Gjaldþrotaskipti

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 11:24:55 (5494)

1998-04-15 11:24:55# 122. lþ. 104.12 fundur 325. mál: #A gjaldþrotaskipti# (greiðsluaðlögun) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[11:24]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekki ótakmarkaðan tíma til að svara fullyrðingum hv. þm. um kosningasvik Framsfl. því að þær fullyrðingar eru rangar og það er óþarfi að fjölyrða um þær í löngu máli. Ég endurtek að þær tölur um hve margir hafa nýtt sér fyrirgreiðslu samkvæmt nýjum lögum segja í sjálfu sér ekki neina sögu um þetta mál og þær segja í sjálfu sér ekkert um heildarmyndina hvað varðar lengingu lána og fyrirgreiðslu sem almenningur hefur fengið hjá fjármálastofnunum. Það væri hægt að fara yfir það mál og verður auðvitað gert þegar það kemur til nánari umræðu og vinnslu í nefndum í þinginu og vafalaust til 2. umr., ef tími gefst til þess á þeim tíma sem eftir er, ég vil ekkert um það segja. En ég þarf ekki lengri tíma til að svara fullyrðingum hv. þm. um kosningasvik Framsfl. Ég er orðinn vanur að heyra þennan söng og búið er að boða að hann verði sunginn hér áfram til loka kjörtímabilsins. Það er þá ekkert við því að gera. Þau mál verða lögð undir dóm fólks í næstu kosningum og ég kvíði ekkert þeirri niðurstöðu sem þar verður.