Gjaldþrotaskipti

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 11:20:10 (5492)

1998-04-15 11:20:10# 122. lþ. 104.12 fundur 325. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[11:20]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 13. þm. Reykv. nefndi nafnið mitt í þessari umræðu um leið og hún kyrjaði gamla sönginn sem hefur verið sunginn hér í þrjú ár um svik Framsfl. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að tala fyrir hönd þingflokks framsóknarmanna um hvort þetta frv. nær fram að ganga. Það mun verða skoðað í nefnd eins og önnur mál sem hér fara fram og ég ætla að geyma mér allar yfirlýsingar um það að sinni.

Hitt er svo annað mál að um leið og talað er um kosningasvikin þá hefur hv. þm. réttilega nefnt nokkrar breytingar á löggjöf sem hafa hnigið í þessa átt. Hitt finnst mér þó skipta mestu máli að á þeim tíma sem þessi ríkisstjórn hefur setið hafa orðið algjör umskipti í efnahagsmálum. Kaupmáttur fólks hefur aukist meira en nokkru sinni áður. Aðstaða bankanna til að skuldbreyta fyrir fólk og lengja lán hefur stórbatnað með batnandi efnahagsástandi. Það finnst mér skipta höfuðmáli í þessu sambandi en eigi að síður hafa verið gerðar aðgerðir sem hníga í þessa átt og þær tölur um hve margir hafa nýtt þær aðgerðir segja í sjálfu sér ekki alla söguna. Þær segja í sjálfu sér ekkert um það hve margir hafa fengið skuldbreytingar og auðvitað er það langbest að það sé gert með eðlilegum bankaviðskiptum og eðlilegri fyrirgreiðslu með batnandi stöðu bankanna, og vonandi verður framhald á þeirri þróun.