Gjaldþrotaskipti

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 11:22:30 (5493)

1998-04-15 11:22:30# 122. lþ. 104.12 fundur 325. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[11:22]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ákaflega merkilegt að hv. þm. velur að fara í stutt andsvar þar sem hann hefur eina og hálfa mínútu í stað þess að biðja um orðið og skýra fyrir þjóðinni af hverju þingmenn Framsfl. hafa svikið þetta stóra kosningaloforð um skuldbreytingu aldarinnar og greiðsluaðlögun. Hv. þm. nefnir að ég sé að kyrja einhvern söng um svik Framsfl. Þetta eru bara staðreyndir málsins, herra forseti. 22 einstaklingar af þeim hundruðum sem eru í vandræðum hafa fengið aðstoð gegnum leiðir framsóknarmanna, 22 einstaklingar. Og í stað þess að gera fólki grein fyrir þeim svikum sem Framsfl. hefur orðið ber að kýs hann að nota þessa einu mínútu sem hann valdi sér í andsvörum að ræða um umskipti í efnahagsmálum. Jú, jú, það hafa orðið umskipti í efnahagsmálum en ég fullyrði að láglaunafólkið hefur ekki fundið mikið fyrir því í sinni buddu þó að bankastjórar og fleiri hafi gert það. Láglaunafólk hefur ekki fundið það í sinni buddu vegna þess að mörg heimili eru í miklu basli og hafa ekki fundið góðærið í sínum vösum. Og það hefur ekkert verið gert fyrir þetta fólk í húsnæðismálum sem máli skiptir til að auðvelda því að halda sínu húsnæði og að eiga fyrir brýnustu framfærslunni. Það er því aumkunarvert, herra forseti, að hv. þm. skuli velja sér eina mínútu til að gera málinu skil, þessu stóra máli, sem ég er sannfærð um að fleytti nokkrum þingmönnum framsóknarmanna inn á þing eftir síðustu kosningar. En það er allt svikið, herra forseti. Það er nú staðreyndin í þessu máli. Þessi söngur verður kyrjaður áfram það sem eftir lifir þessa þings og eftir kosningar nema framsóknarmenn standi við stóru orðin og samþykki þetta frv. um greiðsluaðlögun. Ég ráðlegg þeim það eindregið vegna þess að ég met t.d. hv. forseta, sem nú er í forsetastóli, sem ég hélt reyndar að væri eini maðurinn eftir sem hefði einhverja félagslega hugsun í Framsfl. og þess vegna var ég að vona að hann gæti tekið þátt í þessum umræðum.