt sinn lengur en nú er heimilt vegna þess að mjög margt getur valdið því að fólk hverfur af vinnumarkaði um skeið og oft getur tekið langan tíma að finna vinnu þó að fólk geti kannski á einhvern hátt séð sér farborða á meðan. Eins er með fæðingarorlofið. Það er mjög algengt að konur teygi fæðingarorlofið í heilt ár og jafnvel lengur og auðvitað er mjög slæmt að missa réttinn til atvinnuleysisbóta þegar þannig stendur á að foreldrar eru að reyna að vera heima til þess að sinna sínum litlu börnum.

Ég fagna alveg sérstaklega því sem hér er lagt til um rýmkun á rétti fanga. Ég vil rifja það upp að þegar við vorum að fjalla um lögin um Atvinnuleysistryggingasjóð var vakin sérstök athygli okkar á erfiðri stöðu fanga sem eiga oft mjög erfitt með að fá vinnu og koma út réttindalausir sem verður því miður oft til þess að þeir fara út af mjóa veginum og lenda oft og tíðum aftur á þeim breiða í heldur slæmum félagsskap. Ég minnist þess að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir vakti athygli á þessu og við fengum fulltrúa frá Fangelsismálastofnun og öðrum aðilum til þess að kanna þetta sérstaklega en því miður gafst ekki tími til þess að gera á þessu breytingu þegar lögin voru endurskoðuð í heild.

Það er mjög gott að hér skuli vera tekið undir tillögu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur sem benti réttilega á hve skerðingar á tryggingabótum geta oft verið óréttlátar og hér er verið að koma til móts við þau sjónarmið. Allt það sem verið er að leggja til er eftir því sem ég best fæ séð mjög til bóta og þó að það sé nú svolítið erfitt að átta sig hér á umsögn fjárlagaskrifstofunnar, hún bendir á að ýmislegt eykur kostnaðinn en annað kemur sem sparnaður á móti og fer allt eftir því hversu margir nýta sér viðkomandi ákvæði þá virðist útkomman svona vera einhvers staðar nálægt núllinu. Sannast að segja er afar erfitt að átta sig á því hver útkoman er. En það skiptir minnstu máli að mínum dómi. Það sem mestu skiptir er að hér er um réttarbætur að ræða. Það hefur dregið mjög mikið úr atvinnuleysinu og þar af leiðandi þeim kostnaði sem er við atvinnuleysið en við þurfum svo sannarlega að sinna vel þeim hópi sem er atvinnulaus, greina hann og reyna að átta okkur á því hvaða aðgerðir koma því fólki best til góða og við megum auðvitað ekki gleyma því að það eru og verða áfram sveiflur í efnahagslífinu og það getur gerst hér eins og annars staðar að atvinnuleysi vaxi að nýju.

Töluverður uppgangur hefur t.d. verið í efnahagslífi Danmerkur en þar er samt sem áður mikið atvinnuleysi og hefur verið lengi og viðvarandi þannig að við þurfum svo sannarlega að vera vakandi yfir breytingum sem eiga sér stað í atvinnulífinu, tæknilegar breytingar, samruna fyrirtækja og fleira og fleira sem veldur því að störfum fækkar. Þess vegna þurfum við að sníða kerfi okkar og laga sem best að því að aðstoða fólk við það að vera virkt í vinnu og að reyna að skipuleggja endurmenntun og símenntun og andlega og líkamlega uppbyggingu sem kemur hinum atvinnulausu best að notum.

Ég ítreka stuðning minn þessi frv. og vona svo sannarlega að okkur gefist tími til þess að klára þau fyrir vorið en ég verð að viðurkenna að ég er ekki mjög bjartsýn í þeim efnum.