Gjaldþrotaskipti

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 11:01:54 (5491)

1998-04-15 11:01:54# 122. lþ. 104.12 fundur 325. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[11:01]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti sem ég flyt ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, Svavari Gestssyni, Margréti Frímannsdóttur, Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Guðmundi Árna Stefánssyni, Guðrúnu Helgadóttur, Svanfríði Jónasdóttur, Ögmundi Jónassyni, Kristínu Ástgeirsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur.

Hér er á ferðinni frv. sem ég tel að sé ný leið fyrir skuldug heimili í landinu og sem gefur fólki nýja möguleika til þess að vinna sig út úr fjárhagserfiðleikum án þess að missa eigur sínar og húsnæði í gjaldþrot. Þannig yrði, ef þessi leið væri samþykkt, hægt að takast á við fjárhagserfiðleika með nýrri og uppbyggjandi stefnu fyrir þá sem annars eru í vonlausri stöðu. Í frv. er um að ræða greiðsluaðlögun sem eykur líkur á því að lánardrottnar fái skuldina að öllu eða einhverju leyti greidda, fremur en að tefla kröfunni í tvísýnu í gjaldþrotameðferð þar sem skuldir gjaldanda eru langt umfram eignir. Auk þess dregur það úr kostnaðarsömum innheimtuaðgerðum lánardrottna sem oft skila litlum árangri. Greiðsluaðlögun dregur líka úr kostnaði sem oft fellur á samfélagið þegar fjölskyldur komast í greiðsluþrot. Kostnaður við nauðungarsölu og gjaldþrot fellur á hið opinbera, upplausn fjölskyldna og félagsleg vandamál fylgja í kjölfarið og eru dýr bæði einstaklingum, fjölskyldum þeirra og samfélaginu í heild. Hér er því verið að skapa möguleika sem skuldari, lánardrottinn og samfélagið í heild geta fremur haft ávinning af en með þeim úrræðum sem nú bjóðast.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru eftirfarandi, herra forseti:

Um er að ræða nýtt úrræði fyrir einstaklinga utan atvinnurekstrar sem komnir eru í algjört og viðvarandi greiðsluþrot og ekkert blasir við að óbreyttu annað en gjaldþrot, sem skuldari, lánardrottnar og samfélagið í heild tapa á.

Greiðsluaðlögun felur í sér gagngera endurskipulagningu á fjármálum skuldara, en á greiðsluaðlögunartímabilinu, sem staðið getur í átta ár, er gerð áætlun sem honum er skylt að standa við gagnvart lánardrottnum.

Brýnasti framfærslukostnaður skuldara er metinn og gert ráð fyrir að á greiðsluaðlögunartímabilinu haldi hann eftir því sem sanngjarnt telst til nauðsynlegrar framfærslu.

Greiðsluaðlögun felur í sér að greiðslu skulda eða hluta þeirra er frestað og að kröfuhafar gefa eftir vexti, kostnað eða hluta skuldar annaðhvort strax eða að loknu greiðsluaðlögunartímabili.

Greiðsluaðlögun getur verið tvenns konar. Annars vegar getur hún verið frjáls greiðsluaðlögun sem byggist á samkomulagi við lánardrottna um frestun eða niðurfellingu skulda og kostnaðar en héraðsdómari úrskurðar um slíkt samkomulag, en hins vegar þvinguð greiðsluaðlögun sem héraðsdómari getur úrskurðað um þótt ekki náist samkomulag við lánardrottna.

Skuldara er skylt að ráða sér aðstoðarmann sem fer með málið fyrir hönd skuldara; lánardrottnar geta t.d. ekki krafist kyrrsetningar, fjárnáms, gjaldþrotaskipta eða annarra fullnustugerða á greiðsluaðlögunartímabilinu.

Ekki er unnt að ganga að ábyrgðarmönnum skuldara á meðan greiðsluaðlögun stendur.

Óheimilt er að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar nema einu sinni.

Ef um er að ræða ófyrirséða atburði eins og slys eða sjúkdóma sem leiða til tímabundinnar örorku skuldara eða fjarveru frá vinnu eftir að greiðsluaðlögunartímabil hefst er unnt að framlengja það í fjögur ár.

Gert er ráð fyrir að þóknun aðstoðarmanns skuldara verði greidd úr ríkissjóði samkvæmt reglugerð er ráðherra setur.

Eins og hér hefur verið lýst, herra forseti, mundi þessi leið opna nýja möguleika mörgum sem nú eru í vonlausri stöðu og sjá ekki fram á annað en gjaldþrot og missi húsnæðis. Allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lýst yfir stuðningi við þessa leið. Framsfl. gerði það fyrir kosningar en sveik eftir kosningar. Standi Framsfl. við kosningaloforð sitt og láti Sjálfstfl. ekki beygja sig mun þetta frv. eiga greiða leið í gegnum þingið.

Ástæða er til að staldra nokkuð við þátt Framsfl. í þessu máli vegna kosningaloforða hans. Ég hygg að hér sé á ferðinni eitt stærsta kosningaloforð Framsfl. í síðustu kosningum. Frambjóðendur flokksins rituðu margar greinar um það sem ég ætla aðeins að rifja hér upp. Ekki var það síst hæstv. viðskrh. sem þar var í fararbroddi þeirra sem vildu koma á greiðsluaðlögun. Hér hef ég þrjár af mörgum greinum sem hann skrifaði fyrir kosningar um þetta mál þó heldur hafi lítið heyrst í hæstv. viðskrh. um þetta mál eftir kosningar.

Hér er grein sem heitir Greiðsluaðlögun. Þar kemur fram, herra forseti, að greiðsluerfiðleikar heimilanna hafi skapað neyðarástand og að grípa verði til víðtækra skuldbreytinga. Þær gætu falið í sér að vöxtum og/eða lánstíma sé breytt, skuld sé fryst o.s.frv. Síðan sagði núv. ráðherra, á þeim tíma, fyrir kosningar:

,,Það er mat okkar framsóknarmanna sem flytjum þetta frv. að nú sé tími kannana og skoðana á ástandinu liðinn, ástæður fólksins liggi fyrir og ástæður greiðsluerfiðleikanna séu kunnar og því sé nú runninn upp tími aðgerða og því er þetta frv. um greiðsluaðlögun flutt.``

Í kjölfar þess fylgdu tvær aðrar greinar, Út úr vítahringnum, þar sem greiðsluaðlögun var í forgrunni, og Endurreisn heimilanna, skuldbreyting aldarinnar. Þetta voru meginmarkmið framsóknarmanna í síðustu kosningum og þykir mér miður að hæstv. forseti sem nú er í stólnum, Guðni Ágústsson, skuli ekki geta tekið þátt í þessum umræðum vegna þess að hann talaði mikið fyrir þessari leið sem Framsfl. sveik eftir kosningar.

Þegar hv. þm. Guðni Ágústsson var minntur á þetta mál í upphafi þings fyrir þremur árum, þá lagði hv. þm. allt traust sitt á núverandi ráðherra og sagði, með leyfi forseta:

,,Ég trúi því að núv. hæstv. ráðherrar muni leggja á borðið í haust þau þingmál strax sem þarf í þessum efnum og hefja aðrar þær aðgerðir sem munu duga til að koma til móts við skuldugar fjölskyldur sem eiga nú í erfiðleikum.

Síðan sagði hv. þm.: ,,Ég vil segja að lokum, herra forseti, að ég gef hæstv. ráðherrum einhvern tíma enn til þess að koma til móts við þessi mál. En það er ljóst í mínum huga að ég mun gera kröfu til þess sem þingmaður að skuldbreyting aldarinnar eigi sér stað ...``

Hv. þm. var nokkuð hvassyrtari fyrir kosningarnar um þetta efni en hann vildi þó gefa ráðherrunum tíma til þess að leggja fram sínar aðgerðir. Nú höfum við aðgerðir þeirra, herra forseti. Við höfum aðgerðir framsóknarmannanna og aðgerðir sjálfstæðismannanna. Hverju hafa þær skilað fyrir fólkið? Hverju hefur skuldbreyting aldarinnar skilað? Ég held að það sé full ástæða til þess, herra forseti, að rifja það upp.

Skuldbreyting aldarinnar gekk þannig fyrir sig að hæstv. félmrh. kom hér inn í þingið nokkrum mánuðum eftir kosningar með það sem átti að vera skuldbreyting aldarinnar. Samkvæmt því áttu heimilin að geta skuldbreytt erfiðum skuldum.

Þegar þingið fór að skoða þetta mál, herra forseti, kom í ljós að aðgerðir sem höfðu verið í gildi frá árinu 1993 voru miklu betri en þessi skuldbreyting aldarinnar. Þingnefnd skoðaði málið og í ljós kom, herra forseti, að ef þessi nýja leið Framsfl. um skuldbreytingu aldarinnar, sem færð var inn í þingið nokkrum mánuðum eftir kosningar, hefði verið í gildi á árinu 1993, þá hefðu ekki 2.000 manns fengið aðstoð vegna greiðsluerfiðleika heldur aðeins 400. Það var öll skuldbreyting aldarinnar, herra forseti.

Hæstv. ráðherra var gerður afturreka með þetta frv. og reglurnar sem verið höfðu í gildi frá 1993 voru einfaldlega staðfestar og lögfestar hér á hv. Alþingi.

Síðan komu hin úrræðin sem áttu að koma í staðinn fyrir þá greiðsluaðlögun sem ég mæli hér fyrir. Hver voru þau, herra forseti? Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga. Það var fyrsta leiðin. Önnur leiðin var heimild í skattalögum til að gera nauðasamninga vegna skattaskulda hjá einstaklingum. Þetta átti að koma í stað greiðsluaðlögunar. Nú hefur verið upplýst hverju þetta hefur skilað fyrir fólk sem á í greiðsluerfiðleikum og er að missa sín heimili.

Frá 1. júlí 1996 til 31. desember 1997 eða á einu og hálfu ári hafa 22 fengið aðstoð samkvæmt lögum um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga. Þetta átti að breyta öllu hjá skuldugum heimilum í landinu en á einu og hálfu ári hafa 22 einstaklingar fengið aðstoð. Það er allt og sumt, herra forseti.

Hvað með heimild í skattalögum til að gera nauðasamninga vegna skattaskulda hjá einstaklingum? Herra forseti. Hvað hafa margir fengið aðstoð samkvæmt þeim lögum? Ekki einn einasti hefur fengið aðstoð samkvæmt þeim lögum. Þó eru þetta þau tvö frumvörp sem áttu að koma í stað greiðsluaðlögunar sem framsóknarmenn mæltu svo sterkt fyrir um síðustu kosningar. Greiðsluaðlögun átti að leysa allan vandann. Ég hygg að hv. þm. Guðni Ágústsson geti e.t.v. þakkað þessum loforðum Framsfl. það að hann situr í þingsæti á Alþingi. En þessi loforð voru svikin og ég held að þetta séu ein stærstu svik aldarinnar, herra forseti. Það er þess vegna sem við í stjórnarandstöðunni höfum tekið okkur saman og flutt frv. um þetta efni. Við fluttum þáltill. um þetta á nokkrum þingum á undan en nú viljum við gefa framsóknarmönnum raunverulegt tækifæri til þess að standa við sitt loforð. Það stendur bara upp á Framsfl. að þetta frv. geti orðið að lögum. Öll stjórnarandstaðan er sammála um þessa leið. Sjálfstfl. hefur verið á móti henni.

Jón Kristjánsson er eini þingmaður Framsfl. í salnum, fyrir utan þann sem hér er í forsetastól, þeir flýja alltaf þegar óþægileg mál eru á ferðinni. Ég spyr hv. þm. Jón Kristjánsson: Ætlar hv. þm. að beita sér fyrir því að þingmenn Framsfl. samþykki þetta mál?

Framsóknarmenn hafa ekki aðeins svikið þessi loforð og komið með tvö frumvörp sem litlu eða engu hafa skilað. Þeir hækkuðu líka dómsmálagjöldin við síðustu fjárlagagerð. 40--50 millj. kr. hækkun á aðfarargjöldum og gjöldum fyrir beiðni um nauðungarsölu. Kemur þetta í staðinn fyrir greiðsluaðlögun, herra forseti?

Það er auðvitað nauðsynlegt, herra forseti, að rifja þetta upp vegna þess að það kennir kannski hv. þingmönnum Framsfl. að segja minna fyrir kosningar en efna þess í stað loforð sín.

Ég vil áður en ég fjalla frekar um þetta frv. víkja að því sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði fyrir kosningarnar um þetta frv. sem ég mæli hér fyrir. Hv. þm. spurði varðandi greiðsluaðlögunina:

,,Liggur nokkuð á?`` Og hann svaraði ,,Já, líf, heill og hamingja þúsunda heimila ungs fólks um allt land veltur á skjótum aðgerðum. Húsnæðisstofnun, lífeyrissjóðir og bankar verða að lengja lán og skuldbreyta. Alþingi verður að gera ráð fyrir peningum í fjárlögum um þessar aðgerðir. Ríkisstjórn ásamt aðilum vinnumarkaðarins verður að gera strax nýja þjóðarsátt sem hjálpar fólki í þessum vanda. Málið þolir enga bið. Það verður að leysa fyrir kosningar.``

En hvað var svo gert? Ég hef lýst því, herra forseti. Jú, það var lengt í húsbréfalánunum en hverju skilaði það? Aðeins 6% þeirra sem tekið hafa lán hafa tekið þau til 40 ára. Á þessum tveimur árum hafa aðeins 6% af heildinni tekið lán til 40 ára. Það var öll björgin. Þessa sorgarsögu Framsfl. í þessum málum, þessi stóru svik aldarinnar, verður að ræða í tengslum við þetta mál.

[11:15]

Herra forseti. Ég hef í stórum dráttum farið yfir hvað þetta frv. felur í sér og hvað það er mikilvægt fyrir skuldug heimili að frv. verði að lögum. Þessi leið hefur verið reynd t.d. í Noregi og hún hefur gefist þar mjög vel. Um 5.500 umsóknir bárust í Noregi fyrsta árið og áhrifin hafa orðið þau að í auknum mæli hafa tekist frjálsir samningar milli aðila sem taka mið af þeim reglum sem lögin um greiðsluaðlögun byggja á. Rúmlega 22 þús. manns hafa leitað til sýslumanns með fyrirspurnir um greiðsluaðlögun vegna greiðsluerfiðleika. Það liggur því fyrir að þessi leið hefur reynst mjög vel t.d. í Noregi þar sem hún hefur verið reynd. Þessi leið hefur fyrst og fremst gagnast fólki með lágar tekjur og skuldir sem eru fimm til sex sinnum meiri en almennt gerist. Það er mikið um að einstæðir foreldrar með börn undir 18 ára aldri hafi farið þessa leið.

Herra forseti. Það mætti auðvitað margt um þetta mál segja. Ég vil líka vekja athygli á því að ég er ekki fyrst að koma með þetta núna í þingið eftir að ég hætti sem ráðherra vegna þess að þetta mál var undirbúið í tíð minni sem ráðherra 1993. Þá var gerð ítarlega skýrsla um þessa leið og nefndin sem fór í þetta verkefni mælti eindregið með að þessi leið yrði farin og þar voru tíundaðir mjög kostir þess og gagnsemi að koma á fót þessari sérstöku greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum erfiðleikum. Mér vannst ekki tími í ráðuneytinu til að flytja það sem ráðherra, en hv. þm. Össur Skarphéðinsson fylgdi þessu máli eftir, t.d. með flutningi á þáltill. Hv. fyrrv. þm. og núv. forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tók upp frv. framsóknarmanna, þar sem Finnur Ingólfsson var í forustu, og flutti það á þingi eftir kosningar þegar sýnt var að framsóknarmenn ætluðu ekki að standa við málið og síðan hafa verið fluttar tillögur, t.d. um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara, og nú hefur verið ráðist í að útbúa frv. til að freista þess að málið nái fram að ganga.

Ég vil líka minna á að Húsnæðisstofnun, sem gerði umsögn um frv. um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara, sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Húsnæðisstofnun er þeirrar skoðunar að lög frá fyrra ári um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga, lög um hugsanlega niðurfellingu á skuldum við Innheimtustofnun sveitarfélaga og lög um hugsanlega niðurfellingu á tekju- og eignarskatti vegna greiðsluerfiðleika einstaklinga, koma ekki í stað greiðsluaðlögunar.``

Þetta var álit Húsnæðisstofnunar. Enda hefur það auðvitað komið í ljós og ég hef lesið hér tölur, 22 einstaklingar hafa fengið aðstoð samkvæmt frv. um réttaraðstoð til einstaklinga og enginn hefur fengið niðurfellda skattaskuld hjá fjmrn. vegna laga sem sett voru þar að lútandi, sem koma áttu í stað greiðsluaðlögunar.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fjalla frekar um þetta mál. Ég hef farið yfir helstu meginatriði í málinu en það er auðvitað ýmislegt annað sem væri freistandi að taka til umræðu undir þessu dagskrármáli en það er samkomulag um að reyna að stytta frekar umræður um einstök mál sem hér eru á dagskrá þingsins í dag.

Ég vil í lokin segja, herra forseti, um leið og ég óska þess að málinu verði vísað til hæstv. félmn., að ég minni enn á að það stendur bara upp á Framsfl. að þetta mál verði samþykkt á þingi. Það er Framsfl. sem ber ábyrgð á því hvort þetta mál fái framgang, mál sem gæti bjargað mörgum heimilum í landinu sem eru í erfiðleikum og skuldabasli og ekkert blasir við annað en gjaldþrot. Framsóknarmenn hafa tækifæri nú, herra forseti, til að standa við stóru orðin frá síðustu kosningum.