Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 18:58:29 (5484)

1998-04-14 18:58:29# 122. lþ. 103.7 fundur 654. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv., 655. mál: #A Tryggingasjóður sjálfstætt starfandi einstaklinga# (geymsla áunnins réttar o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[18:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins tæpa á nokkrum atriðum. Hæstv. félmrh. segir að víða sé erfitt að fá fólk til að taka fullt starf. Ég staðhæfi að það sé mjög algengt að fólk sé þvingað til að taka hlutastarf, fólk sem vill vinna fullt starf er þvingað til að taka hlutastarf. Ég þekki það úr starfi stéttarfélaga að það er algengt að þetta gerist, ekki bara á almennum markaði heldur hjá opinberum stofnunum, hjá ríkisstofnunum og hjá sveitarfélögum. Ég get nefnt fjölmörg dæmi þessa. Það er hjá þessu fólki sumu sem gerð er tillaga með þessum frumvörpum um skerðingu. Mér finnst mjög mikilvægt að ráðherrann upplýsi Alþingi um hve háar upphæðir er að ræða og um hve mikinn fjölda einstaklinga er að ræða.

Þá vil ég nefna að þó að svo kunni að vera að ýmis fyrirtæki eða einhver fyrirtæki eða einhverjir einstaklingar reyni að misnota þetta kerfi eins og önnur kerfi þá er ekki þar með sagt að það réttlæti skerðingu á stuðningi samfélagsins.

Bent var á það fyrir fáeinum árum að ýmsir læknar ávísuðu á óþarflega dýr lyf og þá var ráð ríkisstjórnarinnar að auka kostnað sjúklinga --- ég man að hæstv. félmrh. var mér þá innilega sammála um það --- að láta það ekki bitna á fátækum sjúklingum. Á sama hátt megum við ekki láta sviksemi einhverra eða veilur í kerfinu bitna á saklausu fólki en það er hætt við því að það gerist með þessu móti.

Að lokum þetta: Það þarf ekki að vera nein þversögn fólgin í því að skortur sé á vinnu á sama tíma og útlendingar koma til landsins. Ég kem að því nánar hér á eftir því að ég veit að mér gefst kostur á að koma aftur upp.