Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 18:45:44 (5483)

1998-04-14 18:45:44# 122. lþ. 103.7 fundur 654. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv., 655. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[18:45]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir jákvæðar undirtektir við þessi frumvörp sem ég er að mæla fyrir. Sannleikurinn er sá að hér er um tiltölulega einföld ákvörðunaratriði að ræða þannig að ég held að það þurfi ekki að fara í löng eða mikil nefndastörf í kringum þau til þess að gera sér grein fyrir því hvernig þetta er. Annaðhvort vilja menn hafa þetta svona eða halda óbreyttu ástandi og ég á von á að nefndarmenn telji að það sem er lagt til í þessum frumvörpum sé betra en það sem er í gildandi lögum og það fyllir mig ákveðinni bjartsýni.

Vinnumálastofnun er að komast á laggirnar. Satt að segja hefur þar ýmislegt gengið hægar enn ég hefði viljað. Þarna er um mikið verkefni að ræða að koma þessu öllu á laggirnar. Þarna eru veruleg nýmæli og þetta er að komast á fullan skrið. Ég tel að mjög æskilegt væri ef hv. félmn. vildi gefa sér tíma að þingi loknu --- ég geri ekki ráð fyrir að það geti orðið meðan þing stendur eða fyrr en eftir þinglok --- til að heimsækja Vinnumálastofnun og jafnframt félmrn. Þau væru mjög velkomin í félmrn. Við vildum gjarnan kynna ykkur vinnuklúbbinn og þau önnur tiltæki sem við erum með á prjónunum eða starfrækjum til að reyna að hamla gegn langtímaatvinnuleysi og til að hjálpa fólki til vinnu. Við erum í námskeiðahaldi og jafnframt held ég að gagnlegt væri að kynna betur starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er töluvert umfangsmikil starfsemi og nauðsynleg sem er í gangi.

Jafnframt væri æskilegt ef nefndin hefði tækifæri eða tíma til þess að heimsækja einhverja af þeim svæðisvinnumiðlunum sem komnar eru í gang. Fyrir nokkru var formlega opnuð svæðisvinnumiðlun á Blönduósi og þar var jafnframt settur jafnréttisfulltrúi með tilheyrandi starfsemi með áherslu á atvinnulíf eða að útvega konum atvinnu með tilliti til þess að í því kjördæmi er atvinnuleysi meðal kvenna skráð hæst á landinu og hefur svo verið því miður um marga mánuði.

Á þessum svæðisvinnumiðlunum á að gera starfsleitar\-áætlanir með hverjum einstaklingi sem hefur verið atvinnulaus í tíu vikur samfleytt og þar á eftir er honum borgað fyrir að fylgja sinni starfsleitaráætlun, þ.e. fyrir það að leita sér að vinnu.

Varðandi Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, þá hefur gengið sorglega hægt að samræma þar sjónarmið varðandi reglugerðarsetningu og ég verð að taka það á mig að mér finnst að það hafi gengið allt of hægt og harma að svo hefur verið en vonandi er það nú að komast í lag.

Hvað varðar málefni þýðenda, þá hef ég fyrst og fremst í huga þá sem þýða fyrir sjónvarp því að þeir hafa verið í sambandi við okkur í ráðuneytinu, þá hefur verið lögð töluverð vinna í það að reyna að finna einhvern botn í þeirra málum, en það er bara ekkert einfalt. Þessir menn eiga undir annað ráðuneyti að sækja, þ.e. stofnanir sem heyra undir menntmrn. og niðurstaðan varð sú og ég hélt í góðu samkomulagi lögfræðinga í félmrn. og fyrirsvarsmanna þýðenda, að reyna að leysa þeirra mál í samstarfi við menntmrn. En þeir eru sem sagt ekki orðnir aðilar að tryggingasjóðnum, m.a. vegna þess að þeir hafa ekki félag með sér. Þetta eru verktakar eða þeim hefur verið haldið sem verktökum og þeir eru ekki skipulagðir í sinni verkalýðsbaráttu og þeirra tengsl eru mjög lausleg.

Minnst var á verkfall sjómanna. Það er rétt að segja frá því svo að það komist inn í Alþingistíðindi að meðan á verkfalli sjómanna stóð kom upp hugmynd að reyna að koma í veg fyrir að stór hópur fiskverkafólks yrði rekinn á atvinnuleysisskrá. Ég tók þá ákvörðun að Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi fyrirtækjunum til þess að halda fólkinu á launaskrá og fannst það miklu heppilegri lausn en að fyrirtækin færu að segja fólkinu upp og reka það beinlínis á atvinnuleysisbætur. Allmörg fyrirtæki urðu við þessu og röskuðu þá ekki háttum fiskverkafólks, starfsfólksins síns, eins og annars hefði orðið. Í þetta fóru töluverðir peningar og hugsanlega þarf að grípa til einhverra ráðstafana síðar á árinu ef sá kvóti sem til þess er ætlaður klárast.

Hv. 17. þm. Reykv. spurði nokkurra spurninga. Hann talaði um skerðingu á réttindum hlutavinnufólks. Ég hef ekki hér tölu þess fólks sem kæmi til með að skerðast hjá. Það er tiltölulega auðvelt að nálgast hana og ég vonast eftir að geta komið henni til nefndarinnar ef hún er að starfa að þessum málum. Ég skal strax fara fram á það við Vinnumálastofnun að fá þessar upplýsingar. Ég hafði ekki útbúið mig með þær undir þessa umræðu.

Sannleikurinn er sá að það er mjög torvelt að fá hlutavinnufólk til að taka fullt starf. Við höfum reynt töluvert til þess að fá það til að taka fullt starf. Í byggðarlagi sem ég þekki var fyrirtæki sem sótti um að flytja inn útlendinga. Þar var töluvert atvinnuleysi og farið var fram á það við viðkomandi fyrirtæki og viðkomandi vinnumiðlun að þeim sem voru á skránni væri boðin sú vinna sem í boði var. Það bara gekk ekki og voru þó á milli 20 og 30 á atvinnuleysisskrá í byggðarlaginu. Margt af því var hlutavinnufólk og ekkert af því treysti sér til þess að taka þá vinnu sem þarna var í boði.

Síðan er ein hlið enn á þessu. Til eru fyrirtæki sem eru farin að praktísera það að láta vaktirnar ekki vera nema sex klukkustundir og skerða þannig starfshlutfall fólksins en ná á sex tímum sömu eða svipuðum afköstum hjá fólkinu og á átta tímum, en ætla svo Atvinnuleysistryggingasjóði að borga sem svarar skerðingunni á starfshlutfallinu. Það er ólag á þessu hlutabótaskipulagi og það er mjög nauðsynlegt að lagfæra það.

Rétt er að hafa í huga í þessari umræðu að frítekjumarkið kemur líka til. Atvinnuleysisbætur eru rétt tæpar 60 þús. kr. á mánuði en atvinnuleysisbætur plús frítekjumarkið eru 78.974 kr. þannig að ef maður skoðar annars vegar fólk sem er á strípuðum atvinnuleysisbótum og hefur e.t.v. ekkert annað og hins vegar hlutabótafólkið sem vinnur hálfan daginn eða vinnur að hluta og nær þó nærri 80 þús., þá er þarna nokkurt ósamræmi og ég held að þetta frítekjumark sé sæmilega rýmilegt.

Það er auðvitað matsatriði hvenær atvinnuleysi er mikið og hvenær lítið. Ég tel að atvinnuleysi hér sé of mikið og er einbeittur í því að við þurfum að lækka það, við þurfum að minnka það. Það er engum greiði gerður með því að vera atvinnulaus. Við eigum að reyna að stuðla að því að sem allra flestir sem geta unnið hafi vinnu. Þess vegna er það mikil þversögn að hér skuli vera þvílíkur vinnuaflsskortur sem raun ber vitni. Við erum með í vinnu á Íslandi líklega í kringum 3.000 erlenda ríkisborgara. Á atvinnuleysisskrá voru í fyrra til jafnaðar 5.230 mínus 20% vel að merkja ef við drögum hlutabótafólkið frá sem var oftast í kringum 20%.

Í máli hv. 17. þm. Reykv. kom fram tilvitnun í vangaveltur sem hæstv. fjmrh. --- ég segi nú ekki hæstv. fyrrv. fjmrh. --- lét hafa eftir sér á Akureyri. Þar held ég að hann hafi verið en ekki veit ég hvað hann var að gera. En hann var með einhverjar vangaveltur um að atvinnuleysisbætur væru of háar. Nú kann það að vera hans mat en það er ekki mitt mat og það stendur ekki til að lækka atvinnuleysisbætur þannig að það liggi ljóst fyrir. Það stendur ekki til að gera það og menn geta sofið rólega þess vegna. Atvinnuleysisbætur hafa fyllilega hækkað í takt við þá launaþróun sem hefur verið í landinu og ég vænti þess að þær muni gera það áfram. Fleira var það ekki, herra forseti.